Tvær úthlutunarreglur: Aflareynsla eða uppboð?

RNH stendur ásamt öðrum að ráðstefnu í fundarsal Þjóðminjasafnsins mánudaginn 29. ágúst kl. 14 til 17 um efni, sem mjög er rætt um á Íslandi þessa dagana: Tvær ólíkar leiðir til að úthluta aflaheimildum, aflareynslu (og síðan frjálsum viðskiptum með aflaheimildirnar) annars vegar og uppboði á vegum ríkisins hins vegar. Gary Libecap, prófessor í hagfræði í Kaliforníuháskóla í Santa Barbara, flytur fyrirlestur um „Úthlutun aflaheimilda“. Þar leitast hann við að svara þeirri spurningu, hvers konar fyrirkomulag fiskveiða sé þjóðhagslega hagkvæmast, þegar til langs tíma sé litið. Hann ber saman úthlutun eftir aflareynslu (grandfathering), sem hefur verið langalgengasta aðferðin, og úthlutun á reglubundnu opinberu uppboði, sem talsvert hefur verið rætt um á Íslandi og fáeinar tilraunir hafa verið gerðar með annars staðar. Í því sambandi ræðir hann líka um reynsluna af nýtingu annarra auðlinda en fiskistofna, til dæmis olíulinda og bújarða. Libecap er einn þekktasti auðlindahagfræðingur heims og hefur gefið út fjölda bóka um auðlindanýtingu og birt ritgerðir í American Economic Review, Journal of Political Economy og öðrum vísindatímaritum. Hann hefur verið forseti Economic History Association, Western Economics Association International og International Society for the New Institutional Economics.

Ragnar Árnason, prófessor í fiskihagfræði í Háskóla Íslands, flytur fyrirlestur um „Skattlagningu sjávarútvegs og skilvirkni“. Hann andmælir þremur villum, sem oft eru á kreiki í umræðum um fiskveiðimál: 1) að auðlindarentan þar fáist aðeins af auðlindinni einni saman, en sé ekki sköpuð að neinu leyti af útgerðarfyrirtækjunum; 2) að handhafar aflaheimilda njóti einir auðlindarentunnar í sjávarútvegi; og 3) að auðlindaskattur, hvort sem hann sé innheimtur beint eða á reglubundnum opinberum uppboðum á aflaheimildum, hafi engin áhrif á stærð auðlindarentunnar. Ragnar hefur birt fjölda bóka og ritgerða um auðlindahagfræði og hefur sinnt sérfræðilegri ráðgjöf um víða veröld á sviði fiskveiðimála fyrir Alþjóðabankann og aðrar alþjóðastofnanir.

Að loknum fyrirlestrunum verða pallborðsumræður, sem dr. Birgir Þór Runólfsson, dósent í hagfræði, stjórnar. Í þeim taka þátt fjórir menn: Dr. Tryggvi Þór Herbertsson, fyrrverandi forstöðumaður Hagfræðistofnunar og fyrrverandi alþingismaður, hefur sinnt stefnumörkun og rannsóknum á sviði sjávarútvegs. Helgi Áss Grétarsson, dósent í lögfræði, hefur að sérgrein auðlindarétt og hefur birt fjölda bóka og ritgerða um fiskveiðimál, meðal annars Þjóðina og kvótann hjá Bókaútgáfunni Codex 2011. Charles Plott, prófessor í California Institute of Technology, er heimskunnur hagfræðingur, sérfræðingur í tilraunahagfræði og hefur sérstaklega skoðað ýmiss konar uppboð. Hannes H. Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, hefur skrifað um siðferðileg sjónarmið við úthlutun afnotaréttinda af auðlindum, síðast í bókinni The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable, sem kom út hjá Háskólaútgáfunni í árslok 2015 og er líka aðgengileg á Netinu. Þátttaka RNH í ráðstefnunni er liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Comments Off

Samkoma vegna Eystrasaltsbóka

Davíð Oddsson talar í Ráðherrabústaðnum að kvöldi 26. ágúst 1991. Aðrir frá v.: Algirdas Saudargas, Lennart Meri og Friðrik Sophusson.

