Prófessor Stéphane Courtois: Margt enn órannsakað

Egill Helgason kynnir Courtois. Hannes H. Gissurarson situr t. h. Ljósm.: Árni Sæberg.

Fimm fyrirlestrar voru haldnir á alþjóðlegri ráðstefnu á vegum RNH í Háskóla Íslands 22. september 2012 um „Evrópu fórnarlambanna: Kommúnismann í sögulegu ljósi“. Aðalræðuna flutti prófessor Stéphane Courtois, ritstjóri Svartbókar kommúnismans. Hann lýsti þeim erfiðleikum, sem væru á að skilja grimmd og ódæði kommúnista tuttugustu aldar, og taldi margt enn vera um það mál órannsakað. Sums staðar, til dæmis í nýfrjálsum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, tækju stjórnvöld slíkum rannsóknum vel, en annars staðar reyndu þau að koma í veg fyrir þær. Kvað hann Svartbókina hafa komið út á 26 tungumálum, síðast á íslensku og georgísku. Hún hefði hins vegar hvorki komið út á kínversku né víetnömsku.

Prófessor Þór Whitehead og Courtois hlusta á ræður. Fyrir aftan þá sést í Ásgeir Jóhannesson. Ljósm.: Árni Sæberg.

Prófessor Øystein Sørensen frá Háskólanum í Osló greindi verk Karls Marx og Friðriks Engels í ljósi framkvæmdarinnar í ríkjum marxista. Hann rifjaði upp ummæli Engels um Norðurlandaþjóðir og þá sérstaklega Íslendinga. Dr. Roman Joch frá Tékklandi lýsti reynslunni af stjórn marxista í Mið- og Austur-Evrópu. Ástralski rithöfundurinn Anna Funder sagði stuttlega frá þeim einstaklingum, sem hún skrifaði um í verðlaunabókinni Stasiland. Prófessor Hannes H. Gissurarson frá Háskóla Íslands flutti ágrip af sögu íslensku kommúnistahreyfingarinnar allt frá 1918, þegar Brynjólfur Bjarnason og Hendrik Ottósson gengu á hönd kommúnismanum, og til 1998, þegar síðasta verk Alþýðubandalagsins var að senda hóp manna í boðsferð til Kúbu. Í lokaorðum benti prófessor Þór Whitehead frá Háskóla Íslands á, að gögnin, sem fundist hafa í skjalasöfnum kommúnistaríkjanna fyrrverandi, staðfestu söguskoðun rússneska rithöfundarins Aleksandrs Solzhenítsyns og breska sagnfræðingsins Roberts Conquests.

Anna Funder. Ljósm. Árni Sæberg.

Á meðal ráðstefnugesta voru dr. Anna Agnarsdóttir, prófessor í sagnfræði, dr. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Sögufélagsins, og dr. Jón Ólafsson, prófessor í Bifröst. Ráðstefnan vakti mikla athygli. Rætt var við Önnu Funder og Øystein Sørensen í Morgunblaðinu. Á Netinu urðu orðaskipti milli Stefáns Ólafssonar, Björns Bjarnasonar og Pawels Bartoszeks vegna ráðstefnunnar. Anna Funder kom einnig fram í hinum vikulega bókmenntaþætti Sjónvarpsins, „Kiljunni,“ sem sendur var út 23. janúar 2013. Fyrirlestur Courtois á ráðstefnunni er aðgengilegur hér á Youtube, fyrirlestur Önnu Funders hér, fyrirlestur Sørensens hér og fyrirlestur Romans Jochs hér. Rætt var við Stéphane Courtois í „Silfri Egils“ í Sjónvarpinu, og var sá þáttur sendur út 10. febrúar 2013:

 

Glærur Hannesar 22.09.2012

Comments are closed.