Rannsóknastjóri RNH, prófessor Hannes H. Gissurarson, flutti erindi á alþjóðlegri ráðstefnu, sem Austrian Economics Center í Vínarborg hélt á Netinu 8. maí 2020 um veirufaraldurinn, Covid-19. Hann byrjaði á að rifja upp, að í dag væri afmælisdagur Friedrichs von Hayeks, en hann hefði kennt, að þekkingin dreifðist á mennina, en enginn hefði hana alla til að bera. Farsóttafræðingar vissu margt, sem hagfræðingar vissu ekki, og öfugt. Menn með sérþekkingu ættu stundum til að halda, að afkimi þeirra væri allur heimurinn. Margir frjálshyggjumenn væru hlynntir því, sem kallað hefði verið „næturvarðarríkið“, en samkvæmt þeirri hugmynd ætti ríkið að gegna svipuðum skyldum og næturverðir í miðaldaborgum, vernda borgarana gegn ofbeldi, en láta þá að öðru leyti afskiptalausa. Hvort sem menn tækju undir þá hugmynd eða ekki, væri ljóst, að sum verkefni væru þess eðlis, að óheppilegt væri að fela þau ríkinu. Opinberir starfsmenn fyndu ekki hjá sér sömu hvöt til að hagræða og hefðu sjaldnast heldur sömu reynslu og þekkingu og menn úti í atvinnulífinu. Einstaklingar yrði að bera ábyrgð á lífi sínu sjálfir, en ekki varpa henni yfir á aðra.
Þrátt fyrir alla sína galla væri ríkið samt fulltrúi heildarinnar, farvegur eða vettvangur eðlilegrar samkenndar og samábyrgðar. Áföll eins og jarðskjálftar, eldgos, snjóflóð, sjávarskaflar (tsunami) og farsóttir væru oftast engum að kenna. Þegar þau skyllu yfir, hrifu þau saklausa borgara með sér, og lífið yrði um skeið að siglingu á björgunarbát. Ríkið hlyti að reyna að koma í veg fyrir slík áföll eða milda að minnsta kosti afleiðingar þeirra. Réttlætanlegt væri til dæmis að skerða frelsi manna, svo að þeir smituðu ekki aðra af farsóttum. Hannes minnti síðan á, að hugsuðir eins og heilagur Tómas af Akvínas og David Hume, sem hefðu stutt einkaeignarréttinn glöggum rökum, hefðu verið þeirrar skoðunar, að hann hrykki úr gildi við sérstakar aðstæður. Hannes kvaðst túlka það svo, að réttlætanlegt gæti verið að nota fé skattgreiðenda til að milda afleiðingar af áföllum. Menn mættu hins vegar ekki mikla fyrir sér vandann. Í sögulegu samhengi væri veirufaraldurinn, sem riðið hefði yfir heiminn árið 2020, ekki mjög mannskæður.
Það væri ef til vill ekki alls kostar rétt, bætti Hannes við, að þessi veirufaraldur hefði ekki verið neinum að kenna. Enn væri ekki vitað með vissu, hver upptök faraldursins í Wuhan væru. Kínversk stjórnvöld hefðu takmarkað mjög alla upplýsingagjöf, og það leiddi til grunsemda um handvömm þeirra. Hannes sagði, að í verufaraldrinum hefðu rökin gegn víðtækum ríkisafskiptum verið staðfest enn einu sinni. Í Kína hefði ófrelsið torveldað upplýsingagjöf og skjót viðbrögð, og á Vesturlöndum hefðu opinberar stofnanir tafið fyrir lausnum. Það væri einkaframtakið, sem væri að smíða öndunarvélar, framleiða grímur og prófa sig áfram með lyf. Eina leiðin út úr þeim vanda, sem veirufaraldurinn hefði myndað, væri að örva hagvöxt með því að veita atvinnulífinu aukið svigrúm. Menn gætu ekki hírst í björgunarbátum alla ævi. Þeir hentuðu ekki til siglinga um heimshöfin sjö.