Frjáls markaður á ferð

Dwight Lee, Federico Fernandez og John Fund (í ræðustól).

Samtök frjálslyndra framhaldsskólanema undir forystu Ísaks Hallmundssonar, RNH og Austrian Economics Center í Vínarborg, sem dr. Barbara Kolm veitir forstöðu, héldu fjölsótt málþing um frjálsan markað, „Free Market Road Show,“ í Háskólanum í Reykjavík laugardaginn 1. apríl 2017. John Fund frá National Review og Fox News talaði um hina nýju lýðstefnu (populism). Hún væri eins konar útrás óánægðs fólks, sem teldi kjörna fulltrúa sína ganga erinda alþjóðlegrar menntamanna- og skriffinnaklíku frekar en eigin þjóðar. Fund lagði áherslu á hinar öru framfarir, sem orðið hefðu í krafti frjálsra viðskipta. Í umræðum eftir ræðu Funds kvað prófessor Hannes H. Gissurarson íhalds- og frjálshyggjumenn alls ekki mega hverfa frá frjálsum alþjóðaviðskiptum, en beina óánægju alþýðufólks heldur að hinni alþjóðlegu klíku, sem sæti yfir hlut skattgreiðenda og neytenda og tekið hefði sér bólfestu í ábyrgðarlausum báknum, alþjóðastofnunum, háskólum og mörgum  fjölmiðlum.

Álvarez.

Federico Fernandez frá Austrian Economics Center lýsti deilihagkerfinu, þar á meðal airbnb gistingu og Uber akstri. Taldi hann hvort tveggja hagkvæmt og æskilegt. Prófessor Dwight R. Lee frá Georgíu-háskóla í Atlanta minnti á, að ríkisafskipti næðu sjaldnast tilgangi sínum. Einn aðalkosturinn á frjálsum markaði væri, að menn hættu þar mistökum, af því að þeir töpuðu á þeim, en í opinberum stofnunum héldu þeir þeim áfram, af því að þau væru styrkt af almannafé. Gordon Kerr, fjármálaráðgjafi í Lundúnum, gerði að umtalsefni ýmsa veikleika á hinu alþjóðlega peningakerfi. Gloria Álvarez frá Guatemala gagnrýndi lýðstefnu í Rómönsku Ameríku, ekki síst undir forystu Castro-bræðra á Kúbu og Hugos Chávez í Venesúela.

Guðlaugur Þór talar. Álvarez t. v. (hálffalin), Björn Jón og Kerr t. h.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra flutti lokaávarp þingsins. Vísaði hann því á bug, að kjör Trumps forseta og úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi um úrsögn úr Evrópusambandinu væri sambærilegt. Trump vildi ekki frjáls alþjóðaviðskipti, en helstu stuðningsmenn úrsagnarinnar úr ESB væru einmitt fylgismenn slíkra viðskipta. Íslendingar ættu að stunda frjáls viðskipti, en ekki ganga í önnur bandalög en þau, sem þeir hefðu hag af, eins og Atlantshafsbandalagið. Engin merki væru um, að Bandaríkjamenn væru að breyta um utanríkisstefnu. Auk Ísaks Hallmundssonar hafði Magnús Örn Gunnarsson veg og vanda af þinginu, en Björn Jón Bragason stjórnaði umræðum, sem voru fjörugar. Bárust ræðumönnum margar spurningar. Sjónvarpið ræddi við John Fund um stjórnmálaviðhorfið í Bandaríkjunum og Viðskiptablaðið við Gloriu Álvarez um ástandið í Rómönsku Ameríku. Um kvöldið hittust ráðstefnugestir, þar á meðal ræðumenn, á Petersen vínstúkunni á efstu hæð Gamla bíós.

