Hannes í hlaðvarpi Skoðanabræðra

Rannsóknastjóri RNH, Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í Háskóla Íslands, var gestur hlaðvarpsins Skoðanabræðra 9. maí 2025. Það stofnuðu bræðurnir Snorri og Bergþór Mássynir, en eftir að Snorri var kjörinn á þing fyrir Miðflokkinn í kosningunum í nóvemberlok 2024, sér Bergþór einn um þáttinn. Hannes útskýrði, hvernig honum fyndist að vera kominn á eftirlaun, en hann kynni því hið besta. Hann setti fram þá kenningu, að vinstri menn væru meiri vinstri menn en hægri menn hægri menn, en það skýrði meðal annars, hvers vegna hægri menn lesa minna en vinstri menn. Vinstri menn voru iðulega óánægðir með veruleikann og vildu breyta honum, en hægri menn sættu sig við hann og væru ekki eins ákafir. Vinstri menn hefðu því meiri áhuga á hugmyndum og yrðu kennarar og blaðamenn, en hægri menn verkfræðingar, læknar, atvinnurekendur, fjárfestar og frumkvöðlar. Hannes taldi, að taka yrði í taumana í innflytjendamálum. Ólöglegir hælisleitendur yllu margvíslegum vandræðum á Íslandi, en duglegt og kappsamt fólk, sem vildi aðeins bæta kjör sín og hlýða settum lögum og reglum, ættu að vera aufúsugestir. Hann kvaðst hafa verið í senn innanbúðarmaður og utangarðsmaður á Íslandi. Hann hefði verið innanbúðar hjá þeim, sem höfðu völdin árin 1991-2007, enda hefðu þeir verið vinir hans og samherjar. En hann hefði verið utangarðs á vinnustað sínum, Háskóla Íslands, þar sem flestir hefðu verið vinstri sinnaðir og lítt sáttir við hlutskipti sitt í lífinu. Hannes rifjaði einnig upp baráttu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar gegn Davíð Oddssyni og ýmislegt annað sögulegt. Þátturinn var 113 mínútur.

Comments are closed.