Hannes: Sex ráð til að rjúfa þögnina

Bled í Slóveníu.

Evrópuvettvangur um minningu og samvisku hélt ársfund sinn í Bled í Slóveníu 15. nóvember 2018, og sótti dr. Hannes H. Gissurarson prófessor hann fyrir hönd RNH. Á undan ársfundinum fór alþjóðleg ráðstefna í Ljubljana 13.–14. nóvember undir heitinu „Skuggahlið tunglsins“, og var hún um minningar þeirra þjóða Mið- og Austur-Evrópu, sem lentu undir stjórn kommúnista eftir seinni heimsstyrjöld og endurheimtu ekki frelsi sitt fyrr en árin 1989–1991. Á ráðstefnunni í Ljubljana flutti Hannes erindi um raddir fórnarlambanna. Lagði hann út af orðum Elies Wiesels, að böðullinn dræpi alltaf tvisvar, í seinna skiptið með þögninni. Hannes benti á, að kommúnisminn væri ekki fordæmdur eins skilyrðislaust og nasisminn, þótt til þess væri full ástæða: hungursneyðir af mannavöldum, fjöldamorð, nauðungarflutningar þjóðflokka, rekstur þrælabúða, ógnarstjórn og eymd.

Hannes, dr. Pawel Ukielski og dr. Łukasz Kamiński. Ljósm. Peter Rendek, Platform.

Hannes reifaði sex ráð til að rjúfa þögnina, lýsa upp skuggahlið tunglsins. Háskólar, sérstaklega félags- og hugvísindadeildir, hefðu verið herteknir af vinstri mönnum. Þess vegna þyrfti að búa frjálslyndum fræðimönnum athvarf og aðstöðu í sjálfstæðum stofnunum. Í annan stað yrði að tryggja, að nemendur í skólum fengju fræðslu um ódæði allra alræðissinna, ekki síður kommúnista en nasista. Ekki mætti til dæmis þegja um það, að Stalín hefði verið bandamaður Hitlers fyrstu tvö styrjaldarárin. Í þriðja lagi þyrfti að reisa minnismerki og reka söfn eins og hið merkilega safn í Varsjá um uppreisnina 1944. Í fjórða lagi ætti að ógilda alla þá opinberu viðurkenningu, sem valdsmenn úr röðum kommúnista hefðu víða hlotið. Myndastyttur af Bería væru jafnóeðlilegar og af Himmler, svo að ekki væri minnst á götunöfn og heiðursmerki. Í fimmta lagi þyrfti að halda reglulega ráðstefnur til að kynna forvitnilegar rannsóknir. Til dæmis hefði prófessor Frank Dikötter varpað ljósi á ógnarstjórn Maós í Kína í þremur stórfróðlegum bókum, og Svartbók kommúnismans hefði markað tímamót árið 1997.

Í sjötta lagi þyrfti að gera vönduð rit um alræðisstefnuna aðgengileg að nýju, jafnt á prenti og á Netinu, eins og Almenna bókafélagið á Íslandi beitti sér fyrir með Safni til sögu kommúnismans, en þegar hafa tíu rit verið endurprentuð í þeirri ritröð, þar á meðal Greinar um kommúnisma eftir Bertrand Russell, Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir Ants Oras og Ég kaus frelsið eftir Víktor Kravtsjenko. Hannes kvað þrjú slík rit koma út í vetur, Framtíð smáþjóðanna: Erindi á Íslandi og öðrum Norðurlöndum 1946–1948 eftir norska skáldið Arnulf Øverland, Guðinn sem brást eftir sex rithöfunda, þar á meðal Arthur Koestler, André Gide og Ignazio Silone, og Til varnar vestrænni menningu: Ræður sjö rithöfunda 1950–1958, en höfundar eru Tómas Guðmundsson, Gunnar Gunnarsson, Kristmann Guðmundsson, séra Sigurður Pálsson í Hraungerði, Guðmundur G. Hagalín, séra Sigurður Einarsson í Holti og Davíð Stefánsson frá Fagraskógi.