Þátttaka RNH í þinginu var liður í samstarfsverkefni þess og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Comments Off

Heimurinn eftir Brexit og Trump

RNH, Samtök frjálslyndra framhaldsskólanema og Austrian Economics Center í Vínarborg efna til fundar í Háskólanum í Reykjavík laugardaginn 1. apríl kl. 11–13:30 um „Heiminn eftir Brexit og Trump“. Fundurinn er þáttur í „Free Market Road Show“ eða Frjálsum markaði á ferðinni, sem Austrian Economics Center skipuleggur víða um heim. Dagskráin hljóðar svo:

11:00 Opnun

11:20 A Major Economic Reconfiguration: The End of the Free Trade Area?

Ræðumenn: John Fund frá National Review, áður Wall Street Journal, og prófessor Dwight R. Lee

12:20 Hádegisverður

13:30 Troubled Times in a Divided World

Ræðumenn: Gloria Álvarez, aðgerðasinni í Rómönsku Ameríku, og Gordon Kerr, fjármálaráðgjafi í Lundúnum

14:30 Kaffihlé

15:00 Ávarp: Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra

Frá kl. 21:30 um kvöldið verður samkoma í Petersen svítunni (efstu hæð Gamla bíós). Þátttaka RNH í fundinum er liður í samstarfsverkefni þess og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir, ungir og gamlir, frjálslyndir og forvitnir. Bækur frá hugveitunni IEA í Lundúnum og Almenna bókafélaginu verða á boðstólum við vægu verði eða engu eftir atvikum og áhuga.

Hér útskýrir Gloria Álvarez, hvers vegna sósíalismi hentar ekki alþýðu manna:

Hér talar John Fund um bandarísk stjórnmál:

Comments Off

Ásgeir og Hersir: Endurreisn Íslands

Ásgeir flytur framsögu. Ljósm. Kristinn Ingvarsson.

Fjármálasérfræðingarnir Ásgeir Jónsson og Hersir Sigurgeirsson, dósentar í Háskóla Íslands, kynntu helstu niðurstöður nýrrar bókar sinnar, The Icelandic Financial Crisis: A Study Into the World’s Smallest Currency Area, á ráðstefnu í Háskóla Íslands 1. mars 2017. Á meðal þess, sem kemur fram í bókinni, er þetta:

