Alþjóðaviðskipti, til hagsældar og friðsældar

Rannsóknastjóri RNH, Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, var einn ræðumanna í Búdapest 13. maí í fundaröð Austrian Economics Center undir yfirskriftinni „Free Market Road Show“. Að fundinum í Búdapest stóðu einnig Dónárstofnunin, the Danube Institute, og Ungversk-bandaríska viðskiptaráðið í Nýju Jórvík (New York). Hannes tók þátt í pallborðsumræðum um alþjóðaviðskipti og tolla ásamt dr. Eamonn Butler frá Adam Smith stofnuninni í Lundúnum, en umræðunum stjórnaði Philip Pilkington. Á fundinum í Búdapest voru einnig pallborðsumræður um Bandaríkjadal og gull, sem þau dr. Barbara Kolm frá Austrian Economics Center og bandaríski hagfræðingurinn dr. Daniel Mitchell tóku þátt í. Auk þess flutti sendiherra Argentínu í Ungverjalandi, María Lorena Capra, ávarp um umbótaáætlun Javiers Mileis Argentínuforseta.

Hannes hóf mál sitt á að rifja upp, að hann hefði iðulega á kappræðufundum með ungkommúnistum á áttunda áratug síðustu aldar í ræðulok vitnað í ungverska þjóðskáldið Sàndor Petöfi:

Talpra magyar, hí a haza!
Itt az idő, most vagy soha!
Rabok legyünk, vagy szabadok?
Ez a kérdés, válasszatok!

Þessi vísuorð þýddi Steingrímur Thorsteinsson á íslensku:

Upp nú, lýður, land þitt verðu! 
Loks þér tvíkost boðinn sérðu: 
Þjóðar frelsi, þrældóms helsi! 
Þú sérð muninn: Kjóstu frelsi!

Þessi vísuorð eru í þjóðsöng Ungverja, en Íslendingar fylgdust af samúð með sjálfstæðisbaráttu þeirra á nítjándu öld, enda voru þeir sjálfir að telja Dani á að veita sér heimastjórn.

Hannes kvað tvær helstu röksemdirnar fyrir frjálsum alþjóðaviðskiptum felast í hagsæld og friðsæld. Skaparinn hefði skipt gæðum misjafnlega milli einstaklinga og þjóða, svo að þessir aðilar þyrftu að skipta hver við annan, jafnt einstaklingar og þjóðir. Einn hefði það, sem annan vantaði, og öfugt, og þeir yrðu báðir betur settir með því að skiptast þannig á vöru eða þjónustu. Hin röksemdin væri, að tilhneiging manna til að skjóta á náunga sína minnkaði, sæju þeir í þeim væntanlega viðskiptavini. Hannes kvaðst fagna hugmynd bandaríska auðkýfingsins Elons Musks um risastórt fríverslunarsvæði Norður-Ameríku og Evrópu, en bætti við, að Kínaveldi hlyti í augum fríverslunarsinna að vera sérstaks eðlis. Það stundaði ekki eðlileg viðskipti, heldur undirboð og ranga gengisskráningu, hefði með vopnavaldi lagt undir sig Tíbet og hótaði nú Taívan hinu sama og stundaði yfirgang í Suður-Kína-hafi. Þess vegna væri óeðlilegt að líta á það eins og hvern annan viðskiptavin fremur en hin öxulveldin þrjú, Íran, Norður-Kórea og Rússland.

Forstöðumaður Dónárstofnunarinnar, John O’Sullivan, og kona hans Melissa buðu ræðumönnum til kvöldverðar eftir fundinn. Frá v.: Eamonn Butler, John O’Sullivan, Daniel Mitchell, Christine Butler og Hannes H. Gissurarson.