Almenna bókafélagið býður ásamt ræðismönnum Eystrasaltsríkjanna þriggja á Íslandi til samkomu og útgáfuhófs föstudaginn 26. ágúst 2016 kl. 17–19 í Litlatorgi í Háskóla Íslands. Þann dag eru endurútgefnar tvær bækur um sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna, sem komu út á íslensku á sínum tíma: Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum (Baltic Eclipse) eftir Ants Oras frá 1955 í þýðingu séra Sigurðar Einarssonar í Holti og Eistland: Smáþjóð undir oki erlends valds (Estland: En studie i imperialism) eftir Andres Küng frá 1973 í þýðingu Davíðs Oddssonar, þá laganema. Tilefni endurútgáfunnar er, að fyrir réttum aldarfjórðungi, 26. ágúst 1991, endurnýjaði Ísland fyrst ríkja viðurkenningu sína á Eystrasaltslöndunum við hátíðlega athöfn í Höfða að viðstöddum utanríkisráðherrum Eystrasaltsríkjanna þriggja og Íslands, Lennart Meri frá Eistlandi, Janis Jürkans frá Lettlandi og Saudargas Algirdas frá Litáen og Jóni Baldvini Hannibalssyni, sem hafði ásamt Davíð Oddsyni forsætisráðherra beitt sér mjög í málinu. Þá um kvöldið sátu utanríkisráðherrarnir boð Davíðs í Ráðherrabústaðnum. Fyrirhuguð er einnig ráðstefna á vegum utanríkisráðuneytisins í september til að minnast þessara tímamóta, og styður RNH það framtak eftir föngum. Eystrasaltsríkin voru öll hernumin af Ráðstjórnarríkjunum 1940 og gerð að ráðstjórnarlýðveldum, en endurheimtu sjálfstæði sitt 1991, eftir að valdarán harðlínukommúnista í Rússlandi misheppnaðist og Ráðstjórnarríkin hrundu.

Tunne Kelam Evrópuþingmaður

Í útgáfuhófinu flytja Davíð Oddsson ritstjóri og Tunne Kelam, þingmaður á Evrópuþinginu, stutt ávörp. Davíð mun segja söguna að baki viðurkenningarinnar á Eystrasaltsríkjunum, en líka frá stuðningi Íslands á bak við tjöldin innan Atlantshafsbandalagsins við aðild Eystrasaltsríkjanna að bandalaginu, á meðan hann var forsætisráðherra 1991–2004. Tunne Kelam er sagnfræðingur að mennt og missti skjalavarðarstöðu sína á hernámstímanum í Eistlandi vegna andófs við kommúnistastjórnina þar. Var hann settur í erfiðisvinnu að næturlagi á ríkisreknu hænsnabúi. Hann gerðist einn af leiðtogum sjálfstæðisbaráttu Eistlendinga og var forseti þjóðþings, sem kosið var til 1990 án fulltingis hernámsyfirvaldanna og eistneskra erindreka þeirra. Náðist þó samkomulag um það ári síðar við hið svokallaða Æðsta ráð, sem rússnesk hernámsyfirvöld höfðu skipað 1940, hvernig sjálfstæði landsins yrði endurheimt í áföngum. Kelam sat á stjórnlagaþingi Eistlands 1991–1992 og var kjörinn þingmaður á þjóðþinginu, Riigikogu, 1992 og sat þar til 2004, þegar hann var kjörinn á Evrópuþingið fyrir eistneska Föðurlandsflokkinn. Hann var varaforseti þjóðþingsins 1992–2003 og formaður Evrópunefndar þess 1997–2003. Hann hefur skrifað nokkrar bækur á móðurmáli sínu um Eistland og Evrópu.