Glærur Hannesar í Ljubljana

Ráðstefnan í Ljubljana var haldin í þinghúsinu. Forseti Slóveníu, Borut Pahor, og forseti Slóveníuþings, Alojz Kovšca, fluttu þar ávörp, en meðal ráðstefnugesta voru Janez Janša, fyrrverandi forsætisráðherra Slóveníu, og sendiherrar Úkraínu og Póllands í Slóveníu. Á ársfundinum í Bled var prófessor Łukasz Kamiński frá Póllandi endurkjörinn forseti Evrópuvettvangsins, en með honum sitja í stjórn dr. Andreja Valič Zver frá Slóveníu, dr. Wolfgang-Christian Fuchs frá Þýskalandi, dr. Toomas Hiio frá Eistlandi og Zsolt Szilágyi frá Rúmeníu. Samþykkt var á fundinum að veita fimm samtökum aðild að vettvangnum, en í honum voru fyrir 57 samtök og stofnanir í 20 löndum. Peter Rendek var ráðinn framkvæmdastjóri í stað dr. Neelu Winkelmanns. Borgarstjórinn í Bled, Janez Fajfar, hélt kvöldverð fyrir ársfundargesti miðvikudagskvöldið 14. nóvember. Evrópuvettvangur um minningu og samvisku var stofnaður í Prag haustið 2011 að áeggjan Evrópuþingsins, sem samþykkt hafði ályktun um, að minnast yrði fórnarlamba alræðisstefnunnar í Evrópu, kommúnisma og nasisma. Þátttaka Hannesar í ráðstefnunni og ársfundinum var liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“.

Nokkrir ráðstefnugestir fyrir framan ráðhúsið í miðborg Ljubljana.

Comments Off

Ráðstefnurit um alræði, nauðungarflutninga og flóttamenn

Henný Goldstein Ottósson í íslenskum skautbúningi.

Evrópuvettvangur minningar og samvisku, Platform of European Memory and Conscience, gaf haustið 2018 út á bók erindi, sem flutt voru á ráðstefnu vettvangsins í Viljandi í Eistlandi 29. júní 2016 um alræði, nauðungarflutninga og flóttamenn, Totalitarianism, Deportation and Emigration. Var bókinni dreift á ársfundi vettvangsins í Bled í Slóveníu í nóvember 2018. Á meðal efnis er erindi rannsóknastjóra RNH, Hannesar H. Gissurarsonar, á ráðstefnunni. Það var um tvo Þjóðverja á Íslandi fyrir stríð, gyðingakonuna Henný Goldstein Ottósson og nasistann Bruno Kress, og hvernig saga þeirra fléttaðist saman á margvíslegan og óvæntan hátt.

Fyrir stríð höfðu Þjóðverjarnir tveir að vísu lítið hvort af öðru að segja, nema hvað heimildarmenn segja, að Kress hafi eins og flestir aðrir þýskir nasistar á Íslandi verið ónotalegur við þá gyðinga, sem hér voru landflótta. Ein óvænt tengsl voru síðan þau, að SS-sveitir Himmlers ráku „rannsóknarstofnunina“ Ahnenerbe, Arfleifðina, sem veitti Kress styrk til málfræðirannsókna, en annað rannsóknarefni stofnunarinnar var höfuðlag gyðinga, og var bróðir Hennýar tekinn til rannsóknar í Auschwitz, þar sem hann var fangi, en myrtur í Natzweiler-fangabúðunum. (Forstöðumaður Ahnenerbe var hengdur fyrir stríðsglæpi.) Fyrri eiginmaður Hennýar og barnsfaðir, Robert Goldstein, og mágkona hennar og bróðursonur voru myrt í Auschwitz.

