Þátttakendur á ráðstefnu RNH 22. september 2012

Stéphane Courtois fæddist 1947 í Frakklandi. Hann lauk prófum í heimspeki og sagnfræði frá Háskólanum í París, og var doktorsritgerð hans um franska kommúnistaflokkinn. Hann er forstöðumaður rannsókna í Miðstöð franskra vísindarannsókna, Centre national de la recherche scientifique, við Háskólann í París X í Nanterre og prófessor í kaþólska háskólanum í La Roche-sur-Yon, l’Institut Catholique d’Études Supérieures, ICES. Hann var ritstjóri tímaritsins Communisme 1982–2009. Courtois var maóisti á yngri árum, en var ritstjóri og einn höfundur Svartbókar kommúnismans (Le livre noir du communisme), sem kom út á frönsku 1997, þýsku 1998, ensku og sænsku 1999, finnsku 2000, dönsku 2003 og íslensku 2009. Hann var ritstjóri Dictionnaire du communisme, sem kom út í París 2007. Fyrirlestur hans á Íslandi er aðgengilegur hér á Youtube.

 

Roman Joch fæddist 1971 í Slóvakíu og lauk læknisprófi frá Karlsháskólanum í Prag. Hann var ritari utanríkismála í einum borgaralegu flokkanna 1994–1996, en gerðist 1996 sérfræðingur og síðar forstöðumaður Obcansky Institut í Prag. Hann er nú ráðgjafi forsætisráðherra Tékklands, Petr Necas, í utanríkismálum og aðsópsmikill álitsgjafi í Tékklandi. Hann hefur skrifað fjölda ritgerða um utanríkismál og sögu. Fyrirlestur hans á Íslandi er aðgengilegur hér á Youtube.

 

 

Anna Funder fæddist 1966 í Ástralíu, lauk lagaprófi og síðan doktorsprófi í listrænni sköpun. Að námi loknu starfaði hún að mannréttindamálum fyrir Ástralíustjórn. Á meðan hún dvaldist í Þýskalandi, samdi hún Stasiland. True Stories from behind the Berlin Wall, sem hún fékk fyrir Samuel Johnson-verðlaunin bresku 2004. Þar lýsa íbúar austan Berlínarmúrsins reynslu sinni af lögregluríkinu, sem kommúnistar stofnuðu. Ugla gaf út Stasiland í íslenskri þýðingu 2012. Anna Funder hefur einnig skrifað skáldsöguna All That I Am, sem gerist með annars í Þýskalandi Hitlers, kom út í febrúar 2012 og hlotið hefur mjög góða dóma. Nýlegt sjónvarpsviðtal um skáldsögu hennar má sjá hér. Fyrirlestur hennar á Íslandi er aðgengilegur hér á Youtube.

 

Øystein Sørensen fæddist 1954 í Noregi. Hann lauk kandídatsprófi og síðar doktorsprófi í sagnfræði og er prófessor í sagnfræði í Oslóarháskóla. Hann hefur samið ævisögur Fridtjofs Nansens og Bjørnstjernes Bjørnsons og skrifað margt um vaknandi þjóðarvitund Norðmanna á 19. öld og margvísleg önnur efni, þar á meðal ýmsar samsæriskenningar um sögulega framvindu. Hann gaf 2010 út bókina Drømmen om de fullkomne samfunn (Drauminn um hið fullkomna skipulag), þar sem hann gagnrýndi alræðisstefnu, fasisma, nasisma, kommúnisma og íslamisma. Hann ritstýrði ásamt öðrum greinasafninu Ideologi og terror: totalitære ideer og regimer (Hugmyndafræði og hryðjuverk: alræðisstefnur og stjórnskipulag) 2011. Nýjasta verk hans er ritgerð um alræðishugarfar fjöldamorðingjans Anders Breiviks. Fyrirlestur hans er aðgengilegur hér á Youtube.

 

Hannes H. Gissurarson fæddist 1953 á Íslandi. Hann lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla og er nú prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands. Hann samdi ævisögur Jóns Þorlákssonar, Benjamíns Eiríkssonar og Halldórs Kiljans Laxness og æviágrip athafnamannanna Pálma Jónssonar í Hagkaup og Björns Ólafssonar. Hann hefur einnig gefið út nokkrar bækur í stjórnmálaheimspeki og stjórnmálahagfræði og tilvitnanasafn, Kjarna málsins. Hann ritstýrði og þýddi Svartbók kommúnismans á íslensku 2009 og gaf út 624 bls. yfirlitsrit um íslenska kommúnista 2011. Hér er viðtal við hann í Kastljósi sjónvarpsins vegna bókarinnar og hér viðtal Björns Bjarnasonar á ÍNN af sama tilefni. Hér er yfirlit yfir ýmislegt fréttnæmt í bók hans. Hér er svar hans við gagnrýni Péturs Tyrfingssonar á bók hans. Hér er svar hans við gagnrýni Árna Björnssonar á sama verk. Eitt nýjasta verk hans er ritgerðin „Hakakrossinn og gyðingastjarnan“ í Þjóðmálum 2012 um ólíkt hlutskipti tveggja Þjóðverja, nasista og gyðingakonu, sem fluttust til Íslands á fjórða áratug.

