Fátækt á Íslandi þriðjudag 9. október: 12–13

Þriðjudaginn 9. október 2012 verður þriðji hádegisfyrirlestur Sagnfræðingafélagsins þennan vetur. Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, flytur erindið „Fátækt á Íslandi 1991-2004“. Fyrirlesturinn er haldinn í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og hefst stundvíslega kl. 12:05. Því var oft haldið fram opinberlega, ekki síst í aðdraganda þingkosninganna 2003 og 2007, að fátækt hefði aukist á Íslandi þrátt fyrir aukna velmegun alls almennings. Fátækt væri jafnvel meiri hér en annars staðar á Norðurlöndum. En hvernig ber að skilgreina fátækt? Er hún skortur á lífsgæðum, eins og talið var að fornu og orðið felur í sér? Eða andstæða við auðlegð, eins og Hegel og sporgöngumenn hans telja? Og hvað sýna mælingar á fátækt á Íslandi árin 1991–2004? Hvar var Ísland þá á vegi statt miðað við grannríkin? Leitast verður við að svara þessum spurningum með þeim gögnum, sem til eru, þ. á m. rannsóknum og mælingum Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, hagstofunnar íslensku og hagstofu Evrópusambandsins. Einnig verður stuðst við eldri og yngri rannsóknir. Þótt Sagnfræðingafélagið haldi eitt fundinn, er fyrirlesturinn þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsflokka og umbótasinna, undir yfirskriftinni „Evrópa, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Comments are closed.