Bókagjöf á minningardegi fórnarlambanna

Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir landsbókavörður tekur við bókagjöfinni frá Hannesi H. Gissurarsyni. Ljósm. Ólafur Engilbertsson.

Árið 2009 ákvað Evrópuþingið að gera 23. ágúst að sérstökum minningardegi fórnarlamba alræðisstefnunnar, nasisma og kommúnisma. Dagurinn er valinn vegna þess, að þennan dag árið 1939 gerðu þeir Hitler og Stalín griðasáttmála um að skipta á milli sín Mið- og Austur-Evrópu, en með því hleyptu þeir líka heimsstyrjöldinni síðari af stað. Þeir skiptu Póllandi á milli sín, en Finnland og Eystrasaltslöndin þrjú áttu að koma í hlut Stalíns, þótt hann yrði að lokum að láta sér nægja Eystrasaltslöndin auk helmings Póllands. RNH er aðili að Evrópuvettvangi minningar og samvisku, sem stofnaður var til að halda á lofti minningu fórnarlamba alræðisstefnu tuttugustu aldar, og 23. ágúst 2013 var opnuð myndasýning um „Ísland og heimskommúnismann“ í Þjóðarbókhlöðunni, jafnframt því sem þeir dr. Pawel Ukielski frá Póllandi og dr. Mart Nutt frá Eistlandi lýstu reynslu heimalanda sinna af nasisma og kommúnisma. Þegar myndasýningunni var lokað 16. september, flutti slóvenski sagnfræðingurinn dr. Andreja Valic Zver fyrirlestur um nauðsyn á og skyldu til að halda minningunni á lofti. Enn fremur voru þá handritadeild Þjóðarbókhlöðunnar afhent skjöl þau, sem prófessor Arnór Hannibalsson hafði grafið upp í söfnum í Moskvu og prófessor Hannes Hólmsteinn Gissurarson unnið úr í yfirlitsriti sínu um Íslenska kommúnista 1918–1998.

RNH sinnir samstarfsverkefni með AECR, Evrópusamtökum íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“. Nú í ár notaði RNH tækifærið á minningardegi fórnarlambanna og gaf Þjóðarbókhlöðunni ýmsar bækur í tengslum við þetta samstarfsverkefni, þar á meðal tveggja binda skýrslu rannsóknarnefndar í Eistlandi á framferði kommúnista og nasista allt frá hernámi Eistlands sumarið 1940, tveggja binda verk danska sagnfræðingsins prófessor Bents Jensens um Danmörku í kalda stríðinu og ævisögur Tékkans Ottos Katz (öðru nafni André Simone), Þjóðverjans Willis Münzenbergs og Danans Arnes Munch-Petersens, sem allir komu nokkuð við sögu íslenskra kommúnista og létu allir lífið fyrir málstaðinn, en Katz var hengdur eftir sýndarréttarhöld í Prag, Münzenberg myrtur af flugumönnum Stalíns í frönskum skógi og Munch-Petersen látinn sæta óblíðri meðferð í rússnesku fangelsi með þeim afleiðingum, að hann lést. Á minningardegi fórnarlambanna birti prófessor Hannes H. Gissurarson einnig grein í Morgunblaðinu, 23. ágúst 2014, um „Sögulegt gildi griðasáttmálans“. Lýsti hann þar framferði Hitlers og Stalíns í Póllandi og Eystrasaltslöndunum, skipulagðri útrýmingu gyðinga, brottflutningi fólks, handtökum og aftökum:

Comments are closed.