Comments Off

Margir litlir draumar eða einn stór

Rannsóknastjóri RNH, Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í Háskóla Íslands, var ræðumaður í Vínarborg 12. maí 2025 í fundaröð, sem Austrian Economics Center skipulagði undir yfirskriftinni „Free Market Road Show“. Fundurinn var haldinn á efstu hæð í turni, Ringturm, og sést þaðan yfir alla Vínarborg. Paul Höfinger, fulltrúi Austrian Insurance Group, sem var gestgjafi fundarins, bauð menn velkomna. Fyrsta pallborðið var um austurrísku fjárlögin, sem verið var að leggja fram, og haldið á þýsku. Annað pallborðið var um boðskap Friedrichs A. von Hayeks á okkar dögum, frjáls viðskipti, skuldir hins opinbera og skattamál. Í því tóku þátt auk prófessors Hannesar þau dr. Eamonn Butler frá Adam Smith Institute, dr. Barbara Kolm frá Austrian Economics Institute, dr. Daniel Mitchell frá Freedom and Prosperity Institute og prófessor Alexander Tokarev frá Northwood háskóla.

Þar sem sást vítt yfir Vínarborg af fundarstaðnum, rifjaði Hannes upp, þegar hann og nokkrir félagar hans í Hayek Society í Oxford háskóla snæddu kvöldverð með Hayek á Ritz gistihúsinu í Lundúnum vorið 1985. Hljómlistarmenn hússins komu til hans og hvísluðu þeirri spurningu að honum hvaða lag þeir ættu að taka við borðið. Hann svaraði í hálfum hljóðum: „Vín, borg minna drauma“, en það er frægt lag (og ljóð) eftir Rudolf Sieczyński. Þegar Hayek heyrði lagið, færðist breitt bros yfir varir hans og hann hóf að syngja ljóðið á þýsku, enda þá ekki nema 86 ára.

Hannes sagði síðan á ráðstefnunni, að gera mætti greinarmun á frjálshyggju og sósíalisma eftir draumum. Frjálshyggjumenn teldu, að hver maður ætti að fá að eiga sinn hógværa og óáleitna litla draum, um að finna vinnu við sitt hæfi, reka fyrirtæki, stofna fjölskyldu, smíða í tómstundum, en verkefnið væri að búa svo um hnúta, að slíkir draumar gætu ræst. Sósíalistar ættu sér hins vegar aðeins einn stóran og ágengan draum fyrir alla, um fyrirmyndarríki, staðleysu, útópíu, sem neyða yrði alla með góðu eða illu til að lifa við og laga sig að, en þessi stóri draumur yrði jafnan að martröð.

Hannes benti á, að Hayek gerði hina óumflýjanlegu vanþekkingu hvers og eins að aðalatriði kenningar sinnar. Þar eð þekkingin dreifist á mennina, endaði það með ósköpum, ef einhver einn hópur reyndi að neyða sínum stóra draumi upp á aðra. En Hayek gerði líka grein fyrir því, hvernig ætti að ráða við þessa vanþekkingu: í tíma með því að nýta reynsluvit kynslóðanna, hefðir og venjur, og í rúmi með frjálsri verðmyndun á markaði, sem segði mönnum til um, hvar hæfileikar þeirra nýttust best.

Comments Off

Hannes í hlaðvarpi Skoðanabræðra

Rannsóknastjóri RNH, Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í Háskóla Íslands, var gestur hlaðvarpsins Skoðanabræðra 9. maí 2025. Það stofnuðu bræðurnir Snorri og Bergþór Mássynir, en eftir að Snorri var kjörinn á þing fyrir Miðflokkinn í kosningunum í nóvemberlok 2024, sér Bergþór einn um þáttinn. Hannes útskýrði, hvernig honum fyndist að vera kominn á eftirlaun, en hann kynni því hið besta. Hann setti fram þá kenningu, að vinstri menn væru meiri vinstri menn en hægri menn hægri menn, en það skýrði meðal annars, hvers vegna hægri menn lesa minna en vinstri menn. Vinstri menn voru iðulega óánægðir með veruleikann og vildu breyta honum, en hægri menn sættu sig við hann og væru ekki eins ákafir. Vinstri menn hefðu því meiri áhuga á hugmyndum og yrðu kennarar og blaðamenn, en hægri menn verkfræðingar, læknar, atvinnurekendur, fjárfestar og frumkvöðlar. Hannes taldi, að taka yrði í taumana í innflytjendamálum. Ólöglegir hælisleitendur yllu margvíslegum vandræðum á Íslandi, en duglegt og kappsamt fólk, sem vildi aðeins bæta kjör sín og hlýða settum lögum og reglum, ætti að vera aufúsugestir. Hann kvaðst hafa verið í senn innanbúðarmaður og utangarðsmaður á Íslandi. Hann hefði verið innanbúðar hjá þeim, sem höfðu völdin árin 1991-2007, enda hefðu þeir verið vinir hans og samherjar. En hann hefði verið utangarðs á vinnustað sínum, Háskóla Íslands, þar sem flestir hefðu verið vinstri sinnaðir og lítt sáttir við hlutskipti sitt í lífinu. Hannes rifjaði einnig upp baráttu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar gegn Davíð Oddssyni og ýmislegt annað sögulegt. Þátturinn var 113 mínútur.

