Grossman heimsækir RNH

Dan Grossman

Dan Grossman, stjórnarformaður Atlas Network og stjórnarmaður í Students for Liberty, kom í stutta heimsókn til Íslands dagana 11.–12. maí. Hann sat hádegisverð með Gísla Haukssyni, formanni stjórnar RNH, og nokkrum öðrum, sem tekið hafa þátt í starfsemi RNH. Gísli rifjaði upp hið helsta, sem RNH hefur gert síðustu tvö ár, þar á meðal útgáfu þriggja skáldsagna Ayns Rands og skipulagningu nokkurra alþjóðlegra ráðstefna um tvö efni, sem Íslendingum eru hugstæð, stjórn fiskveiða og hina alþjóðlegu fjármálakreppu, ásamt fjölda fyrirlestra, sem erlendir og innlendir fræðimenn og rithöfundar hafa haldið um ýmis efni. Gísli fór einnig yfir, hvað væri framundan hjá RNH. Þar á meðal væru fundir um tekjudreifingu og skatta, vísitölu atvinnufrelsis og kenningu Herberts Spencers, netútgáfa ýmissa ófáanlegra rita á íslensku um alræðisstefnu nasista, fasista og kommúnista, svo sem tímamótaverksins Svartbókar kommúnismans, og útgáfa bókar eftir vísindarithöfundinn dr. Matt Ridley um það, að heimurinn fari batnandi þrátt fyrir allt bölsýnistalið. RNH er aðili að Atlas Network, en stofnandi þess, Sir Anthony Fisher, kom eitt sinn til Íslands og hafði mikil áhrif á íslenska atvinnurekendur og kaupsýslumenn, þegar hann brýndi fyrir þeim að standa vörð um atvinnufrelsið og styðja þá örfáu og umsetnu menntamenn, sem því væru hliðhollir.

Comments are closed.