Hvers virði var Rússagullið?

Í 29. tbl. 33. árg. Vísbendingar í júlí 2015 birtist grein eftir prófessor Hannes H. Gissurarson, rannsóknastjóra RNH, um það, hvers virði Rússagullið var, sem íslenskir kommúnistar og sósíalistar fengu frá Moskvu. Hannes telur rétt að færa upp þær tölur, sem til eru í skjölum, af tveimur ástæðum. Önnur er sú, að greiðslurnar voru leynilegar og ekki tekinn neinn skattur af þeim, áður en Sósíalistaflokkurinn fékk þær í hendur ólíkt því til dæmis, ef verkamaður í Norðurmýrinni hefði látið fé af hendi rakna. Hin ástæðan er, að núvirða verður upphæðir miðað við verðlag. Tíu þúsund dalir árið 1955 er að raunvirði miklu meira 2015. Niðurstaða Hannesar er, að það Rússagull, sem vitað er um (en auk þess kunna aðrar greiðslur að hafa farið fram annars staðar, til dæmis fyrir milligöngu leyniþjónustu Moskvumanna, KGB, eða leyniþjónustu Rauða hersins, GRÚ), hafi skattvirt og núvirt numið um 3,5 milljónum Bandaríkjadala eða hátt í 500 milljónum íslenskra króna. Þetta hafi verið um 30 milljónir króna á ári tímabilið 1955–1970. Mjög hafi munað um þetta fé í landi, þar sem aðeins bjuggu rösklega 150 þúsund manns árið 1955. Rannsókn Hannesar var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“.

Comments are closed.