Evrópuvettvangurinn: Kamiński endurkjörinn formaður

Pólski sagnfræðingurinn dr. Łukasz Kamiński var endurkjörinn forseti Evrópuvettvangs um minningu og samvisku á ársfundi hans 3.–6. nóvember 2019, sem haldinn var í Tirana International Hotel í Tirana, höfuðborg Albaníu. RNH er aðili að Evrópuvettvangnum, sem hefur þann tilgang að halda uppi minningu fórnarlamba alræðisstefnunnar, nasisma og kommúnisma, með ráðstefnum, útgáfu og annarri starfsemi. Nýlega lýsti Evrópuþingið yfir sérstökum stuðningi við vettvanginn. Sat prófessor Hannes H. Gissurarson fundinn fyrir hönd RNH, en skipulagningu hans annaðist dr. Jonila Godole, forstöðukona Stofnunar um lýðræði, fjölmiðla og menningu í Albaníu, og fórst henni það vel úr hendi.

Mánudaginn 4. nóvember var farið til bæjarins Shkodra nálægt landamærunum við Svartfjallaland, en þar var miðstöð andstöðunnar við ógnarstjórn kommúnista 1944–1991. Gekk alræðisstjórn Envers Hoxha svo langt að lögleiða guðleysi og sprengja upp allar moskur og kirkjur landsins eða breyta þeim í kvikmyndahús, líkamsræktarstöðvar eða vörugeymslur. Í Shkodra var opnuð farandsýning um „Alræði í Evrópu“ og síðan haldið til þorpsins Fishta og snæddur hádegisverður í frægum veitingastað þar í grennd, Mrizi i Zanave.

Þriðjudaginn 5. nóvember fóru fram hefðbundin ársfundarstörf, og var skipulagsreglum vettvangsins breytt nokkuð til að auðvelda afgreiðslu mála og stjórnarmönnum fjölgað úr fimm í sjö. Síðan var haldin málstofa um varðveislu minninga í Albaníu og annars staðar í Evrópu. Eftir það var farið í „Hús laufanna“, sem var upphaflega mæðraheimili, en seinni hluta stríðsins hafði Gestapo aðsetur þar. Eftir valdatöku kommúnista haustið 1944 kom leynilögregla þeirra sér fyrir í húsinu, en nú er þar safn um kúgun þeirra. Voru þar sýnd hlerunarbúnaður, felumyndavélar og pyndingartæki alræðisstjórnarinnar. Um 34 þúsund manns sátu í fangelsi í tíð kommúnista, og um sex þúsund manns týndu lífi af þeirra völdum. Þar sem Albanir eru um tíu sinnum fleiri en Íslendingar, hefði það samsvarað röskum þrjú þúsund stjórnmálaföngum hér á landi og 600 dauðsföllum. Um kvöldið var matast í veitingahúsinu Millennium Gourmet Restaurant.

Miðvikudaginn 6. nóvember var málstofa um samstarf þýsku stofnunarinnar Konrad Adenauer Stiftung við samtök í Albaníu, sem hafa að markmiði að efla þar lýðræði. Þá fóru nokkrir forsvarsmenn vettvangsins, þar á meðal prófessor Hannes H. Gissurarson, á fund utanríkisnefndar Albaníuþings í þinghúsi borgarinnar, og urðu þar fjörugar umræður um uppgjörið við fortíðina í Albaníu og annars staðar. Sérstaklega lét þar að sér kveða þingmaðurinn Ralf Gjona, og mæltist honum vel. Þátttaka RNH í Evrópuvettvangnum er liður í samstarfsverkefni við ACRE, Evrópusamtök íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“.

Comments are closed.