Samanburður: Norræn hagkerfi í Evrópu og Ameríku

Hannes flytur erindi í Rockford-háskóla.

Prófessor Hannes H. Gissurarson, forstöðumaður rannsókna RNH, flutti þrjá fyrirlestra í Bandaríkjunum í mars og apríl um samanburðinn á norrænu hagkerfunum í Evrópu, Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi og Íslandi, og norrænu hagkerfunum í Norður-Ameríku, Minnesota, Manitoba og Suður-Dakóta. Í ljós kemur að sögn Hannesar, að lífskjör eru talsvert betri í norrænu hagkerfunum í Norður-Ameríku. Taldi Hannes það vegna þess, að fleiri tækifæri væru þar til að brjótast úr fátækt í bjargálnir. Norðurlandaþjóðunum hefði vissulega tekist að reisa eftirsóknarvert skipulag velmegunar og öryggis, en það hefði verið þrátt fyrir háa skatta og tilraunir til tekjujöfnunar, ekki vegna þeirra. Hagkerfi Norðurlandaþjóðanna væru þrátt fyrir allt opin og tiltölulega frjáls, og allar byggju þær við réttarríki.

Fyrirlestrarnir voru í Indiana-háskóla í Bloomington 30. mars, Heartland Institute í Chicago 31. mars og Rockford-háskóla 1. apríl. Þeir voru þáttir í Frjálshyggjukynningu eða „Free Market Road Show“ í Bandaríkjunum, sem dr. Barbara Kolm frá austurrísku hagfræðistofnuninni skipuleggur. Fyrirlestrar Hannesar voru líka liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“. Málstofan í Heartland Institute var tekin upp:

Glærur HHG í Bloomington 29. mars 2016

Comments Off

Hannes: Veljum Atlantshafskostinn

Frá v.: Grétar Þór Eyþórsson prófessor, Hannes, Stuart Wheeler, sendiherra Kanada, og Guðni Th. Jóhannesson dósent.

Prófessor Hannes H. Gissurarson, forstöðumaður rannsókna RNH, tók 19. mars 2016 þátt í ráðstefnu á Akureyri um alþjóðamál, sem Háskólinn á Akureyri hélt. Þar sagði Hannes, að Ísland hefði aðeins um tiltölulega stutt skeið vakið áhuga annarra þjóða, þótt auðvitað hefðu aðrar þjóðir nýtt Íslandsmið og kostað hefði ærna rekistefnu að reka þær út þaðan. Ísland hefði verið hernaðarlega mikilvægt vegna nýrrar tækni, kafbáta, flugvéla og veðurfarslýsinga í seinni heimsstyrjöld og í Kalda stríðinu. Þetta hefði breyst eftir hrun heimskommúnismans. Berlega hefði komið í ljós í fjármálakreppunni 2008, að engilsaxnesku stórveldin hefðu misst áhuga á Íslandi. En þrátt fyrir það væri staður Íslands á Norður-Atlantshafinu og eðlilegustu bandamenn þess Norðmenn, Bretar, Kanadamenn og Bandaríkjamenn.

Á ráðstefnunni töluðu margir aðrir, þ. á m. Guðni Th. Jóhannesson, dósent í sagnfræði, um samskipti Íslendinga og Bandaríkjamanna 1976–1991, Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði, um Icesave-deilu Íslendinga og Breta, og Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, um leitina að nýju jafnvægi í Norður-Evrópu. Þátttaka Hannesar var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Glærur HHG á Akureyri 19. mars 2016

Comments Off

Hannes: Ísland ekki of lítið

Hannes og Ögmundur.

Prófessor Hannes H. Gissurarson, forstöðumaður rannsókna RNH, flutti erindi í stjórnmálaskóla ungra Vinstri grænna í Reykjavík 5. mars 2016 um það, hvort Ísland væri of lítið til að standast sem sjálfstætt ríki eins og haldið hefur verið fram eftir bankahrunið íslenska. Rakti Hannes marga kosti smáríkja, enda hefur þeim fjölgað mjög frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Þau gætu í krafti frjálsra alþjóðaviðskipta nýtt sér kosti sérhæfingar og opins markaðar, án þess að stjórnkerfi þeirra yrðu stirð, þunglamaleg og ógegnsæ eins og stjórnkerfi stærri ríkja. Smáríki þyrftu ekki skjól, sem gætu orðið gildrur, heldur frjáls viðskipti við önnur ríki, öflug gagnkvæm samskipti og varnarsamstarf við sér öflugri ríki, til dæmis Ísland við Bandaríkin, Bretland, Kanada og Noreg.

