Hannes H. Gissurarson: Andlátsfregnin orðum aukin

Photo: Haraldur Gudjonsson.

Dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, sem situr í rannsóknarráði RNH, flutti fyrirlestur í Hátíðasal Háskóla Íslands 19. febrúar 2013, er hann nefndi „Frjálshyggjan, kreppan og kapítalisminn“. Þar kvað hann andlátsfregnina um kapítalismann eftir lánsfjárkreppuna 2008 orðum aukna. Atvinnufrelsi hefði samkvæmt mælingum ekki minnkað í heiminum. Stærsta fréttin á fyrsta áratug 21. aldar væri, að Kína og Indland hefðu hafið þátttöku í heimskapítalismanum, 2,5 milljarður manna. Hannes vék síðan að fjórum röksemdum gegn frjálshyggju og kapítalisma.

Hin fyrsta væri, að kapítalisminn væri óstöðugur. Hannes kvað það rétt, en ríkið væri enn óstöðugra. Lánsfjárkreppa síðustu ára stafaði ekki síst af því, að fyrir bankamenn borgaði áhættusækni sig. Þegar vel gengi, græddu þeir. Þegar illa gengi, flyttu þeir tapið á herðar skattgreiðenda. Ný fjármálatækni hefði átt að dreifa áhættu, en í reynd hefði hún frekar falið hana. Einnig væri rangt að flokka fasteignir og ríkisskuldabréf sem áhættulausar eða áhættulitlar fjárfestingar. Hannes nefndi einnig lögboðnar takmarkanir á afskriftum banka sem enn einn þátt í að auka áhættu.

Önnur röksemdin væri, að frjálshyggjutilraunin íslenska hefði mistekist. Hannes kvað enga slíka tilraun hafa verið gerða hér, heldur hefði hagkerfið verið fært í svipað horf og í grannríkjunum. Tímabilið 1991–2004 mætti kenna við markaðskapítalisma, en tímabilið 2004–2009 við klíkukapítalisma, því að þá hefði fámenn auðklíka tekið hér öll völd. Hún hefði hins vegar falið skuldir sínar á bak við mörg nöfn og margar kennitölur. Hún hefði merkt lystisnekkjur sínar og einkaþotur með tölunni 101, því að lánin fyrir þeim hefðu verið slegin á 100 kennitölur, en skuldarinn jafnan verið einn og hinn sami.

Þriðja röksemdin væri, að frjálshyggjan væri ómannúðleg. Hannes kvað fæsta gagnrýnendur hafa kynnt sér verk þeirra Johns Lockes og Adams Smiths. Þeir, sem girntust eitthvað frá náunga sínum, gætu reynt að afla þess með ofbeldi eða kaupum, með verði eða sverði. Kapítalisminn hefði líka reynst öflugasta tæki mannanna til að breyta fátækt í bjargálnir, en við það hyrfi margvíslegt böl.

Photo: Haraldur Gudjonsson.

Fjórða röksemdin væri, að Íslendingar ættu frekar að taka Evrópuþjóðir sér til fyrirmyndar en Bandaríkjamenn. Hannes kvað Bandaríkin ekkert sérstakt frjálshyggjuríki. Hagkerfið þar væri samkvæmt síðustu mælingum hið 18. frjálsasta í heimi. Sviss kæmist líklega næst því að teljast frjálshyggjuríki, því að þar væri hagkerfið ekki aðeins tiltölulega frjálst, heldur væri kúgun eins hóps á öðrum settar rammar skorður. Hins vegar væri umhugsunarefni, að hagsæld væri miklu meiri í „norrænum“ hagkerfum vestan hafs en austan, í Minnesota, Suður-Dakóta og Manitoba frekar en á Íslandi eða í Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi.

Eftir fyrirlesturinn spurði Þórólfur Þórlindsson prófessor, hvernig Íslendingar gætu komist út úr ógöngunum. Hannes kvað brýnast að lækka skatta til að örva atvinnulíf og atvinnusköpun. Gunnlaugur Jónsson spurði, hvað Íslendingar ættu að gera í peningamálum. Hannes svaraði, að verðfall peninga væri vegna óskynsamlegrar hegðunar. Lausnin fælist í að breyta þeirri hegðun, eyða ekki um efni fram, gera ekki óhóflega kjarasamninga. Hefðu Íslendingar nægan sjálfsaga til að gera það í skjóli erlends gjaldmiðils, þá hefðu þeir væntanlega nægan sjálfsaga til að gera það án hans. Hann teldi hins vegar sjálfsagt að skoða alla kosti og nefndi sérstaklega myntslátturáð með enskt pund sem viðmiðun.

Fyrirlesturinn, sem var á vegum Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála og einnig þáttur í fyrirlestraröð RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“, var fjölsóttur. Fundarstjóri var dr. Ómar Kristmundsson, forseti stjórnmálafræðideildar. Að fundinum loknum bauð Hannes Hólmsteinn til móttöku í Hámu, mötuneyti Háskólans, í tilefni sextugsafmælis síns þennan sama dag. Gísli Marteinn Baldursson borgarfulltrúi var veislustjóri, en tríó Péturs Emils Júlíusar Gunnlaugssonar lék jasstónlist. Þar fluttu ávörp þeir Ómar og Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra. Um kvöldið héldu nokkrir vinir og samverkamenn Hannesar kvöldverð honum til heiðurs, og hafði um hann forgöngu stjórn RNH, Gísli Hauksson, Jónmundur Guðmarsson og Jónas Sigurgeirsson. Kjartan Gunnarsson var þar veislustjóri, en hátíðarræðuna flutti Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi forsætisráðherra.

Fyrirlestur Hannesar vakti mikla athygli. Morgunblaðið sagði frá honum 20. janúar 2013. Vefmiðill stúdenta, student.is, sagði einnig frá honum sama dag. Styrmir Gunnarsson skrifaði í vikulegum dálki sínum í Morgunblaðinu 23. febrúar, að með honum hefði þögn háskólaheimsins um hrunið, orsakir þess og afleiðingar, verið rofin. Hannes Hólmsteinn ræddi um efni fyrirlestursins við Björn Bjarnason á sjónvarpsstöðinni ÍNN 27. febrúar. Morgunblaðið sagði frá ættum Hannesar og uppruna 19. febrúar í tilefni sextugsafmælis hans. Einnig birti blaðið viðtal við Hannes 17. febrúar. Viðskiptablaðið flutti einnig viðtal við Hannes 16. febrúar og myndir úr sextugsafmæli hans. Einnig birti vefsjónvarp Viðskiptablaðsins viðtal við Hannes á afmælisdaginn. Hið vikulega myndablað Séð og heyrt birti einnig viðtal við Hannes og myndir úr afmæli hans.

Glærur Hannesar 19.02.2013

Comments are closed.