Andreasen: Gangið ekki í Evrópusambandið!

Frá v.: Hallur Hallsson, Björn Bjarnason og Marta Andreasen. Ljósm. Octavio Otaño.

Marta Andreasen, fyrrverandi yfirbókari framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, ESB, var ómyrk í máli á fjölsóttum fundi RNH, Íslensks þjóðráðs og annarra samtaka um framtíð Evrópusambandsins föstudaginn 30. ágúst 2013: Gangið ekki í ESB! Andreasen var rekin fyrir að gera athugasemdir við spillingu og óreiðu innan ESB og neita að skrifa upp á reikninga þess. Hún benti á, að reikningar ESB hefðu ekki fengist endurskoðaðir í átján ár. Endurskoðendur treystu sér ekki til þess að staðfesta þá um undirskrift sinni. Hún spurði, hvert allt hið mikla fé, sem Grikkjum og Spánverjum hefði verið veitt eftir aðild sína til að laga hagkerfi sín að öðrum evrópskum hagkerfum, hefði runnið. Í ljós hefði komið í fjármálakreppunni 2008, að þessi hagkerfi hefðu verið alls vanbúin. Andreasen kvaðst geta borið um það af reynslu sinni sem einn af æðstu embættismönnum ESB, að sambandinu væri stjórnað af slíkum embættismönnum, en ekki kjörnum fulltrúum fólksins, enda hefðu kjósendur í Evrópulöndum margsinnis greitt atkvæði gegn tillögum ESB um stjórnarskrár, nýja sáttmála eða upptöku evru, þegar þeir hefðu átt kost á því.

Embættismennirnir nafnlausu og ábyrgðarlausu í Brüssel vildu gjarnan, sagði Andreasen, að Ísland fengi aðild að ESB, því að þeir vildu víkka sambandið út og auka völd sín sem mest, en þeir hefðu líka augastað á hinum fengsælu fiskimiðum umhverfis Ísland. Ólíklegt væri, ef Íslendingar fengju aðild að ESB, að ýmsar Evrópuþjóðir með stóra fiskiskipaflota myndu þá leyfa Íslendingum að sitja einum að þeim, þegar til lengdar læti. Andreasen situr nú á Evrópuþinginu fyrir breska Íhaldsflokkinn. Hún kvað þingið hins vegar vera lítið annað en gúmmístimpil fyrir embættismennina í Brüssel. Evrópuráðið væri eina stofnunin, sem reyndi að halda valdi í skefjum. Bretland hefði líka gegnt mikilvægu hlutverki við að hægja á og jafnvel snúa við hinum öra vexti Brüssel-valdsins. Andreasen hefur skrifað bók um veldi skriffinnanna í Brüssel, Brussels Laid Bare eða Brüssel-valdið afhjúpað. Koma Andreasens til landsins vakti mikla athygli, og fluttu Sjónvarpið og Morgunblaðið viðtöl við hana. Talsvert hefur líka verið skrifað á Netinu um sjónarmið Andreasens, til dæmis Björn Bjarnason í leiðara Evrópuvaktarinnar og Evrópusambandsaðildarsinninn Elvar Örn Arason á Eyjubloggi sínu, þar sem hann svaraði að vísu ekki rökum Andreasens, heldur rifjaði upp vandræðalegar staðreyndir um fyrrverandi samstarfsfólk hennar, og svaraði Björn Bjarnason honum að bragði.

Hinum skrifaða fyrirlestri Andreasens má hlaða niður héðan. Þátttaka RNH í þessum viðburði var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, „Evrópa, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Comments are closed.