Oleg Sentsov fær verðlaun Evrópuvettvangsins

Oleg Sentsov.

Kvikmyndagerðarmaðurinn Oleg Sentsov frá Úkraínu, sem situr í rússnesku fangelsi, hlaut verðlaun Evrópuvettvangs um minningu og samvisku árið 2018. Veitti sendiherra Úkraínu í Slóveníu, Mýkhaílo F. Brodovýtsj, verðlaununum viðtöku fyrir hönd Sentsovs við hátíðlega athöfn á alþjóðlegri ráðstefnu Evrópuvettvangsins í Ljubljana 14. nóvember, en hana sótti fulltrúi RNH, dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor. Verðlaunin eru veitt árlega einstaklingi, sem berst gegn alræðisstefnu og fyrir lýðræði og réttarríki. Sentsov fæddist í Símferopol á Krímskaga 1976 og nam hagfræði og kvikmyndagerð. Hafa ýmsar kvikmyndir hans unnið til verðlauna á alþjóðlegum vettvangi. Sentsov snerist gegn hertöku Krímskaga 2014, og handtók þá rússneska öryggislögreglan hann og pyndaði, og var hann dæmdur í 20 ára fangelsi. Brodovýtsj sendiherra sagðist taka við verðlaununum fyrir hönd Sentsovs og annarra þeirra áttatíu einstaklinga, sem sætu í rússneskum fangelsum vegna stuðnings við Úkraínu. Við athöfnina sagði Janez Janśa, fyrrverandi forsætisráðherra Slóveníu og leiðtogi Lýðræðisflokks landsins, að Úkraína væri fyrsta fórnarlamb átakanna eftir Kalda stríðið.

Frá v.: Alojz Kovšca, forseti slóvenska þingsins, dr. Łukasz Kaminski , forseti Evrópuvettvangsins, dr. Andreja Zver, Mýkhaílo F. Brodovýtsj sendiherra með verðlaunagripinn, Janez Janśa, fyrrv. forsætisráðherra Slóveníu. Ljósm. Peter Rendek, Platform.

 

Comments Off

Kappræður um sósíalisma

Ingvar Smári Birgisson, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, og Hreindís Ylva Garðarsdóttir, formaður Ungra vinstri grænna, eiga kappræður um sósíalisma föstudaginn 26. október kl. 18:30–20:30 í félagsheimili Framsóknarflokksins að Hverfisgötu 33. Fundarstjóri er Karítas Ríkharðsdóttir, gjaldkeri Sambands ungra framsóknarmanna.

RNH vekur athygli á þessum tímabæra viðburði, sem haldinn er á vegum Samtaka frjálslyndra framhaldsskólanema og studdur af Students for Liberty. Frá fórnarlömbum sósíalismans segir í ritinu Voices of the Victims eftir rannsóknastjóra RNH, dr. Hannes Hólmstein Gissurarson prófessor.

Eins og Marx og Engels hefðu átt að segja í Kommúnistaávarpinu:
ÖREIGAR ALLRA LANDA, FYRIRGEFIÐ!

Comments Off

800 manna stúdentaráðstefna í Pálsborg postula

Frá setningarfundi stúdentaráðstefnunnar í Maksoud Plaza gistihúsinu í Pálsborg postula.

Velgengni Norðurlanda er ekki að þakka jafnaðarstefnu, heldur viðskiptafrelsi, réttaröryggi og samheldni í krafti samleitni, sagði dr. Hannes H. Gissurarson, rannsóknastjóri RNH, á fjölmennri ráðstefnu frjálslyndra stúdenta í Brasilíu, Libertycon, 12.–13. október 1018 í Pálsborg postula, São Paulo. Á meðal annarra fyrirlesara voru brasilískir fræðimenn, prófessorarnir Adriano Gianturco og Bruno Garschagen, Bruno Bodart dómari og ýmsir brasilískir aðgerðasinnar. Erlendir fyrirlesarar auk Hannesar voru frá Atlas Network og Students for Liberty. Fernando Henrique Miranda, André Freo og fleiri brasilískir háskólastúdentar höfðu veg og vanda af skipulagningu ráðstefnunnar, sem tókst hið besta. Sóttu hana 800 manns, og var uppselt á hana.

