Öld alræðisins og einkennileg örlög á Íslandi

Hannes flytur erindi sitt í Viljandi.

Prófessor Hannes H. Gissurarson, forstöðumaður rannsókna RNH, flutti 29. júní 2016 fyrirlestur á ráðstefnu Evrópuvettvangs minningar og samvisku, Platform of European Memory and Conscience. Ráðstefnan var um „Totalitarianism, Deportation and Emigration“, Alræði, nauðungarflutninga og brottflutninga, og fór fram í smábænum Viljandi í suðurhluta Eistlands.

Fyrirlestur Hannesar var um tvo Þjóðverja á Íslandi fyrir stríð, gyðingakonuna Henný Goldstein Ottósson og nasistann Bruno Kress, og hvernig saga þeirra fléttaðist saman á margvíslegan og óvæntan hátt. Fyrir stríð höfðu þau að vísu lítið hvort af öðru að segja, nema hvað heimildarmenn segja, að Kress hafi eins og flestir aðrir þýskir nasistar á Íslandi verið ónotalegur við þá gyðinga, sem hér voru landflótta. Ein óvænt tengsl voru síðan þau, að SS-sveitir Himmlers ráku „rannsóknarstofnunina“ Ahnenerbe, Arfleifðina, sem veitti Kress styrk til málfræðirannsókna, en annað rannsóknarefni stofnunarinnar var höfuðlag gyðinga, og var bróðir Hennýar tekinn til rannsóknar í Auschwitz, þar sem hann var fangi, en myrtur í Natzweiler-fangabúðunum. (Forstöðumaður Ahnenerbe var hengdur fyrir stríðsglæpi.) Fyrri eiginmaður Hennýar, Robert Goldstein, og mágkona hennar og bróðursonur voru myrt í Auschwitz. Eftir stríð lágu leiðir þeirra Hennýar og Brunos Kress aftur saman vorið 1958. Þá var hann orðinn kommúnisti og bjó í Austur-Þýskalandi, en var boðinn í sextugsafmæli Brynjólfs Bjarnasonar í Skíðaskálanum í Hveradölum. Þar sá Henný hann og rak upp stór augu. Varð nokkur þytur af í veislunni, en málið var um hríð þaggað niður. Kress varð heiðursdoktor frá Háskóla Íslands á 75 ára afmælinu 1986.

Hannes hefur birt eina ritgerð á íslensku um þetta einkennilega mál. Fjörugar umræður urðu að fyrirlestrinum loknum, og furðuðu sumir sig á því, að Háskóli Íslands skyldi hafa veitt gömlum nasista heiðursdoktorstitil. Á meðal annarra ræðumanna á ráðstefnunni voru Vytautas Landsbergis, fyrrverandi forseti Litáens, og Urmas Reinsalu, dómsmálaráðherra Eistlands. Þátttaka Hannesar var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“. Á ráðstefnunni voru veitt árleg verðlaun Evrópuvettvangsins fyrir baráttuna gegn alræðisstefnunni, og hlaut þau Leopoldo López, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Venesúela, sem situr saklaus í fangelsi, og tók faðir hans við þeim fyrir hans hönd. Hér er myndband um Leopoldo López:

Glærur HHG í Viljandi í Eistlandi 29. júní 2016

Comments are closed.