Comments Off

Hvert stefnir Norðurálfan?

Árið 2024 gaf ECR-flokkurinn, European Conservative and Reformists Party, út bók eftir Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálum við Háskóla Íslands, Conservative Liberalism, North and South: Grundtvig, Einaudi and their Relevance Today. Hún skiptist í fjóra kafla. Fyrsti kaflinn er um rætur frjálslyndrar íhaldsstefnu í verkum íslenska sagnritarans Snorra Sturlusonar og ítalska heimspekingsins heilags Tómasar af Aquinas og smíði heilsteyptrar kenningar í verkum Johns Lockes, Davids Humes og Adams Smiths. Í frönsku stjórnarbyltingunni klofnaði þessi stefna í frjálslynda íhaldsstefnu Edmunds Burkes, Benjamins Constants og Alexis de Tocquevilles, sem hvíldi á virðingu fyrir sjálfsprottnum vernjum og tortryggni um hátimbruð kenningakerfi og félagslega frjálslyndisstefnu, sem þeir Thomas Paine og John Stuart Mill töluðu fyrir, en þeir hölluðust að rómantískri einstaklingshyggju. Í öðrum kaflanum er danska skáldið og presturinn N. F. S. Grundtvig kynntur til sögu sem talsmaður þjóðlegrar frjálshyggju, en þjóðernisstefna hans fól ekki í sér löngun til að undiroka eða smána menningu annarra þjóða, heldur var hún hvatning til dönsku þjóðarinnar um að vernda og þroska arfleifð sína, þjóðtungu, bókmenntir, sögu og þjóðhætti.

Í þriðja kaflanum er ítalski hagfræðingurinn Luigi Einaudi kynntur til sögu sem talsmaður frjálslyndra ríkjasambanda, sem litið hefði til þjóðernisstefnu með tortryggni. Einaudi hefði stefnt að Evrópu friðar, hagsældar og frelsis. Hann hefði trúað því, að þessum markmiðum yrði aðeins náð með evrópsku ríkjasambandi, en ekki lauslegra bandalagi eins og Pólland hefði verið, bandaríska ríkjabandalagið 1781–1789 og Þjóðabandalagið. Í fjórða kafla eru þjóðleg frjálshyggja Grundtvigs og frjálslynd alþjóðahyggja Einaudis bornar saman. Gerður er greinarmunur á norrænu leiðinni í samskiptum ríkja og evrópsku leiðinni. Norræna leiðin fælist í réttinum til aðskilnaðar (Noregur 1905, Finnland 1917, Ísland 1918), landamærabreytingum eftir atkvæðagreiðslur (Slésvík 1920), sjálfstjórn þjóðflokka (Álandseyjar, Færeyjar, Grænland) og samstarfi ríkja með lágmarksafsali fullveldis (Norðurlandaráð). Evrópska leiðin fælist í síaukinni miðstýringu, ógagnsæju og óábyrgu skrifstofubákni og aðgerðasinnum í dómarasætum.

RSE, Rannsóknamiðstöð í samfélags- og efnahagsmálum, og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála í Háskóla Íslands héldu saman alþjóðlega ráðstefnu í Reykjavík, sem helguð var bók Hannesar, og var hún undir yfirskriftinni: Hvert stefnir Evrópa? Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins (2005–2009), flutti ávarp við opnunina. Hann kvað fróðlegt að lesa það í bók Hannesar, að tveir menn, sem allir Íslendingar þekktu og virtu, íslenski sagnritarinn Snorri Sturluson og danska skáldið Nikolaj F. S. Grundtvig, hefðu lagt mikið af mörkum til hinnar frjálslyndu arfleifðar á Vesturlöndum, frjálslyndrar íhaldsstefnu eða frjálshyggju. Hann bætti við, að þeir Hannes hefðu átt samleið í meira en fimmtíu og fimm ár í Sjálfstæðisflokknum, og hefði Hannes haft mikil áhrif á Íslandi.

