Margir litlir draumar eða einn stór

Rannsóknastjóri RNH, Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í Háskóla Íslands, var ræðumaður í Vínarborg 12. maí 2025 í fundaröð, sem Austrian Economics Center skipulagði undir yfirskriftinni „Free Market Road Show“. Fundurinn var haldinn á efstu hæð í turni, Ringturm, og sést þaðan yfir alla Vínarborg. Paul Höfinger, fulltrúi Austrian Insurance Group, sem var gestgjafi fundarins, bauð menn velkomna. Fyrsta pallborðið var um austurrísku fjárlögin, sem verið var að leggja fram, og haldið á þýsku. Annað pallborðið var um boðskap Friedrichs A. von Hayeks á okkar dögum, frjáls viðskipti, skuldir hins opinbera og skattamál. Í því tóku þátt auk prófessors Hannesar þau dr. Eamonn Butler frá Adam Smith Institute, dr. Barbara Kolm frá Austrian Economics Institute, dr. Daniel Mitchell frá Freedom and Prosperity Institute og prófessor Alexander Tokarev frá Northwood háskóla.

Hannes og Hayek á Ritz gistihúsinu vorið 1985.

Þar sem sást vítt yfir Vínarborg af fundarstaðnum, rifjaði Hannes upp, þegar hann og nokkrir félagar hans í Hayek Society í Oxford háskóla snæddu kvöldverð með Hayek á Ritz gistihúsinu í Lundúnum vorið 1985. Hljómlistarmenn hússins komu til hans og hvísluðu þeirri spurningu að honum hvaða lag þeir ættu að taka við borðið. Hann svaraði í hálfum hljóðum: „Vín, borg minna drauma“, en það er frægt lag (og ljóð) eftir Rudolf Sieczyński. Þegar Hayek heyrði lagið, færðist breitt bros yfir varir hans og hann hóf að syngja ljóðið á þýsku, enda þá ekki nema 86 ára.

Hannes sagði síðan á ráðstefnunni, að gera mætti greinarmun á frjálshyggju og sósíalisma eftir draumum. Frjálshyggjumenn teldu, að hver maður ætti að fá að eiga sinn hógværa og óáleitna litla draum, um að finna vinnu við sitt hæfi, reka fyrirtæki, stofna fjölskyldu, smíða í tómstundum, en verkefnið væri að búa svo um hnúta, að slíkir draumar gætu ræst. Sósíalistar ættu sér hins vegar aðeins einn stóran og ágengan draum fyrir alla, um fyrirmyndarríki, staðleysu, útópíu, sem neyða yrði alla með góðu eða illu til að lifa við og laga sig að, en þessi stóri draumur yrði jafnan að martröð.

Hannes benti á, að Hayek gerði hina óumflýjanlegu vanþekkingu hvers og eins að aðalatriði kenningar sinnar. Þar eð þekkingin dreifist á mennina, endaði það með ósköpum, ef einhver einn hópur reyndi að neyða sínum stóra draumi upp á aðra. En Hayek gerði líka grein fyrir því, hvernig ætti að ráða við þessa vanþekkingu: í tíma með því að nýta reynsluvit kynslóðanna, hefðir og venjur, og í rúmi með frjálsri verðmyndun á markaði, sem segði mönnum til um, hvar hæfileikar þeirra nýttust best.

Comments are closed.