Hannes: Kúgunin eðlislæg kommúnismanum

Rannsóknastjóri RNH, dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor, var einn ræðumanna á alþjóðlegri ráðstefnu um kommúnisma, sem Stofnun sögulegra minninga í Eistlandi hélt í Tallinn 23. ágúst 2018. Var þátttaka Hannesar í ráðstefnunni liður í samstarfsverkefni RNH og ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu fórnarlambanna“. Í tölu sinni kvað Hannes það enga tilviljun, heldur eðlislægt kommúnismanum að hafa alls staðar leitt til alræðis, kúgunar og fátæktar. Höfundar hans, Karl Marx og Friðrik Engels, hefðu verið fullir haturs og mannfyrirlitningar, eins og skrif þeirra sýndu vel. Þeir höfðu skömm á smáþjóðum, ekki síst Íslendingum. Þeir Marx og Engels hefðu enn fremur verið vísindatrúar, talið sig handhafa Stórasannleika, en ekki í leit að bráðabirgðasannleika, sem mætti betrumbæta með tilraunum, eins og venjulegir vísindamenn. Í þriðja lagi væri ætíð hætt við því, þegar tómarúm myndaðist eftir byltingu, að hinir ófyrirleitnustu og samviskulausustu fylltu það, eins og Edmund Burke hefði bent á í frægu bréfi sínu um stjórnarbyltinguna frönsku.

Sofi Oksanen og Hannes H. Gissurarson í Tallinn. Ljósm.: Mari-Ann Kelam.

Hannes kvað tvær ástæður í viðbót vera til þess, að kommúnismi leiddi jafnan til alræðis. Í landi, þar sem ríkið væri eini vinnuveitandi, ætti stjórnarandstæðingurinn erfitt um vik, en frelsið væri ekki raunverulegt frelsi, nema það væri frelsi til að gagnrýna stjórnvöld. Í fimmta lagi hygðust kommúnistar afnema dreifðan eignarrétt einstaklinga og frjáls viðskipti þeirra í milli, en við það fyrirkomulag nýttist dreifð þekking þeirra, eins og Friedrich A. Hayek hefði manna best sýnt fram á. En ef ríkið ræki öll atvinnutækin, þá yrði það að fækka þörfum manna og einfalda þær, til þess að allsherjarskipulagning atvinnulífsins yrði framkvæmanleg. Þetta gæti ríkið aðeins gert með því að taka í þjónustu sína öll mótunaröfl mannssálarinnar, fjölmiðla, skóla, dómstóla, listir, vísindi og íþróttir, en það er einmitt slíkt kerfi, sem kallað væri alræði. Á ráðstefnunni voru kynnt tvö ný rit eftir Hannes, Voices of the Victims: Notes Towards a Historiography of Anti-Communist Literature, sem kom út hjá New Direction í Brüssel í árslok 2017, og Totalitarianism in Europe: Three Case Studies, sem kom út hjá ACRE í Brüssel snemma árs 2018.

Á meðal annarra ræðumanna á ráðstefnunni voru Sofi Oksanen, höfundur hinnar kunnu skáldsögu Hreinsunar, sem komið hefur út á íslensku, og prófessor Richard Overy, sérfræðingur í sögu seinni heimsstyrjaldar og höfundur kunnrar bókar um Stalín og Hitler. Jafnhliða ráðstefnunni vígði forseti Eistlands, Kersti Kaljulaid, minnismerki um eistnesk fórnarlömb kommúnismans, en það stendur í útjaðri Tallinn. Á meðal gesta við vígsluna og á ráðstefnunni voru dómsmálaráðherrar Eystrasaltslandanna þriggja, Póllands, Úkraínu og fleiri ríkja.

Keljuraid forseti leggur blómsveig að Minnismerkinu um fórnarlömb kommúnismans. Ljósm. Martin Andreller.

 

Comments Off

Fjölmenni á Frjálsa sumarskólanum

Einar Freyr Bergsson setur skólann.