  • Með neyðarlögunum 6. október 2008, sem sett voru í tíð samsteypustjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, en að frumkvæði Seðlabankans, valdi Ísland þá leið að „þjóðnýta“ ekki tapið af bankahruninu, með öðrum orðum að leggja það ekki á herðar skattgreiðenda. Eigendur hlutafjár í bönkunum töpuðu því öllu, og skuldabréfaeigendur töpuðu verulegum hluta krafna sinna, en innstæðueigendur töpuðu engu.
  • Að lokum tapaði íslenska ríkið engu heldur, heldur græddi nokkuð á bankahruninu. Ástæðan var sú, að það var vegna gjaldeyrishaftanna, sem sett voru á í upphafi bankahrunsins, í sterkri samningsaðstöðu gagnvart kröfuhöfum bankanna (aðallega vogunarsjóðum), sem voru reiðubúnir að sætta sig við afslátt á kröfum sínum gegn því að fá þær greiddar í erlendri mynt. Mið-hægri-stjórnin, sem tók við völdum 2013, taldi eðlilegt, að bankarnir (eða bú þeirra) tækju á sig þann kostnað, sem þeir hefðu valdið þjóðinni.
  • Með því að veita innstæðueigendum forgang í bú föllnu bankanna samkvæmt neyðarlögunum voru um €10 milljarðar færðir frá öðrum kröfueigendum til þeirra. Innstæðueigendur voru ekki síst bjargálna Bretar, en margir kröfuhafar í upphafi þýskir bankar. Erlendis var sá misskilningur algengur, að Íslendingar hefðu mismunað innlendum og erlendum sparifjáreigendum, en í rauninni var sparifjáreigendum annars vegar og öðrum kröfuhöfum hins vegar mismunað.
  • Horfur voru mjög ískyggilegar í upphafi bankahrunsins. Skuldir hins opinbera jukust um 70% af vergri landsframleiðslu, VLF, vegna þess, og var það meira en í nokkru öðru Evrópulandi að Írlandi undanteknu. Ísland var víða, en með röngu, talið gjaldþrota.
  • Eftir að ríkisstjórnir Stóra Bretlands og Hollands höfðu einhliða ákveðið að greiða út innstæður í útbúum Landsbankans í þessum tveimur löndum, kröfðust þær þess, að íslenska ríkið endurgreiddi þeim „lánin“ með vöxtum. Þetta hefði verið fjárskuldbinding um €4 milljarða eða nær helmingur vergrar landsframleiðslu á ári. Bú Landsbankans gat þó að lokum greitt öllum innstæðueigendum. Kröfugerð Breta og Hollendinga á hendur Íslendingum olli harðri milliríkjadeilu, en henni var hafnað með úrskurði EFTA-dómstólsins í málinu.
  • Helsti kostnaður íslenska ríkisins af bankahruninu var vegna taps Seðlabankans á lánum til viðskiptabankanna, en það nam um €2 milljörðum. Af því voru €1,7 milljarður vegna lána gegn ótryggðum skuldabréfum og €245 milljónir vegna neyðarláns til Kaupþings með veði í FIH banka í Danmörku. Einnig var mikið tap af sparisjóðnum í Keflavík, um €140 milljónir. Þótt þeir Ásgeir og Hersir sneiði hjá dómum um stjórnmálamenn, hefði þetta tap getað orðið miklu minna, ef Már Guðmundsson seðlabankastjóri hefði ekki selt FIH banka með lökum kjörum og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra ekki tekið sparisjóðinn í Keflavík upp á arma sína.
  • Þrátt fyrir að Ísland hafi sloppið tiltölulega vel frá bankahruninu, er ekki víst, að önnur lönd geti fetað í fótspor þess. Hinar sérstöku aðstæður á Íslandi auðvelduðu hina tvíþættu leið út úr vandanum, annars vegar að reisa skjaldborg utan um innlenda hluta bankakerfisins og gera upp erlenda hlutann, hins vegar að færa tapið frá sparifjáreigendum til skuldabréfaeigenda, sem flestir voru erlendir.
  • Hröð endurreisn Íslands ætti ekki að vera undrunarefni, því að hagkerfið er í eðli sínu traust. Það var reist á arðbærum fiskveiðum, ríkulegum orkulindum og verulegum mannauð, en til viðbótar kom eftir hrunið óvæntur ferðamannastraumur. Eignir bankanna reyndust líka vera meiri en gert hafði verið ráð fyrir.

Kristrún talar við þá Ásgeir, Hersi og Sigurð. Ljósm. Kristinn Ingvarsson.

Í pallborði eftir framsögur þeirra Ásgeirs Jónssonar og Hersis Sigurgeirssonar voru auk þeirra dr. Sigurður Hannesson, ráðgjafi stjórnvalda um uppgjör við kröfuhafa, Kristrún Heimisdóttir, aðstoðarmaður utanríkisráðherra í bankahruninu (Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur frá Samfylkingunni) og Jóhannes Rúnar Sveinsson, lögfræðiráðgjafi stjórnvalda um bankahrunið. Kristrún harmaði þá staðreynd, að Íslendingar skyldu ekki snúa bökum saman í bankahruninu eins og Danir gerðu til dæmis. Þess í stað notfærðu sumir stjórnmálamenn það til að gera upp gamlar sakir. Kristrún kvað Íslendinga verða að endurmeta utanríkisstefnu sína í ljósi þess, hversu fáa vini þeir ættu í raun. Bandaríkjamenn væru ekki sami trausti bakhjarlinn og í Kalda stríðinu, eins og vel hefði komið í ljós, þegar þeir gerðu gjaldeyrisskiptasamninga við skandinavísku bankana þrjá, en ekki við hinn íslenska. Þessir samningar hefðu gert seðlabönkunum kleift að bjarga ýmsum innlendum bönkum frá falli.