Í fyrirlestri sínum minnti Hannes á, að sænsk-finnski presturinn Anders Chydenius hefði sett fram hugmyndina um „ósýnilega höndina“ á undan Adam Smith og að frjálshyggjuhefðir hefðu verið sterkar á Norðurlöndum á nítjándu öld, eins og ljóst mætti verða af stjórnarskránni, sem Norðmenn samþykktu á Eiðsvöllum 1814, en hún var frjálslyndasta stjórnarskrá síns tíma. Johan August Gripenstedt, einn áhrifamesti stjórnmálamaður Svía, var einnig eindreginn frjálshyggjumaður, aðdáandi Frédèrics Bastiats. Í ráðherratíð hans 1848–1866 mynduðust forsendur fyrir hinu samfellda hagvaxtarskeiði, sem stóð í Svíþjóð í heila öld frá 1870. Nutu jafnaðarmenn góðs af því, þegar þeir komust til valda á fjórða áratug 20. aldar. „Sænska leiðin“, sem fylgt hefði verið 1970–1990 og fólgin hefði verið í háum sköttum og útþenslu ríkisbáknsins, hefði þó reynst ófær, og hefðu Svíar verið síðan að fikra sig frá henni. Jafnvel á hinu fámenna Íslandi hefði verið til frjálshyggjuhefð, sem þeir Jón Sigurðsson, leiðtogi Íslands í sjálfstæðisbaráttunni, Arnljótur Ólafsson, höfundur fyrsta hagfræðiritsins á íslensku, og Jón Þorláksson, stofnandi og leiðtogi fjölmennasta íslenska stjórnmálaflokksins, hefðu mælt fyrir.

Glærur Hannesar í São Paulo

Hannes var spurður, hvaða ráð hann gæti gefið Brasilíumönnum. Hann svaraði því til, að svo virtist sem þrjár nornir stæðu yfir höfuðsvörðum þessarar sundurleitu, suðrænu stórþjóðar, ofbeldi, spilling og fátækt. Brasilíumenn þyrftu að reka þessar nornir á brott, einbeita sér að koma á lögum og reglu, meðal annars með því að herða refsingar fyrir ofbeldisglæpi, og þá myndi tækifærum fátæks fólks til að brjótast í bjargálnir snarfjölga. Aðkomumönnum yrði starsýnt á hina ójöfnu tekjudreifingu í landinu. Ef til vill hefði auður sumra Brasilíumanna skapast í krafti sérréttinda og óeðlilegrar aðstöðu ólíkt því, sem gerðist í frjálsari hagkerfum, en reynslan sýndi, að hinir fátæku yrðu ekki ríkari við það, að hinir ríku yrðu fátækari. Happadrýgst væri að mynda skilyrði til þess, að hinir fátæku gætu orðið ríkari, en með aukinni samkeppni, sérstaklega á fjármagnsmarkaði, myndu hinir ríku þurfa að hafa sig alla við að halda auði sínum. Eitt lögmál hins frjálsa markaðar væri, að flónið og fjármagnið yrðu fljótt viðskila. Skriffinnska stæði líka brasilískum smáfyrirtækjum fyrir þrifum. Þátttaka Hannesar í ráðstefnunni var liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Alliance of Conservatives and Reformists in Europe, um Ísland, Evrópu og hinn frjálsa markað. Í ráðstefnulok færði Hélio Beltrão, forstöðumaður Mises-stofnunarinnar í São Paulo, Hannesi að gjöf bókina História do liberalismo brasileiro (Sögu frjálshyggjunnar í Brasilíu) eftir heimspekinginn Antonio Paim.

Helstu skipuleggjendur ráðstefnunnar: Frá v. Jehan Piero Giuliani Dall’Asta, Ivanildo Santos Terceiro, Fernando Henrique Miranda, Nycollas Liberato og André Freo.
Comments Off

Þing Mont Pèlerin samtakanna á Stóru hundaeyju

Prófessor Pedro Schwartz frá Spáni flytur ræðu um lýðræði.

