Árið 2024 gaf ECR-flokkurinn, European Conservative and Reformists Party, út bók eftir Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálum við Háskóla Íslands, Conservative Liberalism, North and South: Grundtvig, Einaudi and their Relevance Today. Hún skiptist í fjóra kafla. Fyrsti kaflinn er um rætur frjálslyndrar íhaldsstefnu í verkum íslenska sagnritarans Snorra Sturlusonar og ítalska heimspekingsins heilags Tómasar af Aquinas og smíði heilsteyptrar kenningar í verkum Johns Lockes, Davids Humes og Adams Smiths. Í frönsku stjórnarbyltingunni klofnaði þessi stefna í frjálslynda íhaldsstefnu Edmunds Burkes, Benjamins Constants og Alexis de Tocquevilles, sem hvíldi á virðingu fyrir sjálfsprottnum vernjum og tortryggni um hátimbruð kenningakerfi og félagslega frjálslyndisstefnu, sem þeir Thomas Paine og John Stuart Mill töluðu fyrir, en þeir hölluðust að rómantískri einstaklingshyggju. Í öðrum kaflanum er danska skáldið og presturinn N. F. S. Grundtvig kynntur til sögu sem talsmaður þjóðlegrar frjálshyggju, en þjóðernisstefna hans fól ekki í sér löngun til að undiroka eða smána menningu annarra þjóða, heldur var hún hvatning til dönsku þjóðarinnar um að vernda og þroska arfleifð sína, þjóðtungu, bókmenntir, sögu og þjóðhætti.
Í þriðja kaflanum er ítalski hagfræðingurinn Luigi Einaudi kynntur til sögu sem talsmaður frjálslyndra ríkjasambanda, sem litið hefði til þjóðernisstefnu með tortryggni. Einaudi hefði stefnt að Evrópu friðar, hagsældar og frelsis. Hann hefði trúað því, að þessum markmiðum yrði aðeins náð með evrópsku ríkjasambandi, en ekki lauslegra bandalagi eins og Pólland hefði verið, bandaríska ríkjabandalagið 1781–1789 og Þjóðabandalagið. Í fjórða kafla eru þjóðleg frjálshyggja Grundtvigs og frjálslynd alþjóðahyggja Einaudis bornar saman. Gerður er greinarmunur á norrænu leiðinni í samskiptum ríkja og evrópsku leiðinni. Norræna leiðin fælist í réttinum til aðskilnaðar (Noregur 1905, Finnland 1917, Ísland 1918), landamærabreytingum eftir atkvæðagreiðslur (Slésvík 1920), sjálfstjórn þjóðflokka (Álandseyjar, Færeyjar, Grænland) og samstarfi ríkja með lágmarksafsali fullveldis (Norðurlandaráð). Evrópska leiðin fælist í síaukinni miðstýringu, ógagnsæju og óábyrgu skrifstofubákni og aðgerðasinnum í dómarasætum.