Fjölmenni sótti Frjálsa sumarskólann, sem ESFL, European Students for Liberty, og SFF, Samtök frjálslyndra framhaldsskólanema, héldu í Reykjavík 28. júlí 2018. Einar Freyr Bergsson, formaður SFF, setti skólann um morguninn, en síðan töluðu Óli Björn Kárason þingmaður um uppruna frjálslyndisstefnunnar og Davíð Þorláksson lögfræðingur um eðlilegt hlutverk ríkisins. Síðdegis töluðu Sigríður Andersen dómsmálaráðherra um rökin fyrir víðtæku tjáningarfrelsi, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, sálfræðingur og varaborgarfulltrúi, um afglæpavæðingu fíkniefna, og Brynjar Níelsson þingmaður um hlutverk fjölmiðla. Hagfræðingurinn Jeffrey Miron, prófessor í Harvard-háskóla og kennslustjóri skólans í hagfræði, flutti loks erindi um undirstöðuatriði frjálshyggju, en hann er höfundur fjögurra bóka um það efni. Var gerður góður rómur að máli Mirons. Um kvöldið hittust nemendur Sumarskólans yfir kvöldverði og skemmtu sér hið besta.

Stuðningur RNH við Frjálsa sumarskólann er liður í samstarfsverkefni þess við ACRE, Alliance of Conservatives and Reformists in Europe, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“. ESFL heldur 22. september svæðisþing í Reykjavík í samstarfi við SFF, og hefur þetta myndband verið gert til kynningar:

Comments Off

Hannes: Menntun fyrir frjálsar þjóðir

Menntun er ekki hið sama og skólaganga, og skólar þurfa ekki að vera ríkisreknir, sagði prófessor Hannes H. Gissurarson, rannsóknastjóri RNH, í málstofu um skóla- og menntamál á ráðstefnu ACRE, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, í Bakú í Aserbaídsjan 9. júní 2018. Hvað sem því liði, mættu engir skólar missa sjónar á aðaltilgangi sínum. Hann væri að kenna nemendum þau vinnubrögð og gildi, sem þeir þyrftu á að halda úti í lífinu, til dæmis lestur, skrift og reikning. Ekki mætti heldur vanrækja almenna menntun, sem Þjóðverjar kölluðu „Bildung“ og fælist í þekkingu á öðrum tímum og öðrum stöðum. Menntun væri í raun miðlun menningarlegra gilda, og með litlum og samleitum þjóðum hlyti eitt gildið að vera þjóðleg reisn, virðing fyrir hinni þjóðlegu arfleifð. Hins vegar hefði Burke auðvitað rétt fyrir sér um það, að til þess að elska ættjörð sína yrði hún að vera elskuleg. Það væri hlutverk stjórnmálaleiðtoga að gera lönd sín elskuleg, og það gerðu þeir með því að auka frelsi og auðvelda verðmætasköpun.

Hannes, Quiroga fyrrverandi Bólivíuforseti og kona hans að loknum kvöldverði á mótinu í Bakú.

Hannes lagði áherslu á, að þekking væri eftirsóknarverð í sjálfri sér, en ekki aðeins vegna notagildis síns. Vísindi væri eðlilegast að skilgreina sem frjálsa samkeppni hugmynda, eins og Karl R. Popper hefði gert. Það væri athyglisvert, að í OECD-rannsókn hefðu komið í ljós sterk tengsl milli fjárfestinga einkafyrirtækja í rannsóknum og þróun og aukningar vísindalegrar og tæknilegrar þekkingar, en engin slík tengsl, þegar opinberir aðilar ættu í hlut. Bókvitið yrði aðeins í askana látið, þegar hendur einstaklinga héldu á þeim, ekki krumlur ríkisins. Á okkar dögum virtust vinstri sinnaðir menntamenn hafa náð ofurvaldi á skólum og fjölmiðlum og stundum reyna að beina þeim í aðra átt en að því að leita þekkingar og miðla henni. Í stað frjálsrar samkeppni hugmynda stefndu vinstri sinnaðir menntamenn að baráttu við kapítalismann, reyndu að breyta öllum í fórnarlömb og hópmenni, sem nota ætti annarra manna fé til að halda uppi. Jafnframt græfu þessir menntamenn undan siðferðilegum stoðum borgaralegs skipulags, svo sem eignarréttinum og fjölskyldunni. Auðvitað ætti að virða málfrelsi þessara manna, en óþarfi væri að kosta baráttu þeirra með almannafé.