Sandra Vokk

Sandra Vokk, forstöðumaður Unitas í Eistlandi, stjórnar samkomunni. Unitas var stofnuð af Mart Laar, fyrrverandi forsætisráðherra Eistlands, og fleirum árið 2008 til að verja vestræna mannúðarstefnu gegn alræði í orði og verki. Bækurnar tvær eftir Oras og Küng um sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltslandanna eru í ritröðinni „Safn til sögu kommúnismans“, sem Almenna bókafélagið gefur út undir ritstjórn prófessors Hannesar H. Gissurarsonar. Áður hafa komið út í þessari ritröð Greinar um kommúnisma eftir breska heimspekinginn Bertrand Russell 17. júní 2015, Konur í þrælakistum Stalíns eftir Elinor Lipper og Aino Kuusinen 19. júní 2015, Úr álögum eftir Jan Valtin (réttu nafni Richard Krebs) 23. ágúst 2015 og Leyniræðan um Stalín eftir Níkíta Khrústsjov 25. febrúar 2016. Prófessor Hannes skrifar formála og skýringar í öllum ritunum, sem eru líka gefin út á Netinu, og er aðgangur að þeim þar endurgjaldslaus.

Ókeypis aðgangur er að samkomunni og allir velkomnir. Ofannefndar bækur og nokkur önnur útgáfuverk Almenna bókafélagsins verða þar til sölu við vægu verði.  Ritröðin er liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“. Hún nýtur einnig stuðnings Atlas Network og IDDE, Samtaka um beint lýðræði í Evrópu. RNH er aðili að Evrópuvettvangi minningar og samvisku, sem heldur á lofti minningunni um fórnarlömb alræðisstefnunnar.

Comments Off

AB fær frelsisverðlaun

Jón Þorláksson forsætisráðherra horfir með velþóknun á verðlaunahafana og formann SUS í Valhöll 21. ágúst 2016.

Almenna bókafélagið, sem starfar með RNH, fékk árið 2016 frelsisverðlaun Kjartans Gunnarssonar, sem Samband ungra sjálfstæðismanna veitir og kennir við Kjartan Gunnarsson, lögfræðing og fyrrverandi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, sem hefur löngum verið einn ötulasti baráttumaðurinn fyrir frelsi á Íslandi. Jónas Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri Almenna bókafélagsins, tók við verðlaununum 21. júlí úr hendi Laufeyjar Rúnar Ketilsdóttur, formanns SUS. Verðlaunin eru veitt einum lögaðila og einum einstaklingi árlega. Sigríður Á. Andersen alþingismaður hlaut verðlaun sem einstaklingur, en hún hefur verið öðrum djarfari við að halda uppi merki einstaklingsfrelsisins á þingi.

Jónas sagði í ræðu sinni við afhendinguna, að einn helsti vandi íslenskra bókaútgefenda væri, að ólíkt öðrum löndum hefði ríkið lagt undir sig allt að fjórðungi bókaútgáfunnar. Það gæfi út námsbækur í skólum, en það tíðkaðist óvíða annars staðar. Það stundaði líka umfangsmikla hljóðbókaútgáfu endurgjaldslaust, en við það yrðu bókaútgefendur af miklum tekjum. Sigríður tók í sama streng í ræðu sinni. Hún kvað frelsið krefjast jafnræðis í samkeppni, en stundum nytu einstakir aðilar óeðlilegrar fyrirgreiðslu eða ívilnana frá hinu opinbera.

Almenna bókafélagið hefur síðustu árin gefið út margar bækur til varnar frelsinu og gegn alræði nasista og kommúnista. Árið 2011 komu út Íslenskir kommúnistar 1918–1998 eftir Hannes H. Gissurarson prófessor og Icesave-samningarnir. Afleikur aldarinnar eftir Sigurð Má Jónsson blaðamann; árið 2012 Uppsprettan (The Fountainhead) eftir Ayn Rand; árið 2013 Búsáhaldabyltingin: Sjálfsprottin eða skipulögð? eftir Stefan Gunnar Sveinsson sagnfræðing og Undirstaðan (Atlas Shrugged) eftir Ayn Rand; árið 2014 Heimur batnandi fer (The Rational Optimist) eftir Matt Ridley, Tekjudreifing og skattar eftir Ragnar Árnason prófessor og fleiri og Kíra Argúnova (We the Living) eftir Ayn Rand; árið 2015 Andersen-skjölin eftir Eggert Skúlason ritstjóra, Greinar um kommúnisma eftir Bertrand Russell heimspeking, Konur í þrælakistum Stalíns eftir Elinor Lipper og Aino Kuusinen, Úr álögum (Out of the Night) eftir ævintýramanninn Jan Valtin (Richard Krebs), Eftirlýstur (Red Notice) eftir bandaríska fjárfestinn Bill Browder og Barnið sem varð að harðstjóra eftir blaðamanninn Boga Arason.