 

 

Egill Helgason fæddist 1959. Hann hefur stundað blaðamennsku og ritstörf frá unglingsárum og skrifað fjölda greina og fréttaskýringa. Nú stjórnar hann tveimur vinsælum þáttum í Sjónvarpinu, Silfri Egils um þjóðmál eftir hádegi á sunnudögum og Kiljunni um menningarmál á miðvikudagskvöldum. Hér má sjá viðtal hans við prófessor Bent Jensen í febrúar 2012. Jafnframt heldur Egill úti víðlesnu bloggi á Eyjunni.is og er fastur fréttaskýrandi á tímaritinu Grapevine, sem gefið er út á ensku í Reykjavík.

 

 

Jakob F. Ásgeirsson fæddist 1961 og lauk prófum í heimspeki, sagnfræði og stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla. Hann hefur samið þrjár ævisögur, Alfreðs Elíassonar, Péturs Benediktssonar og Valtýs Stefánssonar, en einnig viðtalsbók við Kristján Albertsson og rit um baráttukonuna Aung San Suu Ky, sem hann kynntist vel í Oxford. Jakob skrifaði sögu haftabúskaparins, textann í ljósmyndabók um tuttugustu öldina á Íslandi og yfirlitsrit um Stjórnarráð Íslands 1991–2004. Hann er ritstjóri tímaritsins Þjóðmála og rekur útgáfufyrirtækið Uglu, sem gaf meðal annars út Kommúnismann eftir Richard Pipes (sem hann þýddi ásamt Margréti Gunnarsdóttur), Nótt eftir Elie Wiesel, Engan þarf að öfunda eftir Barböru Demick, Sovét-Ísland. Óskalandið eftir Þór Whitehead, Roðann í austri eftir Snorra G. Bergsson og Stasiland eftir Önnu Funder.

 

Ragnhildur Kolka fæddist 1942. Hún lauk prófi í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands og leggur oft orð í belg opinberlega um þjóðmál.

 

 

 

 

Þór Whitehead fæddist 1943. Hann lauk prófum í sagnfræði frá Háskóla Íslands og Georgia-háskóla í Bandaríkjunum og doktorsprófi í sagnfræði frá Oxford-háskóla. Hann er prófessor í sagnfræði í Háskóla Íslands og hefur gefið út nokkrar bækur um Ísland í seinni heimsstyrjöld og um umsvif nasista og kommúnista hér á landi. Nýjasta bók hans er Sovét-Ísland. Óskalandið, sem kom út 2010. Hér er viðtal Björns Bjarnasonar við hann 2010 um bókina Sovét-Ísland. Óskalandið.

 

 

Fyrir ráðstefnuna halda tveir kunnir danskir fræðimenn fyrirlestra um kommúnisma, og verða þeir væntanlega prentaðir í riti því, sem fyrirhugað er að gefa út með erindunum á ráðstefnunni:

 

Bent Jensen fæddist 1938. Hann lauk cand. mag. prófum í sagnfræði og rússnesku og dr. phil. prófi í sagnfræði. Hann var prófessor í nútímasögu í Háskólanum í Suður-Danmörku (Syddansk universitet) 1980–2008 og forstöðumaður hinnar dönsku Rannsóknarstofnunar um kalda stríðið 2007–2010. Hann hefur einnig skrifað forystugreinar í Jyllandsposten og setið í blaðstjórninni. Jensen er sérfræðingur í rússneskri sögu og hefur birt fjölda bóka, þar á meðal Stalinismens fascination og danske venstreintellektuelle (Aðdráttarafl stalínismans og vinstri sinnaðir danskir menntamenn) 1984, Gulag og glemsel (Gúlag og gleymska) 2003 og Stalin. En biografi (Stalín. Ævisaga) 2005. Hann flutti fyrirlestur um „Nordic Communism“ í Háskóla Íslands 27. febrúar 2012, og er hann aðgengilegur hér á Youtube.

Niels Erik Rosenfeldt fæddist 1941. Hann lauk cand. mag. prófum í sagnfræði og rússnesku og dr. phil. prófi í sagnfræði frá Kaupmannahafnarháskóla. Hann var prófessor í Kaupmannahafnarháskóla til 2011. Hann gaf út stórvirkið The ‘Special’ World: Stalin’s Power Apparatus and the Soviet System’s Secret Structures of Communication í tveimur bindum (633 og 520 bls.) 2009 eftir margra ára rannsóknir í rússneskum skjalasöfnum. Hann hefur einnig birt bækur á dönsku um Lenín (og hlaut fyrir það H. O. Lange verðlaun Konungsbókhlöðu), Stalín og Komintern, Alþjóðasamband kommúnista. Hann flutti erindi í Háskóla Íslands 10. september 2012 um „The Secret World of the Comintern“, og er hann aðgengilegur hér á Youtube.

  • Ljósmynd af Øystein Sørensen: Oslóarháskóli-Sissel Drevsjo
  • Ljósmynd af Hannesi H. Gissurarsyni: Mbl.-Rax.
  • Ljósmynd af Þór Whitehead: Vísir-Heiða Helgadóttir.

Comments are closed.