Þrír frá RNH á þingi Mont Pèlerin samtakanna

Stofnendur Mont Pèlerin samtakanna: Popper og Hayek

Þrír einstaklingar, sem tengjast RNH, sækja þing Mont Pèlerin samtakanna í Hong Kong 31. ágúst–5. september 2014, Gísli Hauksson, formaður stjórnarinnar, Jónas Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri RNH, og dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, sem situr í rannsóknarráði setursins, en hann er eini Íslendingurinn í samtökunum. Þetta þing er helgað „Emerging Asia and the Future of Liberty“ eða „Framfarir í Asíulöndum og framtíð frelsisins“. Meðal þeirra, sem tala á þinginu, eru Deepak Lal, hagfræðiprófessor í UCLA, en hann er af indverskum ættum, Roderick MacFarquhar, prófessor í Harvard og einn fremsti Kínasérfræðingur heims, Yoshinori Shimizu, hagfræðiprófessor í Japan, John Taylor, hagfræðiprófessor í Stanford (sem Taylor-reglan um vaxtastefnu seðlabanka er kennd við), Vaclav Klaus, fyrrverandi forseti Tékklands, Edward Luttwak, sérfræðingur í öryggismálum, Pascal Salin, einn kunnasti peningamálahagfræðingur Frakklands, William Easterly, hagfræðiprófessor í New York og höfundur víðkunnra verka um tilgangsleysi þróunaraðstoðar, og ýmsir kínverskir fræðimenn, jafnt frá meginlandinu og frá Hong Kong. Einnig verður á þinginu rætt um fræðilega arfleifð tveggja Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði, sem voru félagar í Mont Pèlerin samtökunum og létust á árinu, þeirra Garys Beckers og Ronalds Coases.

Mont Pèlerin samtökin voru stofnuð í Sviss vorið 1947 að frumkvæði ensk-austurríska hagfræðingsins og heimspekingsins Friedrichs A. von Hayeks, sem hlaut Nóbelsverðlaunin í hagfræði 1974, en hann kom til Íslands vorið 1980 og hélt tvo fyrirlestra, sem höfðu víðtæk áhrif, ekki síst til þess mikla frelsisauka, sem varð tímabilið 1991–2004. Á meðal stofnfélaga voru Milton Friedman, George J. Stigler og Maurice Allais, sem allir áttu eftir að hljóta Nóbelsverðlaun í hagfræði, en einnig bandarísk-austurríski hagfræðingurinn Ludwig von Mises, Luigi Einaudi, forseti Ítalíu, Frank H. Knight, prófessor í Chicago og stundum nefndur faðir Chicago-skólans í hagfræði, og ensk-austurrísku heimspekingarnir Karl Popper og Michael Polanyi. Á meðal annarra nafnkunnra félaga í samtökunum má nefna þýska stjórnmálamanninn Ludwig Erhard, bandaríska hagfræðinginn og Nóbelsverðlaunahafann James M. Buchanan og þýsk-austurríska stjórnmálamanninn Otto von Habsburg, sem var ríkisarfi í Austurríki og Ungverjalandi fram að hruni Dónárveldis Habsborgarættarinnar. Núverandi forseti samtakanna er bandaríski hagfræðiprófessorinn Allan Meltzer, sem er höfundur yfirgripsmikillar sögu Seðlabanka Bandaríkjanna. Á meðal fyrri forseta samtakanna eru þeir Hayek, Friedman, Stigler og Buchanan og þeir prófessor Antonio Martino, fyrrverandi utanríkisráðherra og varnarmálaráðherra Ítalíu, og dr. Ed Feulner, fyrrverandi forstjóri Heritage Foundation í Washington-borg. Þátttaka Íslendinganna þriggja í þinginu er liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Comments are closed.