Kress tekur við heiðursdoktorstitli á 75 ára afmæli Háskólans 1986.

Eftir stríð lágu leiðir þeirra Hennýar og Brunos Kress aftur saman vorið 1958. Þá var hann orðinn kommúnisti og bjó í Austur-Þýskalandi, en var boðinn í sextugsafmæli Brynjólfs Bjarnasonar í Skíðaskálanum í Hveradölum. Þar sá Henný hann og rak upp stór augu. Varð nokkur þytur af í veislunni, en málið var um hríð þaggað niður. Kress hafði þá nýlega orðið forstöðumaður Norrænu stofnunarinnar í Greifswald-háskóla, eftir að aðrir fræðimenn höfðu ekki treyst sér til að hlýða kommúnistastjórninni í einu og öllu og flúið yfir til Vestur-Þýskalands. Kress varð heiðursdoktor frá Háskóla Íslands á 75 ára afmælinu 1986. Ráðstefnuritið er tiltækt í Þjóðarbókhlöðunni.

Comments Off

Oleg Sentsov fær verðlaun Evrópuvettvangsins

Oleg Sentsov.

Kvikmyndagerðarmaðurinn Oleg Sentsov frá Úkraínu, sem situr í rússnesku fangelsi, hlaut verðlaun Evrópuvettvangs um minningu og samvisku árið 2018. Veitti sendiherra Úkraínu í Slóveníu, Mýkhaílo F. Brodovýtsj, verðlaununum viðtöku fyrir hönd Sentsovs við hátíðlega athöfn á alþjóðlegri ráðstefnu Evrópuvettvangsins í Ljubljana 14. nóvember, en hana sótti fulltrúi RNH, dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor. Verðlaunin eru veitt árlega einstaklingi, sem berst gegn alræðisstefnu og fyrir lýðræði og réttarríki. Sentsov fæddist í Símferopol á Krímskaga 1976 og nam hagfræði og kvikmyndagerð. Hafa ýmsar kvikmyndir hans unnið til verðlauna á alþjóðlegum vettvangi. Sentsov snerist gegn hertöku Krímskaga 2014, og handtók þá rússneska öryggislögreglan hann og pyndaði, og var hann dæmdur í 20 ára fangelsi. Brodovýtsj sendiherra sagðist taka við verðlaununum fyrir hönd Sentsovs og annarra þeirra áttatíu einstaklinga, sem sætu í rússneskum fangelsum vegna stuðnings við Úkraínu. Við athöfnina sagði Janez Janśa, fyrrverandi forsætisráðherra Slóveníu og leiðtogi Lýðræðisflokks landsins, að Úkraína væri fyrsta fórnarlamb átakanna eftir Kalda stríðið.

Frá v.: Alojz Kovšca, forseti slóvenska þingsins, dr. Łukasz Kaminski , forseti Evrópuvettvangsins, dr. Andreja Zver, Mýkhaílo F. Brodovýtsj sendiherra með verðlaunagripinn, Janez Janśa, fyrrv. forsætisráðherra Slóveníu. Ljósm. Peter Rendek, Platform.

 

Comments Off

Kappræður um sósíalisma

Ingvar Smári Birgisson, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, og Hreindís Ylva Garðarsdóttir, formaður Ungra vinstri grænna, eiga kappræður um sósíalisma föstudaginn 26. október kl. 18:30–20:30 í félagsheimili Framsóknarflokksins að Hverfisgötu 33. Fundarstjóri er Karítas Ríkharðsdóttir, gjaldkeri Sambands ungra framsóknarmanna.

RNH vekur athygli á þessum tímabæra viðburði, sem haldinn er á vegum Samtaka frjálslyndra framhaldsskólanema og studdur af Students for Liberty. Frá fórnarlömbum sósíalismans segir í ritinu Voices of the Victims eftir rannsóknastjóra RNH, dr. Hannes Hólmstein Gissurarson prófessor.