Hannes kvað hægri menn jafnan vera í minni hluta í fjölmiðlum og félagsvísindadeildum vegna innvals: Þeir legðu frekar fyrir sig læknislist, verkfræði, lögfræði og kaupsýslu. Þeir hægri menn, sem sjálfir hefðu ekki tíma til að verja hagsmuni sína og um leið almannahagsmuni, yrðu því að aðstoða þann fámenna hóp menntamanna, sem hefðu ekki andúð á auðsköpun. Koma þyrfti til skila tveimur snjöllustu hugmyndum Adams Smiths: að gróði eins þyrfti ekki að vera tap annars og að atvinnulífið gæti verið skipulegt án þess að vera skipulagt. Gera þyrfti ósýnilega höndina sýnilega. Hannes minntist þess, að Friedrich A. Hayek hefði einu sinni sagt sér, að í rauninni væri eina verkefni hagfræðingsins að skýra út, hvers vegna enga hagfræðinga þyrfti til að stýra hagkerfinu. Það gæti verið sjálfstýrt.

Aðrir þátttakendur í málstofunni um skóla- og menntamál voru Firudin Gurbanov, aðstoðarmenntamálaráðherra Aserbaídsjans, Prófessor Asif Ahmed, deildarforseti læknadeildar Aston-háskóla, og Sebastian Keciek, sem sér um að koma netinu inn í pólska skóla. Á meðal annarra ræðumanna á mótinu voru Jorge Quiroga, fyrrverandi forseti Bólivíu, Jan Zahradil, forseti ACRE og Evrópuþingmaður, og Nosheena Mobarik, barónessa og Evrópuþingmaður, og margir aðrir Evrópuþingmenn. Mótinu stjórnaði breski blaðamaðurinn og útgefandinn Iaian Dale, en Richard Milsom, framkvæmdastjóri ACRE, og starfslið hans sáu um skipulagningu.

Comments Off

Jordan Peterson á Íslandi

Peterson og Jónas Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri AB.

Almenna bókafélagið, samstarfsaðili RNH á Íslandi, hefur gefið út bókina Tólf lífsreglur: Mótefni gegn glundroða eftir kanadíska sálfræðiprófessorinn Jordan Peterson, sem orðinn er heimskunnur fyrir framgöngu sína í sjónvarpsþáttum. Höfundurinn kom til Íslands í júníbyrjun og hélt tvo fyrirlestra fyrir fullum sal í Hörpu að kvöldi 4. og 5. júní, og voru gestir hinir ánægðustu. Hafði Gunnlaugur Jónsson fjárfestir veg og vanda af heimsókninni. Peterson telur, að öfgafullir vinstri menn hafa náð undirtökum í háskólum á Vesturlöndum og noti áhrif sín og völd til þess að þagga niður í öðrum. Þeir vilji gera alla að fórnarlömbum í stað þess að hvetja menn til að leggja á brattann, standa aftur á fætur, þótt þeir hrasi. Mikla athygli vakti, að Frosti Logason talaði við Peterson í Harmageddon og Þorbjörn Þórðarson í Ísland í dag.

