Útgáfuhóf: ný bók um tekjudreifingu og skatta

Útgáfuhóf verður á Litla torgi, hliðarsal Hámu (inn af mötuneytinu og Bóksölu stúdenta) fimmtudaginn 21. ágúst kl. 17–19. Tilefnið er, að nú er komin út ný bók í ritröðinni Þjóðmálarit Almenna bókafélagsins, greinasafnið Tekjudreifing og skattar, sem þeir Ragnar Árnason prófessor og Birgir Þór Runólfsson dósent ritstýra. Er verkið gefið út í samstarfi við RSE. Hugveitan New Direction í Brussel studdi ýmsar rannsóknir, sem gerðar voru í tengslum við verkið. Auk þeirra Ragnars og Birgis Þórs eiga greinar í bókinni dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor, dr. Helgi Tómasson tölfræðidósent og hagfræðingarnir Axel Hall og Arnaldur Sölvi Kristjánsson, sem báðir stunda doktorsnám í hagfræði.

Ragnar telur, að Gini-stuðlar séu gallaðir mælikvarðar á tekjudreifingu og gera þurfi greinarmun á rauntekjum og nafntekjum og á vergri og hreinni skattbyrði, og mælist þá tekjudreifing jafnari og skattbyrði ójafnari en ella. Birgir Þór vekur athygli á gögnum, sem sýna sterkt samband atvinnufrelsis og góðra lífskjara. Hannes vísar því á bug, að fátækt hafi árin 1991–2004 verið meiri hér en á öðrum Norðurlöndum, eins og haldið hefur verið fram. Helgi sýnir fram á, að Gini-stuðull geti verið hinn sami við ólíkar tekjudreifingar. Axel færir rök fyrir því, að skattahækkanir í jöfnunarskyni minnki hagvöxt. Arnaldur Sölvi lýsir ýmsum skattagildrum í hinu íslenska kerfi skatta og bóta.

RNH styður þessa ritröð AB. Fyrri bækur í henni eru Icesave-samningarnir: Afleikur aldarinnar? eftir Sigurð Má Jónsson blaðamann (2011) og Búsáhaldabyltingin: Sjálfsprottin eða skipulögð? eftir Stefán Gunnar Sveinsson sagnfræðing (2014).

Inngangur og efnisútdráttur: Tekjudreifing og skattar

Comments are closed.