Á meðal næstu bóka eru Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir Ants Oras prófessor frá 1955 og Eistland. Smáþjóð undir oki erlends valds frá 1973 eftir Andres Küng. Þær eru endurútgefnar 26. ágúst, þegar aldarfjórðungur er liðinn frá því, að Ísland endurnýjaði viðurkenningu sína á Eystrasaltsríkjunum við hátíðlega athöfn í Höfða. Haldið verður útgáfuhóf, sem Davíð Oddsson mun ávarpa, en hann þýddi Eistlandsbók Küngs, á meðan hann var í háskóla, og hann var forsætisráðherra, þegar viðurkenningin á Eystrasaltsríkjunum var endurnýjuð. Hann beitti sér líka sem forsætisráðherra fyrir því, að Eystrasaltsríkin fengju aðild að Atlantshafsbandalaginu. Einnig eru væntanlegir við þetta tækifæri gestir frá Eistlandi í samráði við Unitas stofnunina í Tallinn. Þá er væntanleg íslensk þýðing á Siðmenning. Vesturlönd og önnur lönd  (Civilization. The West and the Rest) eftir breska sagnfræðinginn Niall Ferguson. AB stefnir líka að því að gefa út síðari hluta Auðlegðar þjóðanna (The Wealth of Nations) eftir Adam Smith, en fyrri hlutinn kom út fyrir mörgum árum í vandaðri þýðingu Þorbergs Þórssonar. Snorri G. Bergsson sagnfræðingur hefur í smíðum tvær bækur fyrir AB, annars vegar um flóttamenn á Íslandi árin fyrir heimsstyrjöldina síðari, hins vegar um frumsögu íslensku kommúnistahreyfingarinnar.

Comments Off

Úr borgarastríði í Gúlag

Hinn 17. júlí 2016 voru 80 ár liðin frá því, að spænska borgarastríðið skall á, þegar þjóðernissinnaðir herforingjar undir forystu Franciscos Francos gerðu uppreisn gegn hinu unga spænska lýðveldi. Af því tilefni gaf Almenna bókafélagið út aftur bókina El Campesino – Bóndann eftir Valentín González og Julián Gorkin. Er hún aðgengileg á Netinu og einnig á prenti. González, El campesino, var foringi í her lýðveldissinna. Hann var tíður gestur á forsíðum Þjóðviljans og kemur fyrir í hinni frægu skáldsögu Ernests Hemingways um spænska borgarastríðið, Hverjum klukkan glymur. Þegar borgarastríðinu lauk með sigri þjóðernissinna á útmánuðum 1939, flýði El campesino til Ráðstjórnarríkjanna. Þar var honum í fyrstu tekið með kostum og kynjum, en brátt kom að því, að hann lenti í vandræðum vegna hreinskilni sinnar og hugrekkis. Eftir nám í herskóla var hann sendur í þrælkunarvinnu í Gúlagi, neti vinnubúða, sem teygði sig um öll Ráðstjórnarríkin. Honum tókst þó fyrir ótrúlega röð tilviljana, meðal annars stóran jarðskjálfta í Ashgabat í Túrkmenístan, að flýja árið 1949 til Írans og þaðan til Parísar. Þar bar hann vitni í réttarhöldum um, hvort þrælkunarbúðir væru reknar í Ráðstjórnarríkjunum, og skrifaði bók sína um stríðið og Gúlagið með aðstoð Juliáns Gorkins, trotskista, sem sætt hafði ofsóknum kommúnista í innbyrðis átökum lýðveldissinna.

Bókin kom fyrst út á íslensku hjá Stuðlabergi 1952 í þýðingu Hersteins Pálssonar ritstjóra. Dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor skrifar formála og skýringar aftanmáls. Bendir hann meðal annars á, að fjórir Íslendingar að minnsta kosti gerðust sjálfboðaliðar í spænska borgarastríðinu. Ekki er hins vegar vitað um nema einn Íslending í Gúlaginu, barnunga dóttur Benjamíns Eiríkssonar hagfræðings, sem mun hafa látist þar. Endurútgáfa bókarinnar er liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“.