Eins og Marx og Engels hefðu átt að segja í Kommúnistaávarpinu:
ÖREIGAR ALLRA LANDA, FYRIRGEFIÐ!

Comments Off

800 manna stúdentaráðstefna í Pálsborg postula

Frá setningarfundi stúdentaráðstefnunnar í Maksoud Plaza gistihúsinu í Pálsborg postula.

Velgengni Norðurlanda er ekki að þakka jafnaðarstefnu, heldur viðskiptafrelsi, réttaröryggi og samheldni í krafti samleitni, sagði dr. Hannes H. Gissurarson, rannsóknastjóri RNH, á fjölmennri ráðstefnu frjálslyndra stúdenta í Brasilíu, Libertycon, 12.–13. október 1018 í Pálsborg postula, São Paulo. Á meðal annarra fyrirlesara voru brasilískir fræðimenn, prófessorarnir Adriano Gianturco og Bruno Garschagen, Bruno Bodart dómari og ýmsir brasilískir aðgerðasinnar. Erlendir fyrirlesarar auk Hannesar voru frá Atlas Network og Students for Liberty. Fernando Henrique Miranda, André Freo og fleiri brasilískir háskólastúdentar höfðu veg og vanda af skipulagningu ráðstefnunnar, sem tókst hið besta. Sóttu hana 800 manns, og var uppselt á hana.

Í fyrirlestri sínum minnti Hannes á, að sænsk-finnski presturinn Anders Chydenius hefði sett fram hugmyndina um „ósýnilega höndina“ á undan Adam Smith og að frjálshyggjuhefðir hefðu verið sterkar á Norðurlöndum á nítjándu öld, eins og ljóst mætti verða af stjórnarskránni, sem Norðmenn samþykktu á Eiðsvöllum 1814, en hún var frjálslyndasta stjórnarskrá síns tíma. Johan August Gripenstedt, einn áhrifamesti stjórnmálamaður Svía, var einnig eindreginn frjálshyggjumaður, aðdáandi Frédèrics Bastiats. Í ráðherratíð hans 1848–1866 mynduðust forsendur fyrir hinu samfellda hagvaxtarskeiði, sem stóð í Svíþjóð í heila öld frá 1870. Nutu jafnaðarmenn góðs af því, þegar þeir komust til valda á fjórða áratug 20. aldar. „Sænska leiðin“, sem fylgt hefði verið 1970–1990 og fólgin hefði verið í háum sköttum og útþenslu ríkisbáknsins, hefði þó reynst ófær, og hefðu Svíar verið síðan að fikra sig frá henni. Jafnvel á hinu fámenna Íslandi hefði verið til frjálshyggjuhefð, sem þeir Jón Sigurðsson, leiðtogi Íslands í sjálfstæðisbaráttunni, Arnljótur Ólafsson, höfundur fyrsta hagfræðiritsins á íslensku, og Jón Þorláksson, stofnandi og leiðtogi fjölmennasta íslenska stjórnmálaflokksins, hefðu mælt fyrir.

