Kate Hoey um ESB mánudag 19. nóvember: 17.15–19.00

Mánudaginn 19. nóvember efna samtökin Íslenskt þjóðráð – IceWise til málþings á veitingastaðnum Rúbín í Öskjuhlíð við hlið Keiluhallarinnar kl. 17:15. Sérstakur gestur verður breski stjórnmálamaðurinn Kate Hoey, sem er þingmaður Verkamannaflokksins í Vauxhall í Lundúnum. Kate er frá Norður-Írlandi. Hún fæddist 1946 og lauk hagfræðiprófi frá London Metropolitan University. Hún var íþróttamálaráðherra í stjórn Verkamannaflokksins 1999–2001. Hún er skeleggur málsvari þess, að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi um aðild að Evrópusambandinu. Fyrirlestur Kate nefnist: „The Dangers of Joining the EU“, Hættur Evrópuaðildar.

„Það er tími til kominn að hætta að vera litlir Evrópumenn, heldur verða sannir alþjóðasinnar,“ sagði Kate Hoey í umræðum um þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB í breska þinginu í október 2011. Hún varar eindregið við takmörkuðu lýðræði innan Evrópusambandsins. Ásamt henni tala á fundinum Jón Kristinn Snæhólm stjórnmálafræðingur og Hallur Hallsson, blaðamaður og rithöfundur. Þótt Þjóðráð haldi eitt fundinn, styður RNH og kynnir fyrirlestur Hoeys, enda fellur hann vel að og inn í fyrirlestraröð, sem er samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, undir yfirskriftinni „Evrópa, Ísland og framtíð kapítalismans“.

(Ljósmynd: Daily Mail.)

Comments are closed.