Karlson um nýju sænsku leiðina: mánudag 14. janúar, 12–13

Því er oft haldið fram, að Íslendingar eigi að taka sænska jafnaðarmenn sér til fyrirmyndar, enda hafi þeir skipulagt hjá sér vel heppnað og hentugt hagkerfi, blandað hagkerfi, þar sem markaðsöflin séu virkjuð, en skattar séu háir og velferðaraðstoð rífleg. Íslendingar eigi að fara „sænsku leiðina“. En Svíar komust í ógöngur í upphafi tíunda áratugs tuttugustu aldar og hafa skipt um stefnu síðan. Atvinnufrelsi er að aukast í Svíþjóð og skattar að lækka. Komin er til sögunnar ný sænsk leið. Um hana mun dr. Nils Karlson, forstöðumaður Ratio-stofnunarinnar í Stokkhólmi, fræða íslenska áhugamenn í fyrirlestri mánudaginn 14. janúar 2013 í hádeginu, kl. 12–13. Fyrirlesturinn verður í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands, stofu N-132.

Nils Karlson fæddist 1958 í Stokkhólmi. Hann lauk B. A. prófi í hagfræði og stjórnmálafræði frá Uppsalaháskóla 1984, stundaði einnig nám í George Mason-háskólanum í Virginíu í Bandaríkjunum, Sorbonne-háskóla í París og Mendez Pelayo-háskólanum í Santander á Spáni, en lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Uppsalaháskóla 1993. Hann hefur verið forstöðumaður Ratio-stofnunarinnar í Stokkhólmi frá 2002, en einnig kennt við Uppsalaháskóla. Hann hefur birt fjölda ritgerða í tímaritum og nokkrar bækur, síðast En ny svensk modell (ásamt Henrik Lindberg) 2008.

Fyrirlesturinn er haldinn á vegum RNH og Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands. Hann er þáttur í fyrirlestraröð, sem RNH skipuleggur í samstarfi við AECR, Evrópusamtök íhaldsmanna og umbótasinna.

Comments are closed.