Rannsóknastjóri RNH, prófessor Hannes H. Gissurarson, velti því fyrir sér í Fróðleiksmola í Morgunblaðinu 9. júní, hvers vegna Peterson fengi svo góðar undirtektir:

Ein ástæðan er, að hann nýtir sér út í hörgul nýja miðla, Youtube og Twitter. Hann er gagnorður og sléttmáll, og honum fipast hvergi, er harðskeyttir viðmælendur sækja að. Í öðru lagi deila miklu fleiri með honum skoðunum en mæla fyrir þeim opinberlega. Langflestir menntamenn eru vinstri sinnaðir: Gáfaðir hægri menn gerast verkfræðingar, læknar eða atvinnurekendur, gáfaðir vinstri menn kennarar eða blaðamenn. Þriðja ástæðan er, að vinstri sinnaðir menntamenn hafa nú miklu meiri völd í skólum og fjölmiðlum en áður, og þeir nota þau til að þagga niður í raunverulegri gagnrýni. Í huga þeirra eru vísindin ekki frjáls samkeppni hugmynda, heldur barátta, aðallega gegn kapítalismanum, en líka gegn „karlaveldinu“. Eins og Peterson bendir á, eru til dæmis eðlilegar skýringar til á því, að tekjumunur mælist milli kynjanna. Fólk hefur tilhneigingu til að raða sér í ólík störf eftir framtíðaráætlunum sínum, og það er niðurstaðan úr þessari röðun, þessu vali kynjanna, sem mælist í kjarakönnunum. En á Íslandi og annars staðar hefur risið upp jafnréttisiðnaður, sem kennir „karlaveldinu“ um þessa mælinganiðurstöðu. Jafnframt hefur skólakerfið verið lagað að áhugamálum róttækra kvenfrelsissinna, svo að tápmiklir piltar finna þar litla fótfestu. Nú er aðeins þriðjungur þeirra, sem brautskrást úr Háskóla Íslands, karlkyns.

Biðröð eftir áritun Petersons á bókina Tólf lífsreglur.

Comments Off

Hannes kynnir Norrænu leiðirnar í Kaupmannahöfn

Velgengni Norðurlandaþjóðanna er þrátt fyrir endurdreifingartilraunir jafnaðarmanna, ekki vegna þeirra, sagði dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, rannsóknastjóri RNH, á evrópska frelsismótinu (European Liberty Forum) í Comwell Conference Center í Kaupmannahöfn 30. maí 2018. Þar kynnti hann rit sitt, Norrænu leiðirnar (The Nordic Models), sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í árslok 2016. Hann lýsir hinni sterku frjálshyggjuhefð Svía, en sænsk-finnski presturinn Anders Chydenius birti rit um það, hvernig eins gróði þarf ekki að vera annars tap og hvernig atvinnulífið getur verið skipulegt án þess að vera skipulagt, nokkrum árum á undan útkomu Auðlegðar þjóðanna eftir Adam Smith. Frjálshyggjumaðurinn Johan August Gripenstedt forsætisráðherra beitti sér á nítjándu öld fyrir umfangsmiklum umbótum í frjálsræðisátt. Á tuttugustu öld héldu kunnir hagfræðingar uppi merki atvinnufrelsis, Eli Heckscher, Gustav Cassel og Bertil Ohlin. Frjálshyggja var líka öflug í Noregi og Danmörku, eins og norska Eiðsvallastjórnarskráin 1814 bar órækt vitni um. Á Íslandi mæltu Jón Sigurðsson, leiðtogi Íslendinga í sjálfstæðisbaráttunni, Arnljótur Ólafsson, höfundur fyrsta hagfræðiritsins, og Jón Þorláksson forsætisráðherra fyrir atvinnufrelsi.

Hannes sagði þó ekki rétt að gera of mikið úr velgengni Norðurlandaþjóðanna. Eðlilegt væri að bera saman lífskjör á Norðurlöndunum fimm og í norðlægum ríkjum Bandaríkjanna og fylkjum Kanada, til dæmis Manitoba, Minnesota og Norður- og Suður-Dakota. Í ljós kæmi, að landsframleiðsla á mann í „norrænum ríkjum“ Vesturheims væri talsvert meiri en í norrænum ríkjum Evrópu.

