Zver um minningar og sögu: mánudag 16. september 17–18

Dr. Andreja Valic Zver heldur fyrirlestur í Þjóðarbókhlöðunni mánudaginn 16. september 2013 kl. 17–18 um efnið: „Hvers vegna þurfum við að minnast fórnarlambanna?“ Fyrirlestur hennar er í tilefni af því, að þennan dag lýkur myndasýningu í Þjóðarbókhlöðunni, sem hófst á minningardegi fórnarlamba alræðis í Evrópu, 23. ágúst. Myndasýningin í Þjóðarbókhlöðunni ber heitið „Heimskommúnisminn og Ísland“. Evrópuþingið valdi 23. ágúst sem minningardag, því að Hitler og Stalín gerðu griðasáttmála sinn þann dag árið 1939, skiptu á milli sín mið- og Austur-Evrópu og hleyptu af stað heimsstyrjöldinni síðari. Á fundinum með dr. Zver mun dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor einnig afhenda Þjóðarbókhlöðunni fjölda skjala, sem dr. Arnór Hannibalsson prófessor fann í söfnum í Moskvu um íslenska kommúnista. Hafði Arnór falið Hannesi Hólmsteini að vinna úr þeim, og notaði hann þau í bókinni Íslenskum kommúnistum 1918–1998. Er samkoman í Þjóðarbókhlöðunni sérstaklega til minningar um og til heiðurs Arnóri, sem lést 28. desember 2012.

Dr. Andreja Valic Zver er sagnfræðingur að mennt. Hún lauk doktorsprófi frá Ljubljana-háskóla í Slóveníu og hefur birt ýmis fræðirit á móðurtungu sinni. Hún er forstöðumaður Rannsóknarseturs um sögu og þjóðarsátt í Ljubljana og situr í stjórn Mannréttindastofnunar Evrópusambandsins. Valic Zver var formaður sögukennarafélags Slóveníu 2003–2008. Hún er formaður skóladeildar Sögufélags Slóveníu, formaður skjalavörslunefndar Slóveníu og situr í framkvæmdaráði Evrópusamtaka um minningar og samvisku. Hún er gift einum kunnasta stjórnmálamanni Slóveníu, Milan Zver, sem var menntamálaráðherra lands síns 2004–2008 og situr nú á Evrópuþinginu með flest atkvæði allra slóvenskra fulltrúa. Fundurinn er þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“. Fundarstjóri verður Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra. Að fundinum standa auk RNH Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og Varðberg, samtök um vestræna samvinnu.

Comments are closed.