Comments Off

Vel heppnaður sumarskóli

Sumarskóli Samtaka frjálsra framhaldsskólanema, sem haldinn var í Reykjavík 8.–10. júlí 2016, tókst vonum framar. Um þrjátíu manns sóttu skólann, sem RNH studdi sem lið í samstarfsverkefninu „Evrópa, Ísland og framtíð kapítalismans“ með AECR, Evrópusamtökum íhaldsmanna og umbótasinna. Skólinn hófst með hófi fyrir alla þátttakendur á heimili Hannesar H. Gissurarsonar prófessors, forstöðumanns rannsókna RNH, föstudagskvöldið 8. júlí, en skólahald var á laugardag og sunnudag í Hinu húsinu við Pósthússtræti.

Laugardaginn 9. júlí talaði Hannes H. Gissurarson um heimspeki frelsisins. Hann gerði greinarmun á átta ólíkum aðkomum að eða útgáfum af frjálshyggju, miðjusækinni stefnu J. S. Mills og Keynes, Austurrísku hagfræðingunum, Mises og Hayek, Chicago-hagfræðingunum, Friedman, Becker og Stigler, Almannavalsfræðingum eins og Buchanan, Eignarréttarhagfræðingunum, Demsetz og Coase, mannréttindakenningu Nozicks og hugmyndum Ayns Rands í skáldsögum hennar um hina skapandi einstaklinga, frumkvöðla. Þá talaði Ragnar Árnason prófessor um hagfræði frelsisins. Hann taldi frelsi í eðli sínu frekar vera ytra frelsi en ytra frelsi, svo að notaður væri greinarmunur Isaiah Berlins á „negative“ eða ytra frelsi og „positive“ eða innra frelsi. Í fæstum orðum væri frelsið fólgið í því að geta gert það, sem menn vildu. Leiða mætti út, að þetta tækist á frjálsum markaði, þar sem menn hefðu flest tækifæri til að öðlast það, sem þeir sæktust eftir.

Jadranka talar um austurrísku hagfræðingana.

Federico Fernandez frá austurríska hagfræðisetrinu í Vín talaði um gjaldþrot sósíalismans í Venesúela. Hann kvað landið hafa verið eitt hið auðugasta í Rómönsku Ameríku fyrir nokkrum áratugum, enda væri mikil olía þar í jörðu. En Hugo Chávez hefði komist til valda, þjóðnýtt fyrirtæki og skert frelsi, svo að landið væri nú eitt hið fátækasta í álfunni. Nú væru verslanir tómar, skólar dröbbuðust niður, og margir syltu. Ekki væri unnt að kenna lækkuðu olíuverði um ástandið, því að verðið á tunnu hefði verið um 10 dalir, þegar Chávez tók við, hefði síðan farið upp og niður, en væri nú um 40–50 dalir á tunni. Jadranka Kaludjerovic frá Montenegro talaði um austurrísku hagfræðingana. Þeir hefðu stutt frjálst hagkerfi sterkum rökum. Ludwig von Mises hefði hrakið hugmyndir sósíalista, Friedrich A. Hayek sett fram kenningu um, að dreifing þekkingar krefðist dreifingar valds, og Joseph Schumpeter lýst hinni skapandi tortímingu kapítalismans, þegar hið óhagkvæmara viki fyrir hinu hagkvæmara.

Hörður talar um frumkvöðla.

Sumarskólanum var haldið áfram á sunnudaginn. Þá talaði Sigríður Andersen um náttúruvernd og benti á, að leysa mætti margan umhverfisvandann með skilgreiningu eignarréttar á þeim gæðum, sem spillt væri, og eðlilegri verðlagningu slíkra gæða. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir talaði um, að ungt nútímafólk væri frjálslynt, en það rækist á margvíslegar hindranir. Skafti Harðarson talaði um muninn á því, hver væri tilgangur og árangur ríkisafskipta. Ríkið virtist stundum aðeins skattleggja vel rekin fyrirtæki í því skyni að styrkja illa rekin. Hörður Guðmundsson talaði um frumkvöðla, stofnun fyrirtækja og rekstur. Ríkið ætti ekki að styrkja frumkvöðlastarfsemi með beinum fjárframlögum, heldur með því að fækka hindrunum og fjölga tækifærum. Magnús Örn Gunnarsson skipulagði sumarskólann, en í honum var einnig dreift ýmsum ritum: Hagfræði í hnotskurn eftir Henry Hazlett, sem er mjög auðlæsilegur inngangur að helstu lögmálum hagfræðinnar, og Löstur er ekki glæpur eftir Lysander Spooner, og segir hinn beinskeytti titill margt um efnið. Enn fremur voru skáldsögur Ayns Rands, Kíra Argúnova, Uppsprettan og Undirstaðan, sem Almenna bókafélagið hefur gefið út, seldar í sumarskólanum við vægu verði. Einnig var dreift ritum frá Institute of Economic Affairs í Lundúnum og European Students for Liberty.

