Kate Hoey: Gangið ekki í Evrópusambandið!

Kate Hoey, þingkona Verkamannaflokksins fyrir Lundúnakjördæmið Vauxhall, flutti fyrirlestur í boði Þjóðráðs um „Hættuna af aðild að Evrópusambandinu“ mánudaginn 19. nóvember. Hún kvað bresku þjóðina hafa fengið sig fullsadda á aðild að ESB. Fámenn valdastétt í Brüssel hefði sölsað undir sig völd, en væri ekki í neinum tengslum við venjulega Evrópumenn. Henni væri óskiljanlegt, ef Íslendingar sæktust eftir aðild á sama tíma og skoðanakannanir sýndu, að nær 65% Breta vildu ganga úr Evrópusambandinu. Íslendingar þyrftu þá fyrst að hafa áhyggjur af fiskistofnum sínum, gengju þeir í Evrópusambandið. Bretum fyndust þeir áhrifalitlir með sína 67 fulltrúa á Evrópuþinginu, en Íslendingar gætu búist við því að fá sem aðildarþjóð einn fulltrúa á þinginu. Mikill stuðningur væri í Bretlandi við þjóðaratkvæðagreiðslu um það, hvort Bretland ætti að halda áfram að vera í Evrópusambandinu. „Við skulum ekki vera litlir Evrópumenn, heldur raunverulegir alþjóðasinnar,“ sagði Hoey. Morgunblaðið birti 20. nóvember 2012 frásögn af fundinum, sem var fjölsóttur.

Hér má hlusta á ræðu Hoeys á Youtube ásamt kynningarávarpi Skafta Harðarsonar og tölum Halls Hallssonar og Jóns Kristins Snæhólms.

Comments are closed.