Glærur Hannesar í São Paulo

Hannes var spurður, hvaða ráð hann gæti gefið Brasilíumönnum. Hann svaraði því til, að svo virtist sem þrjár nornir stæðu yfir höfuðsvörðum þessarar sundurleitu, suðrænu stórþjóðar, ofbeldi, spilling og fátækt. Brasilíumenn þyrftu að reka þessar nornir á brott, einbeita sér að koma á lögum og reglu, meðal annars með því að herða refsingar fyrir ofbeldisglæpi, og þá myndi tækifærum fátæks fólks til að brjótast í bjargálnir snarfjölga. Aðkomumönnum yrði starsýnt á hina ójöfnu tekjudreifingu í landinu. Ef til vill hefði auður sumra Brasilíumanna skapast í krafti sérréttinda og óeðlilegrar aðstöðu ólíkt því, sem gerðist í frjálsari hagkerfum, en reynslan sýndi, að hinir fátæku yrðu ekki ríkari við það, að hinir ríku yrðu fátækari. Happadrýgst væri að mynda skilyrði til þess, að hinir fátæku gætu orðið ríkari, en með aukinni samkeppni, sérstaklega á fjármagnsmarkaði, myndu hinir ríku þurfa að hafa sig alla við að halda auði sínum. Eitt lögmál hins frjálsa markaðar væri, að flónið og fjármagnið yrðu fljótt viðskila. Skriffinnska stæði líka brasilískum smáfyrirtækjum fyrir þrifum. Þátttaka Hannesar í ráðstefnunni var liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Alliance of Conservatives and Reformists in Europe, um Ísland, Evrópu og hinn frjálsa markað. Í ráðstefnulok færði Hélio Beltrão, forstöðumaður Mises-stofnunarinnar í São Paulo, Hannesi að gjöf bókina História do liberalismo brasileiro (Sögu frjálshyggjunnar í Brasilíu) eftir heimspekinginn Antonio Paim.

Helstu skipuleggjendur ráðstefnunnar: Frá v. Jehan Piero Giuliani Dall’Asta, Ivanildo Santos Terceiro, Fernando Henrique Miranda, Nycollas Liberato og André Freo.
Comments Off

Þing Mont Pèlerin samtakanna á Stóru hundaeyju

Prófessor Pedro Schwartz frá Spáni flytur ræðu um lýðræði.

Tveir Íslendingar sóttu aðalfund Mont Pèlerin samtakanna á Stóru hundaeyju (Gran Canarias) dagana 30. september til 5. október, dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, rannsóknastjóri RNH, og Gísli Hauksson fjárfestir, formaður stjórnar RNH. Mont Pèlerin samtökin voru stofnuð í Sviss 1947 til að gera frjálslyndum fræðimönnum og öðrum áhugamönnum um frelsið kleift að bera reglulega saman bækur sínar í heimi, sem þá virtist sífellt þrengja meira að frelsinu. Á meðal stofnenda voru hagfræðingarnir Friedrich A. von Hayek, Milton Friedman, George Stigler og Maurice Allais, sem allir áttu eftir að fá Nóbelsverðlaun í hagfræði, og heimspekingarnir Karl R. Popper og Bertrand de Jouvenel. Margir fyrirlesaranna á þinginu að þessu sinni hafa komið til Íslands og haldið fyrirlestra á vegum RNH, þar á meðal Philip Booth, Eamonn Butler, Nils Karlson og Matt Ridley. Sá prófessor Gabriel Calzada Álvarez í Fransisco Marroquin-háskóla í Guatamala um að skipuleggja ráðstefnuna, og fórst honum það vel úr hendi.

John Taylor, forseti samtakanna 2018–2020.

Margt var á dagskrá, þar á meðal þróunarkenningin í félagsvísindum, hagvöxtur í fátækum löndum, fjármálakerfi heimsins eftir fjármálakreppuna 2007–2009, samkeppni um íbúa milli svæða, menningarlegar forsendur frjálsra ríkja, framtíð borga, starfsemi frumkvöðla, hagsveiflur, Netið og óvinir þess, samskipti Hayeks og landa hans og kennara, Ludwigs von Mises, réttmæti (eða óréttmæti) ríkisvalds, einkalausnir í framleiðslu samgæða, aðskilnaðarhreyfingar og sjálfstæði ríkja, stjórnmálabarátta frjálshyggjufólks og tengsl Salamanca-skólans í hagfræði og skosku upplýsingarmannanna. Var meðal annars rifjuð upp saga af stofnþinginu, þegar Mises gekk út af einni málstofunni og sagði, um leið og hann skellti á eftir sér: „Þið eruð ein stór sósíalistahjörð!“ Hafði einn fundarmanna, Frank H. Knight, ljáð máls á 100% erfðaskatti. Eitt kvöldið á þinginu spjölluðu þeir Matt Ridley og frumkvöðullinn og fjárfestirinn Peter Thiel saman um ástand og horfur í heimsmálum. Mont Pèlerin samtökin eru ekkert leynifélag, en ekki er þó ætlast til þess, að þátttakendur skýri opinberlega frá því, sem aðrir á þinginu segja, svo að umræður geti verið hreinskilnislegar.

