Ragnar Árnason: Íslenska kvótakerfið er hagkvæmt

Ragnar Árnason ræddi um auðlindanýtingu.

Tveir menn úr rannsóknarráði RNH fluttu erindi á ráðstefnu og stjórnarfundi AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, í Reykjavík 9.–12. maí. Prófessor Ragnar Árnason ræddi um nýtingu auðlinda. Færði hann rök fyrir því, að hagkvæmast væri að nýta auðlindir með því að mynda eignarrétt eða einkaafnotarétt á þeim, þegar því yrði við komið. Íslenska kvótakerfið væri hagkvæmt, af því að handhafar kvótanna hefðu hag af því að lágmarka kostnað sinn af sókn í fiskistofnana. Aðrir hefðu síðan mikinn óbeinan hag af þessu skipulagi. Ragnar gagnrýndi harðlega fiskveiðistefnu Evrópusambandsins, sem væri í senn óhagkvæm og óréttlát.

Prófessor Hannes H. Gissurarson sagði frá RNH og helstu viðburðum á vegum rannsóknarsetursins síðustu misseri, til dæmis tveimur alþjóðlegum ráðstefnum, annarri um fórnarlömb kommúnismans 22. september 2012, hinni um arðbærar og sjálfbærar fiskveiðar 6. október 2012, og einstökum fyrirlestrum heimskunnra fræðimanna og rithöfunda eins og dr. Matts Ridleys, Önnu Funders, prófessors Douglas Rasmussens og prófessors Philips Booths. Einnig gat Hannes stuttlega þess, sem framundan væri hjá rannsóknarsetrinu, meðal annars myndasýningar um kommúnismann í Þjóðarbókhlöðunni, málþings um Margréti Thatcher, útgáfuhófs í tilefni útkomu skáldsögunnar Kíru Argúnovu eftir Ayn Rand og ráðstefnu um kapítalisma og auðlindanýtingu í minningu Árna Vilhjálmssonar prófessors. Hann sýndi einnig myndband, sem sett hefur verið á Youtube, um samstarfsverkefni RNH og AECR.

Daniel Hannan í hátíðarkvöldverði AECR í Björtuloftum í Hörpunni.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, flutti ávarp í hátíðarkvöldverði AECR, en aðrir íslenskir ræðumenn voru alþingismennirnir Hanna Birna Kristjánsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Guðlaugur Þór Þórðarson og Ragnheiður Elín Árnadóttir, sem ræddu um stjórnmálaviðhorfið og afstöðu Íslands til annarra landa. Á meðal annarra ræðumanna voru Rich S. Williamson, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum og einn af helstu sérfræðingum Lýðveldisflokksins (Repúblikana) í alþjóðamálum. Formaður AECR er Jan Zahradil frá Tékklandi, en ritari samtakanna Íslandsvinurinn Daniel Hannan, sem situr á Evrópuþinginu fyrir breska Íhaldsflokkinn. Nær þrjár milljónir manna hafa skoðað á Youtube ræðu, sem Hannan hélt yfir Gordon Brown, á meðan hann var forsætisráðherra.

Comments are closed.