Comments Off

Ný bók: Hrun og endurreisn

Bókarhöfundar, Hersir og Ásgeir. Ljósm. Visir/Vilhelm

Tveir sérfræðingar í fjármálafræðum, dr. Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræðideild Háskóla Íslands, og dr. Hersir Sigurgeirsson, dósent í viðskiptafræðideild skólans, hafa gefið út bók um eftirleik íslenska bankahrunsins 2008, The Icelandic Financial Crisis: A Study Into the World’s Smallest Currency Area, hjá Palgrave Macmillan í New York. Af því tilefni er útgáfuráðstefna í Háskóla Íslands miðvikudaginn 1. mars kl. 16–18 í Hátíðasal, þar sem höfundarnir tveir flytja ávörp, en síðan eru pallborðsumræður, og í þeim taka þátt Jóhannes Karl Sveinsson, lögfræðilegur ráðgjafi stjórnvalda í uppgjöri eftir bankahrunið, Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstöðumaður Fjármálaeftirlitsins, dr. Sigurður Hannesson, stærðfræðingur og ráðgjafi stjórnvalda um losun fjármagnshafta, og Kristrún Heimisdóttir, fyrrverandi aðstoðarmaður utanríkisráðherra. Fundarstjóri er dr. Ólafur Þ. Harðarson prófessor.

RNH vekur sérstaka athygli á útgáfuráðstefnunni og bókinni, sem er hin forvitnilegasta. Þeir Ásgeir og Hersir greina sérstöðu íslenska peningakerfisins í bankahruninu, þar sem seðlabankinn gat ekki leyst lausafjárvanda bankanna með seðlaprentun eins og seðlabankar annarra þjóða, því að vandinn var í erlendum gjaldmiðlum, sem ekki fékkst aðgangur að. Einnig rekja þeir, hvernig stjórnvöld í krafti neyðarréttar settu neyðarlögin 6. október 2008 til að koma í veg fyrir, að áfallið af hruni bankanna lenti af fullum krafti á herðum venjulegra borgara, og hversu harkalega breska Verkamannaflokksstjórnin brást við. Þá lýsa þeir hinni hröðu endurreisn íslenska hagkerfisins síðustu árin, þar á meðal samningum við kröfuhafa. Höfundarnir telja, að margt megi læra af íslenska bankahruninu og endurreisn hagkerfisins.

Comments Off

Rafræn fræðirit um atvinnufrelsi og einkaframtak

RNH hefur tekið að sér það verkefni að setja ýmis fræðirit, sem varða atvinnufrelsi og einkaframtak og iðulega eru illfáanleg, á Netið, svo að þau verði aðgengileg öllum. Meðal samstarfsaðila í þessu verkefni eru Atlas Network og ACRE, Alliance of Conservatives and Reformists in Europe. Nú þegar eru fimm slík rit komin á Netið á svæðinu Google Books, og má nálgast þau með því að smella á nöfn ritanna:

  • Individual Transferable Quotas in Theory and Practice, sem kom út 1999, en einn höfundur þess er prófessor Anthony Scott, sem er einn virtasti hagfræðingur heims og lagði ásamt H. Scott Gordon hornstein að fiskihagfræðinni. Lýst er eðli og þróun fyrirkomulags fiskveiða á Nýja Sjálandi og Íslandi. Prófessorarnir Ragnar Árnason og Hannes H. Gissurarson ritstýrðu bókinni.
  • Cutting Taxes to Increase Prosperity, sem kom út 2007 og var þáttur í verkefni fyrir fjármálaráðuneytið um skatta og velferð, sem prófessor Hannes H. Gissurarson sá um. Þar skrifuðu ýmsir kunnir hagfræðingar, þar á meðal Edward C. Prescott, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, og prófessorarnir Pascal Salin, Brendan Walsh og Ragnar Árnason. Dr. Tryggvi Þór Herbertsson og Hannes H. Gissurarson ritstýrðu bókinni.
  • Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, sem kom út 2009 og var þáttur í verkefni fyrir fjármálaráðuneytið um skatta og ve lferð, sem prófessor Hannes H. Gissurarson sá um. Þar ræðir Hannes kenningar um velferðarríkið, ályktanir af mælingum á atvinnufrelsi og áhrif skatta á hagsæld og farsæld.
  • Tekjudreifing og skattar, sem kom út 2014, en þar skrifa ýmsir sérfræðingar um þau efni, þar á meðal prófessor Ragnar Árnason, dr. Helgi Tómasson tölfræðingur og dr. Axel Hall hagfræðingur. Þeir Ragnar og Birgir Þór Runólfsson ritstýrðu bókinni.
  • The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable, sem kom út 2015, en þar skrifar prófessor Hannes H. Gissurarson um fyrirkomulag fiskveiða við Ísland, en þær eru í senn sjálfbærar og arðbærar, ólíkt því sem gerist með ýmsum öðrum þjóðum.
Comments Off

Bók um tekjudreifingu og skatta á Netinu

RNH og AB (Almenna bókafélagið) hafa hafið endurútgáfu ýmissa rita, sem varða einstaklingsfrelsi og atvinnufrelsi, á Netinu í samstarfi við Atlas Network og ACRE, Evrópusamtök íhaldsmanna og umbótasinna. Í ársbyrjun 2016 kom út bókin The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable eftir Hannes H. Gissurarson stjórnmálafræðiprófessor, rannsóknastjóra RNH. Í janúar 2017 kom út eftir Hannes bókin Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör. Í febrúar 2017 kom út greinasafn frá 2014, Tekjudreifing og skattar, sem þeir Ragnar Árnason hagfræðiprófessor og Birgir Þór Runólfsson hagfræðidósent ritstýra. Aðrir höfundar eru Arnaldur Sölvi Kristjánsson hagfræðingur, Axel Hall hagfræðingur, Hannes H. Gissurarson og Helgi Tómasson tölfræðidósent. Höfundar ræða um vandkvæðin á að mæla tekjudreifingu (til dæmis með svonefndum Gini-stuðlum) og skilgreina fátækt skynsamlega. Til dæmis kann lengri meðalaldur, lægri lífeyrisaldur og lengri skólaganga allt að valda því, að  tekjudreifing mælist ójafnari og hlutfallsleg fátækt meiri. Hvað sem því líður, reynist fátækt, jafnt töluleg (absolute) og tiltöluleg (relative) samkvæmt mælingum vera svipuð á Íslandi og á öðrum Norðurlöndum (þar sem hún er einna minnst í heimi) og tekjudreifing í svipuðu horfi líka. Ragnar Árnason vekur athygli á, að reikna verði út hreinan tekjuskatt (greiðslur að frádreginni opinberri þjónustu og bótum), en hann sé miklu fremur stighækkandi á Íslandi en hinn vergi. Birgir Þór Runólfsson ræðir hinar afdráttarlausu niðurstöður, þegar atvinnufrelsi er borið saman í ýmsum löndum: Allir, jafnt ríkir sem fátækir, eru betur komnir í hinum frjálsu hagkerfum. Nokkrir höfunda benda á, þar eð bætur séu tekjutengdar á Íslandi, að þá verði til skattagildrur, þar sem ekki borgi sig fyrir einstaklinga að auka við sig vinnu, því að þá missi þeir bætur. Þessar gildrur þurfi að fjarlægja án þess að greiða þeim bætur, sem þurfi ekki á þeim að halda.

Comments Off