Á sumarskólanum var meðal annars sýnt þetta myndband:

Glærur Hannesar í Sumarskólanum 9. júlí 2016

Comments Off

Öld alræðisins og einkennileg örlög á Íslandi

Hannes flytur erindi sitt í Viljandi.

Prófessor Hannes H. Gissurarson, forstöðumaður rannsókna RNH, flutti 29. júní 2016 fyrirlestur á ráðstefnu Evrópuvettvangs minningar og samvisku, Platform of European Memory and Conscience. Ráðstefnan var um „Totalitarianism, Deportation and Emigration“, Alræði, nauðungarflutninga og brottflutninga, og fór fram í smábænum Viljandi í suðurhluta Eistlands.

Fyrirlestur Hannesar var um tvo Þjóðverja á Íslandi fyrir stríð, gyðingakonuna Henný Goldstein Ottósson og nasistann Bruno Kress, og hvernig saga þeirra fléttaðist saman á margvíslegan og óvæntan hátt. Fyrir stríð höfðu þau að vísu lítið hvort af öðru að segja, nema hvað heimildarmenn segja, að Kress hafi eins og flestir aðrir þýskir nasistar á Íslandi verið ónotalegur við þá gyðinga, sem hér voru landflótta. Ein óvænt tengsl voru síðan þau, að SS-sveitir Himmlers ráku „rannsóknarstofnunina“ Ahnenerbe, Arfleifðina, sem veitti Kress styrk til málfræðirannsókna, en annað rannsóknarefni stofnunarinnar var höfuðlag gyðinga, og var bróðir Hennýar tekinn til rannsóknar í Auschwitz, þar sem hann var fangi, en myrtur í Natzweiler-fangabúðunum. (Forstöðumaður Ahnenerbe var hengdur fyrir stríðsglæpi.) Fyrri eiginmaður Hennýar, Robert Goldstein, og mágkona hennar og bróðursonur voru myrt í Auschwitz. Eftir stríð lágu leiðir þeirra Hennýar og Brunos Kress aftur saman vorið 1958. Þá var hann orðinn kommúnisti og bjó í Austur-Þýskalandi, en var boðinn í sextugsafmæli Brynjólfs Bjarnasonar í Skíðaskálanum í Hveradölum. Þar sá Henný hann og rak upp stór augu. Varð nokkur þytur af í veislunni, en málið var um hríð þaggað niður. Kress varð heiðursdoktor frá Háskóla Íslands á 75 ára afmælinu 1986.

Hannes hefur birt eina ritgerð á íslensku um þetta einkennilega mál. Fjörugar umræður urðu að fyrirlestrinum loknum, og furðuðu sumir sig á því, að Háskóli Íslands skyldi hafa veitt gömlum nasista heiðursdoktorstitil. Á meðal annarra ræðumanna á ráðstefnunni voru Vytautas Landsbergis, fyrrverandi forseti Litáens, og Urmas Reinsalu, dómsmálaráðherra Eistlands. Þátttaka Hannesar var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“. Á ráðstefnunni voru veitt árleg verðlaun Evrópuvettvangsins fyrir baráttuna gegn alræðisstefnunni, og hlaut þau Leopoldo López, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Venesúela, sem situr saklaus í fangelsi, og tók faðir hans við þeim fyrir hans hönd. Hér er myndband um Leopoldo López:

Glærur HHG í Viljandi í Eistlandi 29. júní 2016

Comments Off