North um EES og Breta: Fimmtudag 30. janúar 12–13

Evrópuvaktin, Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og RNH boða til hádegisfundar fimmtudaginn 30. janúar klukkan 12.00 til 13.00 í stofu 101 í Odda, Háskóla Íslands, með dr. Richard North sem hefur sérhæft sig í rannsóknum á Evrópusambandinu, ESB, og sérstaklega stöðu Breta innan þess. Fjörugar umræður eru nú í Bretlandi um framtíðarsamband landsins og ESB. David Cameron forsætisráðherra hefur lofað þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Breta að ESB árið 2017, fái hann brautargengi í þingkosningum 2015. Dr. Richard North hefur fært rök fyrir því, sem hann kallar „Norway Option“ — norska kostinum. Þar lítur hann á samband Noregs við ESB samkvæmt EES-samningnum. Skoðanir hans á því efni eiga ekki síður erindi til Íslendinga en Breta eða Norðmanna. Þátttaka RNH í fundinum er liður í samstarfsverkefni þess og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Dr. Richard North fæddist 1948. Hann stundar rannsóknir og greiningu á stjórnmálum og þróun þeirra. Hann er rithöfundur og bloggari. Hann hefur starfað á öllum stigum stjórnsýslu, en hóf störf að umhverfis-og heilbrigðismálum á sveitarstjórnarstigi. Hann sinnti hagsmunagæslu fyrir smáframleiðendur í viðskiptalífinu og var í fjögur ár rannsóknastjóri fyrir stjórnmálasamtök á ESB-þinginu. Í tíu ár hefur hann starfað sem sjálfstæður ráðgjafi fyrir breska þingmenn og ráðherra í ríkisstjórn Bretlands. Richard hefur skrifað nokkrar bækur með blaðamanninum Christopher Booker, meðal annars Mad Officials og Great Deception – the Secret History of the European Union, en auk þess Scared to Death þar sem lýst er notkun hræðsluröksemda í stjórnmálabaráttu. Þá hefur hann sjálfur skrifað nokkrar bækur, þar á meðal Ministry of Defeat um misheppnaðar aðgerðir Breta í suðurhluta Íraks og The Many Not the Few, um hina hliðina á orrustunni um Bretland í síðari heimsstyrjöld. Nýjasta ritverk hans, The Norway Option, sem er gefið út af Bruges-hópnum, snýst um tengsl Noregs við ESB.

Richard stóð með öðrum að því að koma á fót lýðræðishreyfingunni The Harrogate Agenda og hann bloggar á síðunni EUreferendum.com þar sem hann greinir og segir álit sitt á þróun ESB-málefna. Hann er einn þeirra sem keppa til úrslita í ritgerða- og tillögusamkeppni á vegum IEA, Institute of Economic Affairs í Lundúnum. Samkeppnin er um svonefnd Brexit-verðlaun, sem veitt verða fyrir bestu hugmyndirnar um stöðu Bretlands eftir hugsanlega úrsögn úr ESB, en keppninni er ekki lokið.

Comments are closed.