Tveir Íslendingar sóttu aðalfund Mont Pèlerin samtakanna á Stóru hundaeyju (Gran Canarias) dagana 30. september til 5. október, dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, rannsóknastjóri RNH, og Gísli Hauksson fjárfestir, formaður stjórnar RNH. Mont Pèlerin samtökin voru stofnuð í Sviss 1947 til að gera frjálslyndum fræðimönnum og öðrum áhugamönnum um frelsið kleift að bera reglulega saman bækur sínar í heimi, sem þá virtist sífellt þrengja meira að frelsinu. Á meðal stofnenda voru hagfræðingarnir Friedrich A. von Hayek, Milton Friedman, George Stigler og Maurice Allais, sem allir áttu eftir að fá Nóbelsverðlaun í hagfræði, og heimspekingarnir Karl R. Popper og Bertrand de Jouvenel. Margir fyrirlesaranna á þinginu að þessu sinni hafa komið til Íslands og haldið fyrirlestra á vegum RNH, þar á meðal Philip Booth, Eamonn Butler, Nils Karlson og Matt Ridley. Sá prófessor Gabriel Calzada Álvarez í Fransisco Marroquin-háskóla í Guatamala um að skipuleggja ráðstefnuna, og fórst honum það vel úr hendi.

John Taylor, forseti samtakanna 2018–2020.

Margt var á dagskrá, þar á meðal þróunarkenningin í félagsvísindum, hagvöxtur í fátækum löndum, fjármálakerfi heimsins eftir fjármálakreppuna 2007–2009, samkeppni um íbúa milli svæða, menningarlegar forsendur frjálsra ríkja, framtíð borga, starfsemi frumkvöðla, hagsveiflur, Netið og óvinir þess, samskipti Hayeks og landa hans og kennara, Ludwigs von Mises, réttmæti (eða óréttmæti) ríkisvalds, einkalausnir í framleiðslu samgæða, aðskilnaðarhreyfingar og sjálfstæði ríkja, stjórnmálabarátta frjálshyggjufólks og tengsl Salamanca-skólans í hagfræði og skosku upplýsingarmannanna. Var meðal annars rifjuð upp saga af stofnþinginu, þegar Mises gekk út af einni málstofunni og sagði, um leið og hann skellti á eftir sér: „Þið eruð ein stór sósíalistahjörð!“ Hafði einn fundarmanna, Frank H. Knight, ljáð máls á 100% erfðaskatti. Eitt kvöldið á þinginu spjölluðu þeir Matt Ridley og frumkvöðullinn og fjárfestirinn Peter Thiel saman um ástand og horfur í heimsmálum. Mont Pèlerin samtökin eru ekkert leynifélag, en ekki er þó ætlast til þess, að þátttakendur skýri opinberlega frá því, sem aðrir á þinginu segja, svo að umræður geti verið hreinskilnislegar.

Hannes H. Gissurarson sat í stjórn samtakanna 1998–2004 og skipulagði svæðisþing þeirra í Reykjavík 2005. Hann talaði tvisvar á þinginu. Í annað skiptið var það á morgunverðarfundi um frjálshyggju í Rómönsku Ameríku. Kvað hann þá skoðun algenga, að ríki Rómönsku Ameríku yrðu að fara „norrænu leiðina“, sem fæli í sér víðtæk ríkisafskipti, háa skatta og rausnarleg velferðarréttindi. Þetta væri misskilningur. Norðurlönd byggju ekki við velmegun og öryggi vegna endurdreifingar skatta, heldur þrátt fyrir hana. Skýringin á velgengni þeirra lægi í réttaröryggi, frjálsum alþjóðaviðskiptum og ríkri samkennd, sem ætti sér rót í rótgrónum siðvenjum og samleitni. Hannes vitnaði í skýrslu sína fyrir New Direction um Norrænu leiðirnar máli sínu til stuðnings.

Daniel Hannan flytur ræðu á þinginu.

