Þrír fyrirlestrar á næstunni

Rannsóknastjóri RNH, dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, flytur þrjá fyrirlestra erlendis næstu daga. Í Kænugarði ræðir hann 8. nóvember um frjáls alþjóðaviðskipti og vanda Úkraínu. Færir hann rök fyrir því, að við frjáls alþjóðaviðskipti geti stjórnmálaeiningar smækkað, þar sem þær geti nýtt sér kosti hinnar alþjóðlegu verkaskiptingar, enda hafi sú orðið raunin á. Þess vegna hafi ekki verið óhagkvæmt fyrir Noreg að skilja við Svíþjóð, Ísland við Danmörku og Úkraínu við Rússland. Vilji Úkraínumenn fara varlega í skiptum við sína voldugu granna í norðri, þá gæti verið skynsamlegur kostur fyrir þá að gerast aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu, EES, í stað þess að ganga í Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið. Aðildin að EES hafi í meginatriðum verið Íslendingum hagkvæm.

Hayek flytur fyrirlestur á Íslandi 5. apríl 1980.

Í Vínarborg 13. nóvember ræðir Hannes um rætur sumra stjórnmálahugmynda Friedrichs von Hayeks í hagfræðikenningum Carls Mengers. Báðir leggi þeir Menger og Hayek áherslu á, að markaðurinn sé þróun, en ekki niðurstaða, þessi þróun taki tíma og sé undirorpin áhættu og óvissu. Menger taldi eitt helsta rannsóknarverkefni félagsvísinda vera, hvernig stofnanir og venjur gætu sprottið upp, án þess að nokkur hefði skapað þær, og haft góð (eða vond) áhrif. Nefndi hann í því sambandi málið, venjurétt, peninga og markað. Hayek er honum sammála, en spyr, hvernig hin fjölbreytta og farsæla menning Vesturlanda hafi skapast þrátt fyrir drjúgar takmarkanir einstaklingsbundinnar skynsemi. Svar hans er, að í frjálsu hagkerfi geti menn nýtt sér þekkingu hver annars og um leið með tilgátum og tilraunum, höppum og glöppum, skapað nýja þekkingu. Hayek kom til Íslands 1980, flutti tvo fyrirlestra og hafði mikil áhrif.

Í Poitiers 15. nóvember ræðir Hannes um útkomu hins umdeilda rits Úr álögum (Out of the Night) eftir Jan Valtin, réttu nafni Richard Krebs, á Íslandi árið 1941. Íslenskir kommúnistar hömuðust gegn ritinu, sem lýsti erindrekstri Krebs fyrir Alþjóðasamband kommúnista, aðallega á öndverðum fjórða áratug. Háðu Halldór Kiljan Laxness og Benjamín Eiríksson harða ritdeilu um málið, en Hannes greinir frá leyndarmáli, sem þeir geymdu báðir og nær einir. Kommúnistum tókst að koma í veg fyrir, að MFA, Menningar- og fræðslusamband alþýðu, gæfi út seinni hluta ritsins, og gáfu „Nokkrir félagar“ það loks út árið 1944. Almenna bókafélagið endurútgaf bókina árið 2015. Í rannsóknum sagnfræðinga hefur komið í ljós, að margt af því, sem Valtin fullyrti og þótti á sínum tíma ótrúlegt, fær staðist, til dæmis að íslenskir kommúnistar á skipum Eimskipafélagsins smygluðu leyniskjölum á milli landa fyrir Komintern.

Þátttaka Hannesar í fyrri ráðstefnunum tveimur er liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Blágrænan kapítalisma“, en í þriðju ráðstefnunni í öðru samstarfsverkefni með sama aðila um „Evrópu fórnarlambanna“.

Comments are closed.