Siðferðileg álitamál í Icesave-deilunni

Á málstofu föstudaginn 28. október 2016 á Þjóðarspeglinum, sem er vettvangur félagsvísindafólks til að kynna rannsóknir sínar, ræðir dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, rannsóknastjóri RNH, siðferðileg álitamál í Icesave-deilu Íslendinga, Breta og Hollendinga. Málstofan er kl. 11–12.45 í stofu 102 í Lögbergi. Tilefni rannsóknarinnar er sú skoðun nokkurra háskólaprófessora, þeirra Þorvaldar Gylfasonar, Stefáns Ólafssonar og Vilhjálms Árnasonar, sem látin var í ljós í deilunni, að Íslendingum bæri siðferðileg skylda til að taka ábyrgð á útgjöldum Breta og Hollendinga vegna Icesave-reikninga Landsbankans, en þessir aðilar kölluðu útgjöldin lán og heimtuðu af því vexti. Hannes gagnrýnir rök þeirra, sem voru meðal annars þau, að íslenska ríkið hefði mismunað innlendum og erlendum innstæðueigendum.

Hannes skoðar einnig almennari umræður heimspekinga eins og Karls Jaspers, Davids Millers (sem var einn af kennurum hans í Oxford) og Jans Narvesons um siðferðilega samábyrgð eða samsekt. Hannes leiðir rök að því, að vissulega megi stundum hugsa sér siðferðilega samábyrgð, en að hún hafi ekki átt við um Íslendinga, sem gátu ekki borið ábyrgð á viðskiptum innstæðueigenda í leit að hárri ávöxtun fjár síns og útbúa Landsbankans erlendis. Íslendingar hafi fullnægt öllum lagalegum og siðferðilegum skyldum sínum með löggjöf á fjármálamarkaði. Fyrirlestur Hannesar er liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Samtökum íhaldsmanna og umbótasinna í Evrópu, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Comments are closed.