Engin ábyrgð eða sök íslensku þjóðarinnar

Hannes flytur fyrirlestur sinn.

Íslenska þjóðin bar enga ábyrgð og átti enga sök á því, að árin 2008–2009 leit út fyrir, að viðskipti Landsbankans og innstæðueigenda í Bretlandi og Hollandi færu illa. Þetta voru viðskipti einkaaðila, og þeir báru sjálfir ábyrgð á þeim. Íslenska ríkið fullnægði öllum skyldum sínum með því að stofna Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta eftir réttum reglum. Þetta var niðurstaða dr. Hannesar H. Gissurarsonar, prófessors og rannsóknastjóra RNH, í fyrirlestri, sem hann flutti á Þjóðarspeglinum, ráðstefnu félagsvísindasviðs, 28. október 2016. Þar andmælti hann prófessorunum Þorvaldi Gylfasyni, Stefáni Ólafssyni og Vilhjálmi Árnasyni, sem talið höfðu Íslendinga bera siðferðilega ábyrgð á Icesave-málinu, svo að þeir ættu að greiða Bretum og Hollendingum stórar fúlgur fjár, að minnsta kosti í vexti (og upp í höfuðstólinn líka, væri þess þörf) vegna útgjalda, sem Bretar og Hollendingar stofnuðu sjálfir til í málinu.

Hannes benti á, að þeir Stefán og Vilhjálmur hefðu misskilið neyðarlögin íslensku frá 6. október 2008. Þar hefði ekki verið um neina mismunun innstæðueigenda að ræða, heldur hitt, að allir innstæðueigendur, breskir jafnt og íslenskir, voru settir í forgang fram yfir aðra kröfuhafa á bankana. Það breytti engu, að um leið hefði verið gefin út munnleg yfirlýsing um, að innstæðum á Íslandi væri óhætt. Slíkar munnlegar yfirlýsingar hefðu verið gefnar út í mörgum Evrópuríkjum á sama tíma og ekki haft neitt lagagildi.

Hannes ræddi síðan um hugtökin siðferðilega samábyrgð og samsekt og umræður heimspekinga um þau. Vissulega væri stundum hugsanlegt, að menn bæru ábyrgð á einhverju, sem þeir hefðu ekki sjálfir gert. Til dæmis yrði skipstjóri að aðstoða skipbrotsmenn í neyð, ef hann gæti. Það væri líka hugsanlegt, að menn hefðu einhverjar skyldur í krafti þess, hverjir þeir væru frekar en hvað þeir hefðu gert eða samþykkt. Til dæmis ætti einstaklingur skyldur við foreldra sína og Íslendingar skyldur við tungu sína, sögu og menningu. En siðferðileg samábyrgð hefði ýmsar takmarkanir. Í fyrsta lagi mætti ekki svipta einstaklinga ábyrgð á gerðum sínum. Einnig gæti ábyrgð ekki verið umfram getu (eins og Keynes lávarður benti á í deilum um stríðsskaðabætur Þjóðverja). Í þriðja lagi mætti ekki reyna að leiðrétta sögulegt ranglæti með nýju ranglæti (eins og þegar karlar á okkar dögum ættu að gjalda þess í stöðuveitingum, að konur hefðu verið kúgaðar á fyrri öldum, en þess krefjast dólga-femínistar).

David Miliband og Ólafur Þ. Harðarson prófessor í hátíðasal Háskóla Íslands 2012.

Icesave-málið hefði ekki verið vaxið á þann veg, sagði Hannes, að Íslendingar bæru þar einhverja samábyrgð. Íslensk stjórnvöld hefðu fullnægt öllum sínum skyldum og ekkert gert á hluta þeirra bresku og hollensku sparifjáreigenda, sem hefðu kosið að geyma fé sitt frekar á háum vöxtum Landsbankans en annarra banka. Væri um að ræða einhverja siðferðilega samábyrgð eða samsekt, þá væri hún á herðum Breta, sem hefðu sett hryðjuverkalög á Íslendinga að nauðsynjalausu og lokað tveimur breskum bönkum, Heritable og KSF (báðum í eigu Íslendinga), um leið og þeir hefðu bjargað öllum öðrum breskum bönkum. Síðan hefði komið í ljós, að Heritable og KSF hefðu verið miklu betur staddir en margir þeir bankar, sem bjargað var. Einnig væri hugsanlega um að ræða einhverja siðferðilega samábyrgð eða samsekt þeirra vogunarsjóða, sem skipulagt hefðu áhlaup á íslensku bankana. Hannes lét í ljós furðu á því, að utanríkisráðherra stjórnarinnar, sem sett hefði hryðjuverkalög á Íslandi, David Miliband, hefði getað gefið fyrirmæli um það, þegar hann flutti fyrirlestur í Háskóla Íslands 2012, að ekki yrði þá rætt um samskipti Íslendinga og Breta haustið 2008.

Glærur Hannesar í Þjóðarspeglinum 2016

Comments are closed.