Booth um orsakir fjármálakreppunnar miðvikudag 13. mars: 12–13

Phil Booth

Því er oft haldið fram, að fjármálakreppan, sem hófst árið 2007 og varð hörðust í árslok 2008, hafi stafað af ónógu eftirliti stjórnvalda með fjármálamörkuðum. Sumir fjármálasérfræðingar halda því hins vegar fram, að vissulega hafi fjármálaeftirlit brugðist og sumir aðilar á markaði tekið meiri áhættu en hóflegt hafi verið, en ríkisafskipti af þessum mörkuðum hafi samt gert illt verra. Einn þessara fjármálasérfræðinga, prófessor Philip Booth, flytur fyrirlestur í Háskóla Íslands miðvikudaginn 13. mars 2013, kl. 12–13, um „raunverulegar orsakir fjármálakreppunnar“. Fyrirlesturinn verður í Öskju, stofu N-132. Að honum standa viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og RNH. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill. Fundarstjóri verður dr. Ingjaldur Hannibalsson prófessor, forseti viðskiptafræðideildar.

Philip Booth er prófessor í tryggingafræðum og áhættustýringu við Cass Business School í City-háskólanum í Lundúnum, þar sem hann hefur kennt nokkrum Íslendingum. Hann hefur einnig verið sérstakur ráðgjafi Englandsbanka (1999–2002) og er nú ritstjóri fræðirita og umsjónarmaður rannsókna í hugveitunni Institute of Economic Affairs, IEA, í Lundúnum. Hann var félagi í Blackfriars Hall í Oxford-háskóla 2010–2011 og er ritstjóri tímaritsins Economic Affairs og aðstoðarritstjóri Journal of Property Research. Hann var ritstjóri bókar, sem IEA gaf út 2009 um fjármálakreppuna, Verdict on the Crash: Causes and Policy Implications.

Fyrirlestur prófessors Booths á Íslandi er þáttur í verkefninu „Evrópa, Ísland og framtíð kapítalismans“, sem RNH skipuleggur í samstarfi við AECR, Evrópusamtök íhaldsmanna og umbótasinna. Næsti fyrirlestur verður: Þriðjudaginn 30. apríl 2013, kl. 12–13, talar dr. Steven Gjerstad hagfræðingur, sem vinnur ásamt Nóbelsverðlaunahafanum Vernon Smith að rannsókn á viðbrögðum ólíkra þjóða, þar á meðal Finna og Íslendinga, við hinni alþjóðlegu fjármálakreppu og leiðum þeirra út úr henni. Fyrirlestur Gjerstads verður í stofu 102 í Gimli í Háskóla Íslands.

Comments are closed.