Hannes kvað Íslendinga auðvitað ekki hafa lagt margt til heimsmenningarinnar, enda hefðu þeir löngum verið fáir og fátækir. Þó mætti nefna þrennt: Þjóðveldið 930–1262 hefði verið merkilegt skipulag laga án ríkisvalds, þar sem réttarvarsla hefði verið í höndum einstaklinga. Kvótakerfið í sjávarútvegi væri í senn sjálfbært og arðbært. Íslendingar hefðu líka í bankahruninu fundið leið, sem aðrar þjóðir væru nú að feta: að gera innstæður í bönkum að forgangskröfum, en með því væri hægt að fella niður ríkisábyrgð á innstæðum, semi hefði leitt ófáa bankamenn í freistni.

Rit Hannesar um Norrænu leiðirnar er nú aðgengilegt á Netinu.

Glærur Hannesar í Kaupmannahöfn 29. maí 2018

Comments Off

Hannes kynnir Grænan kapítalisma í Brüssel

Í umhverfismálum ber að gera greinarmun á nýtingarstefnu (wise use environmentalism) og umhverfistrúarstefnu (ecofundamentalism). Nýtingarsinnar vilja hreint og óspillt umhverfi, en um leið skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda mannkyni til hagsbóta. Umhverfistrúarmenn halda því fram, að „náttúran“ sé manninum æðri, og krefjast friðunar (preservation) frekar en verndunar (conservation). Þetta sagði dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, rannsóknastjóri RNH, á umhverfisráðstefnu ACRE í Bibliotheque Solvay í Brüssel 24. maí 2018, en þar kynnti hann nýútkomið rit sitt, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Private Property Rights, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í árslok 2017. Ritið verður bráðlega aðgengilegt á Netinu.

Hannes kvað skýrt dæmi um muninn á nýtingarstefnu og umhverfistrúarstefnu varða „þokkafull risadýr“ (charismatic megafauna) eins og hval, fíl og nashyrning. Umhverfistrúarmenn virðast telja þessi dýr eins konar heilagar kýr og vilja alfriða þau. Nýtingarsinnar telja hins vegar skynsamlegast að úthluta nýtingarréttindum til þeirra aðila, sem helst hafa hagsmuna að gæta. Til dæmis ættu íbúar á fílaslóðum að eignast fílana og selja aðgang að þeim. Þá myndu veiðiþjófar breytast í veiðiverði með einu pennastriki.

Hannes benti á, að hvalastofnar, sem nýttir eru á Íslandsmiðum, langreyður og hrefna, eru síður en svo í útrýmingarhættu. Þeir éta um sex milljón lestir af sjávarmeti árlega, aðallega svifi og smáfiskum, en Íslendingar landa um einni milljón lesta af fiski. Þegar umhverfistrúarmenn krefjast alfriðunar, virðast þeir ætlast til, að Íslendingar beri kostnaðinn af slíkri friðun. Svipað er að segja um makríl. Evrópusambandið virðist ætlast til þess, að Íslendingar fóðri makrílinn, sem ratað hefur á Íslandsmið, en vill banna þeim að veiða hann.

Hannes lýsti líka íslenska kvótakerfinu, en fiskveiðar á Íslandsmiðum eru í senn sjálfbærar og arðbærar, á meðan víða annars staðar er stunduð rányrkja í hafi. Á meðal annarra ræðumanna á umhverfisráðstefnu ACRE var hinn kunni heimspekingur Sir Roger Scruton, sem samið hefur bókina Græna heimspeki og fjölda annarra verka. Í tengslum við ráðstefnuna birti Hannes greinar á Netinu um sjálfbærar og arðbærar fiskveiðar og um verndun (en ekki friðun) þokkafullra risadýra.

Glærur Hannesar í Brüssel 24. maí 2018

Comments Off