Viðburðir RNH vekja athygli

Myndasýning sú, sem RNH stóð að 23. ágúst til 16. september 2013 í samstarfi við Þjóðarbókhlöðuna og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, „Heimskommúnisminn og Ísland,“ hefur vakið mikla athygli. Sjónvarpið sagði frá henni í kvöldfréttum 23. ágúst og ræddi einnig við dr. Mart Nutt, þingmann frá Eistlandi, sem flutti fyrirlestur við opnunina. Viðskiptablaðið sagði frá myndasýningunni 23. ágúst á vefsjónvarpi sínu og ræddi við Dr. Pawel Ukielski, forstöðumann safnsins um uppreisnina í Varsjá 1944, en hann flutti fyrirlestur við opnunina. Viðskiptablaðið birti einnig frétt um myndasýninguna og nokkrar myndir af henni 29. ágúst. Morgunblaðið birti frétt um myndasýninguna 24. ágúst og viðtal við dr. Pawel Ukielski 9. september,  og talaði hann þar um bandalag nasista og kommúnista tvö fyrstu ár heimsstyrjaldarinnar síðari, uppreisnina í Varsjá 1944, safnið um uppreisnina, sem hann veitir forstöðu, og kynni sín af Lech Kaczynski, forseta Póllands, sem var áhugasamur um að halda á lofti minningunni um fórnarlömb alræðisstefnunnar. Morgunblaðið birti einnig ritstjórnargrein 24. ágúst í tilefni minningardagsins um fórnarlömbin. Á Youtube er stutt heimildarmynd frá RNH með boðskap þeirra Nutts og Ukielskis ásamt nokkrum sýnishornum frá myndasýningunni.

Fundur Íslensks þjóðráðs og RNH 30. ágúst 2013 með Mörtu Andreasen, fyrrverandi yfirmanni reikningshalds framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, vakti einnig mikla athygli. Sjónvarpið ræddi við hana í kvöldfréttum 30. ágúst. Morgunblaðið birti viðtal við Andreasen 31. ágúst og erindi hennar í heild 3. september. Þar sagði hún meðal annars um reynslu sína í starfi: „Ég varð furðu lostin á skorti á gagnsæi og eftirliti með eyðslu á skattfé almennings en þó enn meir á staðföstum ásetningi kerfiskarla um að koma í veg fyrir umbætur.“ Einnig birti blaðið ritstjórnargrein um boðskap Andreasens 2. september. Upptaka af fyrirlestri Andreasens var sýnd nokkrum sinnum í sjónvarpsstöðinni ÍNN, og einnig má nálgast hana á heimasíðu Íslensks þjóðráðs, á Youtube og hér:

Comments are closed.