Hannes H. Gissurarson sat í stjórn samtakanna 1998–2004 og skipulagði svæðisþing þeirra í Reykjavík 2005. Hann talaði tvisvar á þinginu. Í annað skiptið var það á morgunverðarfundi um frjálshyggju í Rómönsku Ameríku. Kvað hann þá skoðun algenga, að ríki Rómönsku Ameríku yrðu að fara „norrænu leiðina“, sem fæli í sér víðtæk ríkisafskipti, háa skatta og rausnarleg velferðarréttindi. Þetta væri misskilningur. Norðurlönd byggju ekki við velmegun og öryggi vegna endurdreifingar skatta, heldur þrátt fyrir hana. Skýringin á velgengni þeirra lægi í réttaröryggi, frjálsum alþjóðaviðskiptum og ríkri samkennd, sem ætti sér rót í rótgrónum siðvenjum og samleitni. Hannes vitnaði í skýrslu sína fyrir New Direction um Norrænu leiðirnar máli sínu til stuðnings.

Daniel Hannan flytur ræðu á þinginu.

Í hitt skiptið talaði Hannes í umræðum um aðskilnaðarhreyfingar og sjálfstæði ríkja. Tók hann undir það með framsögumönnum, Jesus Huerta de Soto frá Spáni og Daniel Hannan frá Stóra Bretlandi, að til væri frjálslynd þjóðernisstefna. Hefðu margir stjórnmálamenn á nítjándu öld fylgt slíkri stefnu og mörg þjóðríki verið stofnuð, til dæmis á Norðurlöndum. En þjóðerniskennd þyrfti að vera sjálfsprottin, eins og Ernest Renan hefði lýst, þegar hann sagði, að þjóð yrði til í daglegri atkvæðagreiðslu einstaklinganna. Og til þess að menn elskuðu land sitt, þyrfti það að vera elskulegt. Aðskilnaður Noregs og Svíþjóðar 1905, Íslands og Danmerkur 1918 og Eystrasaltsríkjanna og Rússland, eftir að Ráðstjórnarríkin liðu undir lok, hefði verið æskilegur. Hannes varpaði fram þeirri spurningu, hvort fyrirkomulagið á Álandseyjum og í Suður-Týrol gæti ekki orðið fyrirmynd að einhvers konar málamiðlun í deilu Skota og Englendinga og Katalóníumanna og Spánverja. Í upphafi hefðu íbúar þessara svæða alls ekki viljað vera borgarar í Finnlandi annars vegar og á Ítalíu hins vegar, en nú væri allt fallið í ljúfa löð, því að þeir hefðu forræði eigin mála.

Á þinginu á Stóru hundaeyju var John Taylor, hagfræðiprófessor í Stanford-háskóla og einn kunnasti peningamálasérfræðingur heims (en við hann er Taylor-reglan fyrir seðlabanka kennd), kjörinn forseti samtakanna til næstu tveggja ára. Íslendingarnir tveir fóru eitt kvöldið á veitingahús með öðrum Norðurlandabúum, sem þingið sóttu, og skröfuðu saman um norræna frjálshyggju.

Norðurlandabúarnir saman þriðjudagskvöldið 2. október 2018 á veitingastaðnum Gaudi. Frá v. dr. Hannes H. Gissurarson, dr. Nils Karlson, dr. Carl-Johan Westholm, Gísli Hauksson, Lars-Peder Nordbakken og Håkan Gergils.

Comments Off