Hannes: Churchill var stórmenni

Hannes Hólmsteinn flytur erindi sitt. Ljósm.: Árni Sigurðsson.

Dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, hélt erindi um stjórnmálaskörunginn Winston Churchill á hádegisverðarfundi Churchill-klúbbsins laugardaginn 17. nóvember. Hann minnti á, að Churchill hefði staðið föstum fótum í hinni engilsaxnesku arfleifð, ekki síst byltingarinnar blóðlausu 1688 og bandarísku byltingarinnar 1776, sem hefðu báðar haft þann tilgang að halda ríkisvaldinu í skefjum og tryggja réttindi einstaklinganna. Hann rifjaði upp ýmis fræg ummæli, sem hermd eru upp á Churchill, en taldi þau sum skálduð. Churchill hefði verið þjóðsagnahetja í lifanda lífi.

Hannes kvað heimildir sýna, að uppgangur Hitlers hefði á fyrstu stigum verið viðráðanlegur, en enginn hefði hlustað á viðvaranir Churchills, sem hefði gert sér grein fyrir því, að Hitler væri úlfur í mannsmynd. Vitnaði Hannes í Machiavelli um það, að furstinn þyrfti að vera sterkur sem ljón og kænn sem refur í baráttunni við úlfinn. Hannes taldi breska heimsveldið, sem Churchill studdi ætíð, hafa verið um margt gott, en um annað miður gott. Það væri þó umhugsunarefni, að nánast hefði skollið á borgarastríð í Indlandi 1947, þegar Bretar fóru þaðan, og að Hong Kong-búar vildu ólmir búa áfram við breska nýlendustjórn, þótt þeir fengju það ekki að kröfu Kína. Hannes rifjaði upp, að í kosningabaráttunni 1945 studdist Churchill við Leiðina til ánauðar eftir F. A. von Hayek, þar sem varað hefði verið við miðstýrðum áætlunarbúskap. Það hefði sennilega ekki verið honum til framdráttar í kosningabaráttunni, því að tíðarandinn hefði verið hlynntur víðtækri skipulagningu atvinnulífsins.

Churchill: Glærur

Comments are closed.