Í hitt skiptið talaði Hannes í umræðum um aðskilnaðarhreyfingar og sjálfstæði ríkja. Tók hann undir það með framsögumönnum, Jesus Huerta de Soto frá Spáni og Daniel Hannan frá Stóra Bretlandi, að til væri frjálslynd þjóðernisstefna. Hefðu margir stjórnmálamenn á nítjándu öld fylgt slíkri stefnu og mörg þjóðríki verið stofnuð, til dæmis á Norðurlöndum. En þjóðerniskennd þyrfti að vera sjálfsprottin, eins og Ernest Renan hefði lýst, þegar hann sagði, að þjóð yrði til í daglegri atkvæðagreiðslu einstaklinganna. Og til þess að menn elskuðu land sitt, þyrfti það að vera elskulegt. Aðskilnaður Noregs og Svíþjóðar 1905, Íslands og Danmerkur 1918 og Eystrasaltsríkjanna og Rússland, eftir að Ráðstjórnarríkin liðu undir lok, hefði verið æskilegur. Hannes varpaði fram þeirri spurningu, hvort fyrirkomulagið á Álandseyjum og í Suður-Týrol gæti ekki orðið fyrirmynd að einhvers konar málamiðlun í deilu Skota og Englendinga og Katalóníumanna og Spánverja. Í upphafi hefðu íbúar þessara svæða alls ekki viljað vera borgarar í Finnlandi annars vegar og á Ítalíu hins vegar, en nú væri allt fallið í ljúfa löð, því að þeir hefðu forræði eigin mála.

Á þinginu á Stóru hundaeyju var John Taylor, hagfræðiprófessor í Stanford-háskóla og einn kunnasti peningamálasérfræðingur heims (en við hann er Taylor-reglan fyrir seðlabanka kennd), kjörinn forseti samtakanna til næstu tveggja ára. Íslendingarnir tveir fóru eitt kvöldið á veitingahús með öðrum Norðurlandabúum, sem þingið sóttu, og skröfuðu saman um norræna frjálshyggju.

Norðurlandabúarnir saman þriðjudagskvöldið 2. október 2018 á veitingastaðnum Gaudi. Frá v. dr. Hannes H. Gissurarson, dr. Nils Karlson, dr. Carl-Johan Westholm, Gísli Hauksson, Lars-Peder Nordbakken og Håkan Gergils.

Comments Off

Deilur um efnahagsumbæturnar 1991–2004

Jón Sigurðsson. Málverk Þórarins B. Þorlákssonar (föðurbróður Jóns Þorlákssonar).

Rannsóknastjóri RNH, Hannes H. Gissurarson prófessor, birti árið 2017 tvær ritgerðir í bandaríska tímaritinu Econ Journal Watch í ritröð þess um frjálshyggju í ýmsum löndum. Fyrri ritgerðin var um sögu frjálshyggjunnar á Íslandi fram á ofanverða tuttugustu öld, og þar ræddi Hannes um hagfræðiskrif Jóns Sigurðssonar og Arnljóts Ólafssonar á 19. öld og Jóns Þorlákssonar, Benjamíns Eiríkssonar og fleiri á 20. öld. Arnljótur, Jón og Benjamín voru höfundar fyrstu hagfræðiritanna á íslensku. Þau voru Auðfræði (1880), Lággengið (1924) og Orsakir erfiðleikanna í atvinnu- og gjaldeyrismálunum (1938). Einnig tók tímaritið viðtal við Hannes (podcast). Seinni ritgerðin var um efnahagsumbæturnar 1991–2004 og ólíkar skýringar á bankahruninu 2008. Þar eð Hannes vék þar að kenningum Stefáns Ólafssonar prófessors um fátækt og tekjudreifingu á Íslandi síðustu áratugi, veitti tímaritið Stefáni kost á að svara, og gerði hann það haustið 2017.

Nú er hausthefti Econ Journal Watch 2018 komið út með andsvari Hannesar við skrifi Stefáns, og rifjar höfundur þar upp, að Stefán hélt því fram fyrir þingkosningarnar 2003, að fátækt væri almennari á Íslandi en öðrum Norðurlöndum, og fyrir þingkosningarnar 2007, að tekjudreifing (eins og hún mældist 2004) væri ójafnari á Íslandi en öðrum Norðurlöndum. Hannes kveður gögn sýna, að hvort tveggja hafi verið rangt. Hann gagnrýnir einnig ýmsar fullyrðingar Stefáns Ólafssonar um bankahrunið, en Stefán vildi kenna Davíð Oddssyni um það að miklu leyti.

