North: Bretar skoði aðild að EES í stað ESB

Á fjölsóttum hádegisfundi RNH, Evrópuvaktarinnar og Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands í Háskóla Íslands 30. janúar 2014 hélt hinn kunni rithöfundur, stjórnmálaskýrandi og bloggari dr. Richard North, því fram, að Bretar ættu að skoða, hvort þeim hentaði ekki betur að gerast aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu, EES, með Norðmönnum, Íslendingum og íbúum Liechtenstein, en að vera áfram í Evrópusambandinu, ESB. Sannleikurinn væri sá, að Bretar réðu miklu meiru um eigin mál utan ESB en innan þess. Þeir gætu eins og Norðmenn og Íslendingar haft áhrif á löggjöf á þeim sviðum, sem varðaði þá sérstaklega. Löggjöf mótaðist sífellt meira eftir alþjóðarétti, en ekki eftir ákvörðunum ESB eins.

North benti á, að á næstu árum væri fyrirhuguð í Bretlandi þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildina að ESB. Teldi hann næsta víst, að úrsögn yrði þar samþykkt. Bretar vildu hafa forræði á eigin málum, en ekki taka við tilskipunum frá Brussel. Heppilegra væri þó að ganga strax úr sambandinu, en halda vitanlega áfram viðskiptum við aðildarríki ESB. Þá væri augljósasti kosturinn að nýta það regluverk, sem þegar hefði orðið til í EES og Norðmenn og Íslendingar ynnu við. North dvelst á Íslandi í nokkra daga við rannsóknir og ræðir meðal annars við stjórnmálamenn og fulltrúa hagsmunasamtaka um afstöðuna til Evrópusambandsins.

Fyrirlestur Norths í Háskólanum vakti mikla athygli. Morgunblaðið birti viðtal við fyrirlesarann 30. janúar og Spegill Ríkisútvarpsins frétt um fundinn 31. janúar. Á meðal gesta á hádegisfundinum var Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra. Björn Bjarnason, fyrrverandi menntamálaráðherra og dómsmálaráðherra, var aðalhvatamaður að heimsókn Norths, bloggaði um fyrirlestur hans og svaraði ádeilum fólks, sem hvorki sótti fyrirlesturinn né las. Sjálfur bloggaði North um heimsókn sína til Íslands, þar á meðal ferð sína um „gullna hringinn“ og viðræður við fulltrúa landbúnaðar og sjávarútvegs.

 

Comments are closed.