Skáldsögur Rands vekja athygli

Undirstaðan (Atlas Shrugged) eftir Ayn Rand kom út hjá Almenna bókafélaginu 28. október 2012. Þýddi Elín Guðmundsdóttir hana. Undirstaðan er önnur í röð þriggja skáldsagna Rands, sem félagið er að gefa út. Hin fyrsta var Uppsprettan (The Fountainhead), sem Þorsteinn Siglaugsson þýddi og kom út 2011. Loks er Kíra Argúnova (We the Living) væntanleg 2013, en þýðing hennar birtist eftir ókunnan höfund í Morgunblaðinu 1979.

Bandaríski heimspekiprófessorinn Douglas Rasmussen fylgdi Undirstöðunni úr hlaði með fyrirlestri um boðskap Ayns Rands í Þjóðmenningarhúsinu 26. október, en einnig mælti Ásgeir Jóhannesson, lögfræðingur og heimspekingur, þar nokkur orð þá, en hann er formaður Ayn Rand-félagsins á Íslandi, sem stofnað var 1. október 2012 til að vinna hugmyndum Rands brautargengi. Í stjórn þess eru auk Ásgeirs Björgvin Guðmundsson, ritstjóri Viðskiptablaðsins, Friðbjörn Orri Ketilsson, forritari og viðskiptafræðinemi, Frosti Logason útvarpsmaður, Gunnlaugur Jónsson framkvæmdastjóri, María Margrét Jóhannsdóttir, háskólanemi og blaðamaður, Þórarinn Sigurðsson stærðfræðingur og Þórlindur Kjartansson hagfræðingur.

Undirstaðan hefur þegar vakið mikla athygli á Íslandi, enda er þetta ein vinsælasta og áhrifamesta skáldsaga allra tíma. Hún hefur fram að þessu selst í um átta milljónum eintaka um víða veröld. Ayn Rand félagið á Íslandi hélt ásamt Sambandi ungra sjálfstæðismanna opinn fund um hugmyndafræði Ayns Rands 11. nóvember 2012. Þar fluttu ávörp Björgvin Guðmundsson, ritstjóri Viðskiptablaðsins, Gísli Hauksson, framkvæmdastjóri GAMMA og stjórnarformaður RNH, og Gunnlaugur Jónsson, framkvæmdastjóra Linda. Einnig töluðu þar Ásgeir Jóhannesson, Þórarinn Sigurðsson stærðfræðingur og Þórlindur Kjartansson hagfræðingur. Fundarstjóri var Davíð Þorláksson, formaður SUS.

Frosti Logason

Viðskiptablaðið sagði frá útkomu Undirstöðunnar og fyrirlestri Rasmussens 3. nóvember. Einnig birti blaðið grein um Ayn Rand, ævi hennar og störf, 10. nóvember. Fleiri greinar um Rand eru væntanlegar í blaðinu. Fréttablaðið birti á menningarsíðu sinni 30. október viðtal um Rand við Frosta Logason, sem sagðist hafa heillast „af áherslunni sem hún leggur á frelsi og ekki síður ábyrgð einstaklingsins; að hann geti ekki sett örlög sín í hendur einhvers almættis eða yfirvalda heldur verður að axla ábyrgð á þeim sjálfur“. Þegar Frosti var spurður, hvort hugmyndir Rands hefðu ekki beðið hnekki í hinni alþjóðlegu lánsfjárkreppu, svaraði hann: „Ef hér hefði ríkt frjálshyggja í anda Ayns Rands hefðu bankar þurft að bera ábyrgð á gerðum sínum og þar af leiðandi ekki farið jafnóvarlega og þeir gerðu. Að skattgreiðendur og seðlabankar hafi þurft að axla tjónið á tapi einkabanka er í hrópandi ósamræmi við hugmyndafræði Rands og hún hefði aldrei fallist á það.“

Helgi Vífill Júlíusson

Morgunblaðið birti lofsamlega umsögn um Undirstöðuna 13. nóvember 2012 eftir Helga Vífil Júlíusson blaðamann. „Einhver fallegasti boðskapurinn í bókinni er að Rand hvetur fólk til að hugsa sjálfstætt. Hugsun er einstaklingsverkefni jafnvel þótt æskilegt sé að leita fanga víða,“ sagði Helgi Vífill meðal annars. Undirstaðan var aðalumræðuefnið í bókmenntaþætti Egils Helgasonar í Sjónvarpinu 23. janúar 2012. Fríða Björk Ingvarsdóttir kvað skáldsögu Rands athyglisverða og áhrifamikla. Rand væri róttæk frekar en íhaldssöm og ögraði lesendum sínum. Fríða Björk gerði hins vegar lítið úr bókmenntagildi Undirstöðunnar. Annar viðmælandi Egils, Þröstur Helgason, sagði, að sér hefði við lesturinn liðið eins og ekið væri yfir sig með valtara, en lét ósagt, hvort það ætti að vera lof eða last um hana.

Einn af reglulegum dálkahöfundum á heimasíðu Landsbankans, fjárfestirinn Mark Spitznagel, skrifaði um Undirstöðuna í pistli sínum fyrir bankann 21. mars 2012. Hann sagði:

Af hverju skyldi ástandið í dag vera öðruvísi en áður? Svarið er að finna í örvæntingarfullu ákalli Ayn Rand í epískri sögu hennar Atlas Shrugged sem út kom árið 1957: Í stuttu máli; þegar ríkið hrifsar til sín frumkvæði og drifkraft fjárfestinga þá fara eigendur fjármagns í verkfall. Rand dregur upp mynd af frumkvöðlum í iðnaði sem svipar til Atlasar í grísku goðafræðinni, sem ber á herðum sér vonda veröld með stjórnlyndum sístækkandi yfirvöldum. sameignarstefnunnar. Hetjan, John Galt, hvetur fólk til að yppta öxlum og hætta að sinna arðbærum viðfangsefnum til að „stöðva hreyfil heimsins“, frekar en að styðja heim þar sem frumkvæðinu hefur verið rænt til að vernda þá sem hafa pólitísk tengsl frá gjaldþroti, allt í gervi jafnaðarstefnu. Svo virðist sem ímynduð veröld Rands sé orðinn að veruleika með endalausum björgunaraðgerðum og efnahagshvötum fyrir þá óarðbæru á kostnað þeirra arðbærustu, ásamt kröfum um viðbótarskatta á fjárfestingar. Axlaypptingum þessara hetjulegu frumkvöðla Rands má nú finna stað í flóknu dulmáli efnahagsreikninga fyrirtækja og stjórnvalda.

Undirstaðan fæst í öllum bókabúðum, en hana má líka kaupa beint á Netinu frá útgefandanum, Almenna bókafélaginu, Fákafeni 11, s. 615 11 22, á kr. 3.824. Þar er Uppsprettan einnig til sölu á sama verði.

Comments are closed.