Danski sagnfræðingurinn dr. David Gress, sem gefið hefur út fjölda bóka, talaði um þjóðríkishugmyndina. Hann benti á, að þjóðernisstefna og frjálshyggja hefðu á nítjándu öld farið saman víða í Evrópu. Krafan um að stofna sjálfstætt þjóðríki hefði oft stuðlað að valddreifingu. Valdastéttin og alþýða manna hefðu sameinast í baráttunni fyrir sjálfstæði. Þetta hefði breyst á tuttugustu öld, eftir að verulegur hluti valdastéttarinnar hefði snúist gegn vestrænni menningu og eigin löndum undir merkjum Karls Marxs og annarra vinstri manna. Kominn væri til sögu ágreiningur alþýðu manna og valdastéttarinnar, sem hreiðrað hefði um sig í skrifstofum Brüssel-borgar og öðrum evrópskum höfuðborgum, í háskólum og fjölmiðlum. Þessi ágreiningur væri ekki síst um innflytjendur. Evrópskur almenningur neitaði að samþykkja, að innflytjendur frá múslimalöndum ættu að taka stjórn í löndum álfunnar og reyna að neyða verðmætamati sínu upp á aðra.

Dr. Alberto Mingardi, prófessor í stjórnmálaheimspeki í IULM háskóla í Mílanó og ritari Mont Pelerin samtakanna, lagði orð í belg um Luigi Einaudi og kenningar hans. Einaudi var forseti Ítalíu 1948–1955 og einn af feðrum „ítalska efnahagsundursins“, þegar ör hagvöxtur fylgdi auknu frelsi og stöðugleika eftir seinni heimsstyrjöld. Mingardi benti á, að í bók sinni gerði Hannes greinarmun á efnahagslegum samruna, sem væri æskilegur, og stjórnmálasamruna, sem væri ekkert annað en feluorð um aukna miðstýringu. Mingardi sagði Einaudi eflaust hafa fundið margt að lofa í Evrópusambandinu, sérstaklega innri markaðinn og herta samkeppni, en annað að lasta, einkum þróunina í átt til aukinnar miðstýringar. Nú væri verkefnið að minnka ríkisvaldið, ekki að færa það frá höfuðborgum aðildarríkjanna til Brüssel. Mingardi hefur samið umsögn um bók Hannesar á ítölsku, en tveir ritdómar hafa birst um hana á Íslandi, eftir Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, og Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi fjármálaráðherra.

Borwick lávarður, 5. barón Borwick, sem sæti á í bresku lávarðadeildinni, útskýrði Brexit, þá ákvörðun breskra kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2016 að ganga út úr Evrópusambandinu. Hann kvað flokksbróður sinn í Íhaldsflokknum, David Cameron, hafa verið sannfærðan um, að Evrópusambandssinnar myndu sigra í atkvæðagreiðslunni. Tilgangur hans með því að efna til hennar hefði verið að fjarlægja þrætuepli úr breskum stjórnmálum. Hann og nánast öll stjórnmálastéttin hefði alls ekki verið undir úrslitin búin. Borwick sagði, að hann og aðrir útgöngusinnar hefðu aðallega viljað endurheimta stjórn eigin mála. Þeir hefðu hins vegar haft rangt fyrir sér um, að úrslitin yrðu ráðin í sjálfri atkvæðagreiðslunni. Evrópusambandið hefði reynt að gera útgönguna eins erfiða og það framast gat, og stjórnmálastéttin hefði enn ekki gefist upp við að reyna aftur inngöngu. Borwick benti á, að önnur útganga hefði átt sér stað árið 1776, þegar íbúar í nýlendum Breta í Norður-Ameríku hefðu gengið út úr hinu fjarlæga breska heimsveldi og lýst yfir sjálfstæði. Þeir hefðu viljað taka stjórn eigin mála í sínar hendur í stað þess að lúta valdboði frá Lundúnum.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra og nú formaður Miðflokksins, mælti nokkur lokaorð. Hann kvaðst sammála ræðumönnunum um flest, nema ef til vill hrifningu Mingardis af ríkjasamböndum. Nú væri kominn tími til að verja hið evrópska þjóðríki. Sjálfur myndi hann berjast af öllum lífs og sálar kröftum gegn inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var ráðstefnustjóri. Í lokin töluðu tveir ungir menn fyrir hönd ungu kynslóðarinnar, Júlíus Viggó Ólafsson, formaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, og Haakon Teig frá samtökum norskra íhaldsstúdenta. Þeir töldu báðir, að unga kynslóðin væri að snúa sér að frjálslyndri íhaldsstefnu, ekki síst í andstöðu við vælumenninguna (wokeism) og afturköllunarfárið (cancel culture), sem riðið hefði yfir Vesturlönd. Ungt fólk væri að fá áhuga á menningararfleifð sinni, þar á meðal kristinni trú, sígildri húsagerðarlist og náttúrlegri myndlist.

