Framfarirnar í Asíu og framtíð frelsisins

Frá v.: John Stanley, Kevin Murphy og Ed Feulner. Ljósm.: Alejandro Chafuen.

Framfarirnar í Asíu síðustu þrjátíu ár voru eitt helsta umræðuefnið á þingi Mont Pèlerin samtakanna, alþjóðlegs málfundafélags frjálslyndra fræðimanna og umbótasinna, sem haldið var í Hong Kong 31. ágúst til 5. september 2014. Mörg hundruð milljónir manna í Asíulöndum hafa þessa þrjá áratugi brotist úr fátækt í bjargálnir með því að taka þátt í frjálsum alþjóðaviðskiptum og nýta kosti samkeppni og séreignarréttar. Hagfræðingar frá Japan, Indlandi, Suður-Kóreu, Hong Kong og Kína fluttu erindi um þróunina í heimalöndum sínum. Ein málstofa á þinginu var einnig helguð Kína og umheiminum, og héldu þar fyrirlestra tveir nafntogaðir brautryðjendur í kínverskum fræðum, Edward Luttwak og Roderick Farquhar, og reyndu að ráða í rúnir kínversku kommúnistastjórnarinnar, sem einokar völdin í fjölmennasta ríki heims, en hefur horfið frá sameignarstefnu og áætlunarbúskap. Önnur málstofa var um verðbólgu og peningamál, og talaði þar meðal annarra John Taylor, prófessor í Stanford-háskóla, sem Taylor-reglan um starfsemi seðlabanka er nefnd eftir. Enn fremur var málstofa á þinginu um það, hvort dregið hefði sundur með hálaunafólki og miðstéttinni, eins og oft væri haldið fram, og þar var Kevin Murphy, prófessor í Chicago-háskóla, á meðal frummælenda.

Prófessor Gary Becker var formaður dagskrárnefndar þingsins, en hann lést vorið 2014. Prófessor Richard Wong í Háskólanum í Hong Kong hafði hins vegar veg og vanda af skipulagningu þingsins. Þrír Íslendingar sóttu þetta þing samtakanna, Gísli Hauksson, formaður stjórnar RNH, Jónas Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri RNH, og Hannes H. Gissurarson prófessor, sem situr í rannsóknaráði RNH, en hann er eini Íslendingurinn í samtökunum. Að frumkvæði Íslendinganna hittust Norðurlandabúarnir á þinginu í kvöldverði 2. september og báru saman bækur sínar. Á þinginu lét prófessor Allan Meltzer, einn kunnasti peningamálahagfræðingur heims, af starfi sem forseti Mont Pèlerin samtakanna, og var prófessor Pedro Schwartz frá Spáni kjörinn í hans stað. Dr. Ed Feulner, fyrrverandi forstöðumaður Heritage Foundation í Washington-borg, lét einnig af starfi gjaldkera, en hann hefur verið lífið og sálin í samtökunum áratugum saman. Var honum fært málverk að gjöf fyrir framlag sitt. Mont Pèlerin samtökin voru stofnuð vorið 1947 í Sviss að frumkvæði Friedrichs von Hayeks, en á meðal stofnfélaga voru hagfræðingarnir Milton Friedman, George J. Stigler, Frank H. Knight, Ludwig von Mises og Maurice Allais og heimspekingurinn Karl R. Popper. Næst halda samtökin svæðisþing í Lima í Perú 22.–25. mars 2015, en næsta aðalþing verður í Miami í Florida í september 2016. Samtökin héldu svæðisþing í Reykjavík í ágúst 2005, og töluðu þá meðal annarra prófessor Harold Demsetz frá Kaliforníuháskóla í Los Angeles, Vaclav Klaus, forseti Tékklands, Davíð Oddsson, þá utanríkisráðherra, dr. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, og prófessorarnir Hannes H. Gissurarson, Ragnar Árnason og Þráinn Eggertsson.

Comments are closed.