Hannes H. um bankahrunið, Vilnius fimmtudag 12. september

Ljósm. Birgir Ísl. Gunnarsson.

Dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor, sem situr í rannsóknarráði RNH, flytur fyrirlestur um íslenska bankahrunið og þá lærdóma, sem Evrópuþjóðir geta dregið af því, á ráðstefnu Rannsóknarseturs um frjálsan markað í Litháen, Lithuanian Free Market Institute, í Vilnius, höfuðborg Litháens, 12. september 2013. Í fyrirlestri sínum mun Hannes ræða sérkenni íslenska bankahrunsins og sérstakar ástæður þess umfram hinar almennu ástæður alþjóðlegu fjármálakreppunnar, þar á meðal tvær tegundir af kerfisáhættu, vegna of lítillar dreifingar eigna og skulda í íslenska fjármálageiranum og vegna hins mikla stærðarmunar á rekstrarsvæði bankanna, öllu EES, og baktryggingarsvæði þess, Íslandi einu. Hann mun kynna kenningar sínar og rannsóknir á því, hvers vegna seðlabankinn bandaríski veitti íslenska seðlabankanum ekki aðstoð, um leið og hann veitti seðlabönkum allra annarra vestrænna ríkja feikilegan fjárstuðnings með gjaldeyrisskiptasamningum, hvers vegna ríkisstjórn breskra jafnaðarmanna lokaði íslensku bönkunum, sama dag og hún jós stórfé í alla aðra banka í Bretlandi, og hvers vegna breska stjórnin beitti hryðjuverkalögum á íslensk fyrirtæki og stofnanir með þeim afleiðingum, að engu varð bjargað.

Þessi viðburður er þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans”. Eftir ráðstefnuna 12. september tekur Hannes Hólmsteinn þátt í málstofu í Vilnius 13. september um framtíðarverkefni hugmyndaveitna, sem reyna að vekja skilning á lausnum í anda frjálsra viðskipta frekar en valdboðs. Að kvöldi 13. september flytur Hannes Hólmsteinn fyrirlestur á fundi ungra frjálshyggjumanna í Vilnius. Nefnist hann „Three Liberal Thinkers: Personal Recollections of Hayek, Popper and Friedman.“ Þrír frjálslyndir hugsuðir: Minningar um Hayek, Popper og Friedman. Þar segir Hannes Hólmsteinn frá kynnum sínum af þessum þremur hugsuðum og ræðir um hugmyndir þeirra og rök. Kynntist hann þeim í doktorsnámi sínu í Bretlandi 1981–1985, á fundum Mont Pelerin-samtakanna, sem hann sótti allt frá 1980, og í Hoover-stofnuninni í Stanford-háskóla, þar sem hann var iðulega gestafræðimaður, Visiting Scholar, á níunda og tíunda áratug 20. aldar.

Glærur HHG Vilnius 12. september 2013

Glærur HHG Vilnius 13. september 2013

 

Comments are closed.