Sérfræðingar um fiskveiðar: Kvótakerfið hagkvæmt

Prófessor Þráinn Eggertsson

RNH hélt alþjóðlega ráðstefnu um „Fiskveiðar: sjálfbærar og arðbærar“ laugardaginn 6. október 2012 í Háskóla Íslands. Aðalfyrirlesarar voru yfirmenn og sérfræðingar fiskveiðideilda FAO, OECD og Alþjóðabankans og þrír helstu sérfræðingar Íslendinga í fiskveiðum: Árni Mathiesen, FAO, Gunnar Haraldsson, OECD, og Michael Arbuckle, Alþjóðabankanum, og prófessorarnir Ragnar Árnason og Þráinn Eggertsson í Háskóla Íslands og Rögnvaldur Hannesson í Viðskiptaháskólanum í Björgvin. Á meðal annarra þátttakenda var Brian Carney, einn af ritstjórum Wall Street Journal. Útgerðarmaðurinn Rakel Olsen í Stykkishólmi setti ráðstefnuna, og útgerðarmaðurinn Guðrún Lárusdóttir í Hafnarfirði sleit henni. Nánar má sjá um dagskrána hér og um fyrirlesarana hér.

Prófessor Ragnar Árnason

Þráinn Eggertsson reyndi í fyrirlestri sínum að skýra fræðilega, hvers vegna sterk andstaða væri við kvótakerfið í íslenskum sjávarútvegi, þótt það hefði gefist vel og væri arðsamt ólíkt kerfum í öðrum löndum. Hann taldi andstæðinga kerfisins ýmist knúða áfram af hugmyndafræði eða efnahagslegum hagsmunum. Andstaðan hefði lifnað við eftir fall bankanna. Ragnar Árnason leiddi rök að því, að allir Íslendingar nytu góðs af því, þegar arður myndaðist í sjávarútvegi, jafnvel þótt aðeins lítill hluti þeirra ætti kvóta. Um helmingur þess arðs, sem myndaðist vegna kvótakerfisins, rynni til ríkisins á ýmsan hátt. Rögnvaldur Hannesson og aðrir fyrirlesarar voru allir sammála um, að kvótakerfi eins og það, sem nú stæði, hentaði Íslendingum best, þótt verið gæti, að annars konar kerfi ættu betur við annars staðar.

Áheyrendur: Dr. Ásgeir Jónsson, dr. Birgir Þór Runólfsson, Árni Mathiesen, fyrrv. sjávarútvegsráðherra, Rakel Ólsen. Í annarri röð lengst t. h.: Prófessor Þórólfur Þórlindsson.

Ráðstefnan, sem var þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, var fjölsótt og vakti mikla athygli. Morgunblaðið birti 6. október viðtöl við tvo fyrirlesara, dr. Gunnar Haraldsson og prófessor Þráin Eggertsson, sem varaði við fyrirhuguðum breytingum á kvótakerfinu. Einnig talaði Stöð tvö við Þráin Eggertsson í kvöldfréttum sama dag. Brian Carney skrifaði ritstjórnargrein í Wall Street Journal 9. október, þar sem hann kvað kvótakerfið hafa átt sinn þátt í endurreisn Íslands. Það líktist helst sjálfsmorði að ráðast að því. Morgunblaðið birti viðtal við Ragnar Árnason 11. október og viðtal við Rögnvald Hannesson 12. október. Rögnvaldur kvað það ekki góða latínu að drepa gæsina, sem verpti gulleggjunum, eins og gert væri með því að ráðast að kvótakerfinu. Viðskiptablaðið birti frásögn af ráðstefnunni 13. október.

Glærur Ragnars Árnasonar

Glærur Þráins Eggertssonar

Comments are closed.