Ásamt Hannesi var Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra, framsögumaður á fundinum, en að erindum þeirra loknum voru fjörugar umræður, ekki síst um réttlæti í tekjudreifingu og aukið val neytenda í heilsugæslu. Þátttaka Hannesar í stjórnmálaskólanum var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Glærur HHG á fundi Vinstri grænna 5. mars 2016

Comments Off

Mesta áfall íslenskra kommúnista: Febrúar 1956

Íslenskir stalínistar urðu fyrir einhverju mesta áfalli í sögu sinni, þegar fréttist um ræðu, sem Níkíta Khrústsjov, aðalritari kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna, hélt á lokuðum fundi í Kreml aðfaranótt 25. febrúar 1956. Þar viðurkenndi hann margvísleg ódæði Stalíns. Hann hefði látið handtaka fólk og pynda til tilhæfulausra játninga, brugðist hrapallega í innrás Þjóðverja 22. júní 1941 og flutt heilu þjóðflokkana nauðungarflutningum um öll Ráðstjórnarríkin. Ræðan vakti athygli um allan heim, ekki síst hér á Íslandi, þar sem hafði starfað vel skipulagður kommúnistaflokkur og síðar Sósíalistaflokkur allt frá 1930. Mynduðu stalínistar, Brynjólfur Bjarnason, Einar Olgeirsson og Kristinn E. Andrésson, valdakjarnann í honum, en rithöfundarnir Halldór Kiljan Laxness, Jóhannes úr Kötlum og Þórbergur Þórðarson vörðu Stalín af mikilli mælsku. Ortu Laxness og Jóhannes jafnvel lofkvæði um Stalín. Sósíalistaflokkurinn fór alla tíð dyggilega eftir línunni frá Moskvu og þáði þaðan stórfé til starfsemi sinnar, eins og skjöl í Moskvu áttu eftir að sýna.

Almenna bókafélagið gaf 25. febrúar 2016 út leyniræðu Khrústsjovs með formála og skýringar aftanmáls eftir dr. Hannes H. Gissurarson prófessor og Inngangi eftir Áka Jakobsson, sem hafði verið eindreginn kommúnisti og ráðherra fyrir Sósíalistaflokkinn í Nýsköpunarstjórninni 1944–1947, en síðan skipt um skoðun. Stefán Pjetursson skjalavörður þýddi ræðuna. Hann hafði líka verið eindreginn kommúnisti, en leyft sér að gera athugasemdir við ýmsar fyrirskipanir frá Moskvu. Þá var hann sendur þangað í þjálfun, en hélt áfram að vera óþægur. Átti þá að senda hann í vinnubúðir, en hann slapp naumlega með aðstoð danska sendiráðsins í Moskvu úr landi og gerðist ötull andstæðingur kommúnista. Var hann lengi ritstjóri Alþýðublaðsins. Í bókarlok er einnig svokölluð Erfðaskrá Leníns, sem íslenskir stalínistar sögðu falsaða, en Khrústsjov lét birta í fyrsta skipti 1956. Varaði Lenín þar við Stalín. Þýðinguna gerði Franz Gíslason. Þessi bók er þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna: Minninguna um kommúnismann“. Hún er í ritröðinni „Safn til sögu kommúnismans“ og kom út í senn á Netinu, þar sem hún er aðgengileg ókeypis, og á pappír.  Útkoma bókarinnar vakti verulega athygli, eins og þessi frétt í Morgunblaðinu 25. febrúar 2016 sýnir:

Comments Off

Fiskveiðar: Íslenska kvótakerfið gott fordæmi

Hannes flytur erindi sitt í atvinnumálaráðuneyti Perú.

Prófessor Hannes H. Gissurarson, forstöðumaður rannsókna RNH,  flutti erindi á málstofu í atvinnumálaráðuneyti Perú í Lima 25. janúar 2016 um hagnýt úrlausnarefni um stjórn fiskveiða og hvað aðrar þjóðir gætu lært af reynslu Íslendinga. Kvað hann lykilinn að hagkvæmni íslenska kvótakerfis felast í því tvennu, að aflakvótarnir væru framseljanlegir, svo að þeir lentu í frjálsum viðskiptum í höndum þeirra, sem best gætu nýtt þá, og varanlegir, svo að útgerðarmenn hefðu hag af því að hámarka arðinn af auðlindinni til langs tíma.