Comments Off

Skýrsla Hannesar um bankahrunið

Bjarni tekur við skýrslunni um bankahrunið úr hendi Hannesar Hólmsteins. Ljósm. Haraldur Guðjónsson, Viðskiptablaðið.

Rannsóknastjóri RNH, dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor, afhenti Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra 25. september 2008 skýrslu þá, sem hann hefur unnið á vegum Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins 2008. Helstu niðurstöður skýrslunnar eru, að Bretar hafi beitt hryðjuverkalögum gegn Íslendingum að óþörfu, því að þeir hefðu getað náð yfirlýstu markmiði sínu með miklu mildari úrræðum, að Bretar hafi brotið gegn banni samningsins um Evrópska efnahagssvæðisins gegn mismunun vegna þjóðernis, því að þeir hafi í fjármálakreppunni boðið öllum breskum bönkum aðstoð nema tveimur, sem þeir hafi beinlínis lokað, Heritable og KSF (Kaupthing Singer & Friedlander), en þeir voru í eigu Íslendinga, og að Bandaríkjamenn hafi í fjármálakreppunni veitt Svíþjóð, Danmörku og Noregi þá aðstoð, sem þeir hafi neitað Íslendingum um. Hannes gerir þá niðurstöðu fjármálafræðinganna dr. Ásgeirs Jónssonar og dr. Hersis Sigurgeirssonar að sinni, að eignasöfn íslensku bankanna hafi almennt ekki verið betri né verri en erlendra banka á sama tíma. Hann rekur einnig í skýrslunni, hvernig stjórnvöld í Noregi, Finnlandi og Danmörku hafi aðstoðað innlenda og vel tengda kaupsýslumenn við að komast yfir eignir íslensku bankanna á smánarverði.

Hannes Hólmsteinn heldur því fram, að viðbrögð íslenskra stjórnvalda við bankahruninu hafi verið skynsamleg. Með neyðarlögunum frá 6. október 2008 hafi þau róað almenning og takmarkað fjárskuldbindingar íslenska ríkisins. Það geti orðið öðrum þjóðum fordæmi að gera innstæður að forgangskröfum, eins og Íslendingar hafi gert, en með því verði ríkisábyrgð á bönkum óþörf. Tvær stjórnmálaályktanir megi draga af bankahruninu: að geðþóttavald verði alltaf misnotað, og sé beiting hryðjuverkalaganna bresku dæmi um það, og að Ísland staði eitt í heiminum, enginn hafi viljað hjálpa því í hruninu nema Færeyingar og Pólverjar.

Skýrsla Hannesar Hólmsteins er á ensku, en hann kynnti efni hennar í sjónvarps- og útvarpsviðtölum, þar á meðal í Speglinum á Ríkisútvarpinu, Harmageddon á FM97.7 og Ísland vaknar á K-100, í íslenskum útdrætti á heimasíðu fjármálaráðuneytisins og í fjórum greinum í Morgunblaðinu:

Beiting hryðjuverkalaganna var Bretum til minnkunar

Íslendingum var neitað um aðstoð, sem aðrir fengu

Viðbrögð íslenskra stjórnvalda við bankahruninu voru skynsamleg

Framkoma sumra granna í bankahruninu var siðferðilega ámælisverð

Árið 2017 birti Hannes Hólmsteinn einnig skýrslu um lærdóma fyrir Evrópuþjóðir af íslenska bankahruninu hjá hugveitunni New Direction í Brüssel.

Viðbrögð þeirra, sem hafna niðurstöðum Hannesar Hólmsteins, af því að þeir telja hina alþjóðlegu fjármálakreppu ekki skipta miklu máli um bankahrunið, enda beri Íslendingar einir alla sök á því, hafa verið misjöfn, eins og skopteiknarar hafa hagnýtt sér:

 

Comments Off