Alþjóðaviðskipti, til hagsældar og friðsældar

Rannsóknastjóri RNH, Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, var einn ræðumanna í Búdapest 13. maí í fundaröð Austrian Economics Center undir yfirskriftinni „Free Market Road Show“. Að fundinum í Búdapest stóðu einnig Dónárstofnunin, the Danube Institute, og Ungversk-bandaríska viðskiptaráðið í Nýju Jórvík (New York). Hannes tók þátt í pallborðsumræðum um alþjóðaviðskipti og tolla ásamt dr. Eamonn Butler frá Adam Smith stofnuninni í Lundúnum, en umræðunum stjórnaði Philip Pilkington. Á fundinum í Búdapest voru einnig pallborðsumræður um Bandaríkjadal og gull, sem þau dr. Barbara Kolm frá Austrian Economics Center og bandaríski hagfræðingurinn dr. Daniel Mitchell tóku þátt í . Auk þess flutti sendiherra Argentínu í Ungverjalandi, háttvirt María Lorena Capra, ávarp um umbótaáætlun Javiers Mileis Argentínuforseta.

Hannes hóf mál sitt á að rifja upp, að hann hefði iðulega á kappræðufundum með ungkommúnistum á áttunda áratug síðustu aldar í ræðulok vitnað í ungverska þjóðskáldið Sàndor Petöfi:

Talpra magyar, hí a haza!
Itt az idő, most vagy soha!
Rabok legyünk, vagy szabadok?
Ez a kérdés, válasszatok!

Þessi vísuorð þýddi Steingrímur Thorsteinsson á íslensku:

Upp nú, lýður, land þitt verðu! 
Loks þér tvíkost boðinn sérðu: 
Þjóðar frelsi, þrældóms helsi! 
Þú sérð muninn: Kjóstu frelsi!

Þessi vísuorð eru í þjóðsöng Ungverja, en Íslendingar fylgdust af samúð með sjálfstæðisbaráttu þeirra á nítjándu öld, enda voru þeir sjálfir að reyna að telja Dani á að veita sér heimastjórn.

Hannes kvað tvær helstu röksemdirnar fyrir frjálsum alþjóðaviðskiptum felast í hagsæld og friðsæld. Skaparinn hefði skipt gæðum misjafnlega milli einstaklinga og þjóða, svo að þessir aðilar þyrftu að skipta hver við annan, jafnt einstaklingar og þjóðir. Einn hefði það, sem annan vantaði, og öfugt, og þeir yrðu báðir betur settir með því að skiptast þannig á vöru eða þjónustu. Hin röksemdin væri, að tilhneiging manna til að skjóta á náunga sína minnkaði, sæju þeir í þeim væntanlega viðskiptavini. Hannes kvaðst fagna hugmynd bandaríska auðkýfingsins Elons Musks um risastórt fríverslunarsvæði Norður-Ameríku og Evrópu, en bætti við, að Kínaveldi hlyti í augum fríverslunarsinna að vera sérstaks eðlis. Það stundaði ekki eðlileg viðskipti, heldur undirboð og ranga gengisskráningu, hefði með vopnavaldi lagt undir sig Tíbet og hótaði nú Taívan hinu sama og stundaði yfirfang í Suður-Kína-hafi. Þess vegna væri óeðllilegt að líta á það eins og hvern annan viðskiptavin fremur en hin öxulveldin þrjú, Íran, Norður-Kórea og Rússland.

Forstöðumaður Dónárstofnunarinnar, John O’Sullivan, og kona hans Melissa buðu ræðumönnum til kvöldverðar eftir fundinn. Frá v.: Eamonn Butler, John O’Sullivan, Daniel Mitchell, Christine Butler og Hannes H. Gissurarson.

Comments are closed.