Hannes ræddi líka hugtakið þjóðareign og sagði, að eðlilegast væri að skýra það svo, að fara mætti með auðlindir með langtímahag þjóðarinnar í huga, og það væri ekki gert með því að þjóðnýta auðlindir heldur með því að leyfa einkafyrirtækjum að nýta þær á sem hagkvæmastan hátt. Arðurinn dreifðist síðan á eðlilegan hátt um atvinnulífið. Húsfyllir var á málstofunni.

Hannes hefur nýlega gefið út bók á ensku hjá Háskólaútgáfunni um íslenska kvótakerfið frá siðferðilegu og stjórnmálalegu sjónarmiði, The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable. Sú bók og erindi Hannesar í Lima eru hvort tveggja liðir í samstarfsverkefni RNH og AECR um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Glærur HHG í Lima 25. janúar 2016

Comments Off

Fiskveiðar: Enginn verr settur við úthlutun kvóta

Húsfyllir var á erindi Hannesar fyrir perúska útvegsmenn.

Prófessor Hannes H. Gissurarson, forstöðumaður rannsókna RNH, flutti fyrirlestur í Landssambandi perúskra útvegsmanna í Lima 22. janúar 2016 um helstu sjónarmið, þegar kvótum í sjávarútvegi væri úthlutað upphaflega. Hann hefur nýlega gefið út bók hjá Háskólaútgáfunni um það efni, The Icelandic Fisheries: Sustainable and profitable. Hannes hélt því fram, að úthluta ætti kvótunum eftir aflareynslu, en ríkið ekki að bjóða þá upp. Við úthlutun samkvæmt aflareynslu yrði enginn verr settur, því að menn héldu í fyrstu áfram að veiða sama afla og þeir hefðu þegar veitt, en keyptu síðan eða seldu kvóta. Eini rétturinn, sem tekinn væri af fólki utan greinarinnar, sem ekki hefði stundað veiðar og fengi því ekki kvóta, væri rétturinn til að veiða án nokkurs hagnaðar, en það er vegna þess, að fiskihagfræðin leiðir út, að við ótakmarkaðan aðgang að fiskistofnum fer hagnaðurinn af veiðunum niður í ekkert fyrir nýja veiðimenn, rentan af auðlindinni eyðist öll upp í kostnað (of mikla sókn).

Hannes kvað úthlutun samkvæmt aflareynslu því standast fyrirvara Lockes fyrir eignamyndun úr náttúrunni eða afgirðingu lmenninga (enclosures): Enginn væri verr settur eftir hana. Hún stæðist líka reglu Paretos um kerfisbreytingar, væri Pareto-hagkvæm, ólík úthlutun á opinberu uppboði, þar sem sumir yrðu verr settir, af því að þeir hefðu ekki fjárhagslegt bolmagn til kvótakaupa og öll þeirra fjárfesting í skipum, veiðarfærum og kunnáttu yrði því í einu vetfangi verðlaus.

Fjölmenni var á fyrirlestri Hannesar, en lögfræðingurinn Enrico Ghersi kynnti fyrirlesarann, og eftir fyrirlesturinn mæltu Elena Contreras, formaður Landssambands perúskra útvegsmanna, og hagfræðingur sambandsins nokkur orð. Mikill áhugi er á aflakvótum í Perú. Á meðal fundarmanna var Rafael Rey, en þegar hann var atvinnumálaráðherra, tóku Perúmenn upp kvótakerfi í mikilvægustu fiskistofnum sínum. Hannes lét þá skoðun í ljós, að gera þyrfti aflakvótana skiptanlegri, framseljanlegri og varanlegri til þess, að kerfið yrði eins hagkvæmt og skilvirkt og hið íslenska. Íslenska kvótakerfið væri gott dæmi um, að vernda mætti auðlindir með því að finna þeim verndara. Fyrirlesturinn var liður í samstarfsverkefni RNH og AECR um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“. Fyrirlesturinn var tekinn upp og er á Youtube með spænsku tali:

Glærur HHG í Lima 22. janúar 2016

Comments Off