Hannes í Sofia: Frelsi á Íslandi 930–2015

Frá miðborg Sofia.

Hannes H. Gissurarson prófessor heldur fyrirlestur á svæðisráðstefnu Evrópusamtaka frjálshyggjustúdenta, European Students for Liberty, í Sofia í Búlgaríu laugardaginn 17. október kl. 12–13. Nefnist fyrirlesturinn „Frelsi á Íslandi 930–2015“. Þar heldur Hannes því fram, að lögmál hagfræðinnar hljóti að gilda í litlum löndum alveg eins og stórum, ella séu þau ekki gild lögmál. Nota megi hagfræðina til að skýra, hvers vegna réttarvarsla í höndum einstaklinga eins og tíðkaðist í íslenska þjóðveldinu 930–1262 geti verið skilvirk. Einnig hafi Forn-Íslendingar komið sér upp tiltölulega hagkvæmri aðferð til að samnýta beitarland á fjöllum, ítölu, og þannig forðast „samnýtingarbölið“ (the tragedy of the commons). Hannes ræðir líka þá spurningu, hvers vegna Íslendingar sultu hálfu og heilu hungri öldum saman, þótt gjöful fiskimið væru skammt undan landi, og vísar í svarinu til þess bandalags konungs og fámennrar landeigendastéttar, sem stóð allt frá lokum fimmtándu aldar og fram að Móðuharðindum, þegar það féll um sjálft sig. Hannes greinir kvótakerfið, sem skilað hefur góðum árangri í fiskveiðum á Íslandsmiðum, en þær eru í senn sjálfbærar og arðbærar. Þar hafi Íslendingum aftur tekist að forðast samnýtingarbölið.

Hannes ber markaðskapítalismann á Íslandi 1991–2004 saman við klíkukapítalismann 2004–2008, en þá notaði fámenn klíka auðjöfra hið góða orðspor Íslands, sem myndast hafði hálfan annan áratug á undan, til óhóflegrar skuldasöfnunar erlendis. Hannes telur hins vegar ekki, að sú skuldasöfnun sé meginskýringin á bankahruninu, heldur sú staðreynd, að Bandaríkjamenn og Bretar skildu Ísland eftir úti í kuldanum, þegar mörg önnur ríki fengu mikilvæga aðstoð, aðallega með gjaldeyrisskiptasamningum við bandaríska seðlabankann. Bretar gengu lengra, lokuðu breskum bönkum í eigu Íslendinga á sama tíma og þeir veittu öllum öðrum breskum bönkum stórkostlega fjárhagsaðstoð, jafnframt því sem þeir beittu hryðjuverkalögum á Íslendinga. Hannes kveður meginskýringuna á uppgangi Íslands síðustu árin hins vegar vera, að landið var aldrei gjaldþrota eins og Gordon Brown hafði fullyrt. Íslenska hagkerfið standi á fjórum traustum stoðum, hagkvæmu fyrirkomulagi fiskveiða, orkuvinnslu, ferðamannaþjónustu og miklum mannauð. Fyrirlestur Hannesar er þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Glærur Hannesar í Sofia 17. október 2015

Comments are closed.