Ráðstefnan var vel sótt, og í móttöku að henni lokinni mælti Hannes H. Gissurarson fyrir minni Hayeks, sem ætti afmæli í dag. Hann fæddist 8. maí 1899. Hannes benti á, að á ráðstefnunni væru þrír aðrir, sem hefðu með honum stofnað Félag frjálshyggjumanna á áttræðisafmæli Hayeks 8. maí 1979, þeir Friðrik Friðriksson, Skafti Harðarson og Auðun Svavar Sigurðsson. Hannes kvað einn mikilvægasta og áhrifamesta þáttinn í kenningum Hayeks vera sú hugmynd, að hver og einn einstaklingur hefði aðeins til að bera lítið brot af allri þeirri þekkingu, sem menn þyrftu á að halda, en það, sem gerði þeim kleift að nýta sér þekkingu hver annars, væri frjáls verðmyndun í rúmi og reynsluvit kynslóðanna í tíma. Þetta flytti hvort tveggja þekkingu milli manna.

Að ráðstefnunni lokinni bauð RSE ræðumönnum og nokkrum þeim, sem höfðu lagt sitt af mörkum til hennar, í kvöldverð á veitingastaðnum Tides, þar sem meðal annars var drukkið rauðvín frá vínekru Luigis Einaudis, en á matseðlinum voru íslenskt fjallalamb og skyr, svo að í boði voru afurðir bæði frá Suður- og Norður-Evrópu. Frá v.: Guðlaugur Þór Þórðarson, fyrrverandi utanríkisráðherra, Breti Atlason, Students for Liberty Europe, Alberto Mingardi, Ragnar Árnason (formaður rannsóknaráðs RSE), Hannes H. Gissurarson, David Gress, Haakon Teig, Lukas Schweiger, verkefnastjóri hjá RSE, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Borwick lávarður.

Comments Off

Hannes í hlaðvarpinu Sláin inn

Rannsóknastjóri RNH, Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í Háskóla Íslands, var gestur Birgis Liljars Soltanis í hlaðvarpinu „Sláin inn“ 3. maí 205. Ræddi hann þar meðal annars tollastríð Trumps Bandaríkjaforseta, vælumenningu (wokeism) og afturköllunarfár (cancel culture) háskóla og fjölmiðla, átökin í Ísrael og hryðjuverkasamtökin Hamas og veiðigjöld í íslenskum sjávarútvegi. Þátturinn var 59 mínútur.

Comments Off

Hannes í Lestinni í Ríkisútvarpinu

Rannsóknastjóri RNH, Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í Háskóla Íslands, var gestur „Lestarinnar“ í Ríkisútvarpinu 3. apríl, sem þau Kristján Guðjónsson og Lóa Björk Björnsdóttir sáu um. Talaði hann um bandaríska hægrið. Hann sagði meðal annars frá kynnum sínum af Milton Friedman, Margréti Thatcher, Peter Thiel og öðru hægra fólki og dvöl sinni í Kísildalnum. Hann sagði kost og löst á Trump-stjórninni og greindi muninn á frjálshyggju annars vegar og bandarískri frjálslyndisstefnu (liberalism) hins vegar. Þátturinn var 55 mínútur.

Comments Off