Hannes í hlaðvarpi Skoðanabræðra

Rannsóknastjóri RNH, Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í Háskóla Íslands, var gestur hlaðvarpsins Skoðanabræðra 9. maí 2025. Það stofnuðu bræðurnir Snorri og Bergþór Mássynir, en eftir að Snorri var kjörinn á þing fyrir Miðflokkinn í kosningunum í nóvemberlok 2024, sér Bergþór einn um þáttinn. Hannes útskýrði, hvernig honum fyndist að vera kominn á eftirlaun, en hann kynni því hið besta. Hann setti fram þá kenningu, að vinstri menn væru meiri vinstri menn en hægri menn hægri menn, en það skýrði meðal annars, hvers vegna hægri menn lesa minna en vinstri menn. Vinstri menn voru iðulega óánægðir með veruleikann og vildu breyta honum, en hægri menn sættu sig við hann og væru ekki eins ákafir. Vinstri menn hefðu því meiri áhuga á hugmyndum og yrðu kennarar og blaðamenn, en hægri menn verkfræðingar, læknar, atvinnurekendur, fjárfestar og frumkvöðlar. Hannes taldi, að taka yrði í taumana í innflytjendamálum. Ólöglegir hælisleitendur yllu margvíslegum vandræðum á Íslandi, en duglegt og kappsamt fólk, sem vildi aðeins bæta kjör sín og hlýða settum lögum og reglum, ætti að vera aufúsugestir. Hann kvaðst hafa verið í senn innanbúðarmaður og utangarðsmaður á Íslandi. Hann hefði verið innanbúðar hjá þeim, sem höfðu völdin árin 1991-2007, enda hefðu þeir verið vinir hans og samherjar. En hann hefði verið utangarðs á vinnustað sínum, Háskóla Íslands, þar sem flestir hefðu verið vinstri sinnaðir og lítt sáttir við hlutskipti sitt í lífinu. Hannes rifjaði einnig upp baráttu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar gegn Davíð Oddssyni og ýmislegt annað sögulegt. Þátturinn var 113 mínútur.

Comments Off

Hvert stefnir Norðurálfan?

Árið 2024 gaf ECR-flokkurinn, European Conservative and Reformists Party, út bók eftir Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálum við Háskóla Íslands, Conservative Liberalism, North and South: Grundtvig, Einaudi and their Relevance Today. Hún skiptist í fjóra kafla. Fyrsti kaflinn er um rætur frjálslyndrar íhaldsstefnu í verkum íslenska sagnritarans Snorra Sturlusonar og ítalska heimspekingsins heilags Tómasar af Aquinas og smíði heilsteyptrar kenningar í verkum Johns Lockes, Davids Humes og Adams Smiths. Í frönsku stjórnarbyltingunni klofnaði þessi stefna í frjálslynda íhaldsstefnu Edmunds Burkes, Benjamins Constants og Alexis de Tocquevilles, sem hvíldi á virðingu fyrir sjálfsprottnum vernjum og tortryggni um hátimbruð kenningakerfi og félagslega frjálslyndisstefnu, sem þeir Thomas Paine og John Stuart Mill töluðu fyrir, en þeir hölluðust að rómantískri einstaklingshyggju. Í öðrum kaflanum er danska skáldið og presturinn N. F. S. Grundtvig kynntur til sögu sem talsmaður þjóðlegrar frjálshyggju, en þjóðernisstefna hans fól ekki í sér löngun til að undiroka eða smána menningu annarra þjóða, heldur var hún hvatning til dönsku þjóðarinnar um að vernda og þroska arfleifð sína, þjóðtungu, bókmenntir, sögu og þjóðhætti.

Í þriðja kaflanum er ítalski hagfræðingurinn Luigi Einaudi kynntur til sögu sem talsmaður frjálslyndra ríkjasambanda, sem litið hefði til þjóðernisstefnu með tortryggni. Einaudi hefði stefnt að Evrópu friðar, hagsældar og frelsis. Hann hefði trúað því, að þessum markmiðum yrði aðeins náð með evrópsku ríkjasambandi, en ekki lauslegra bandalagi eins og Pólland hefði verið, bandaríska ríkjabandalagið 1781–1789 og Þjóðabandalagið. Í fjórða kafla eru þjóðleg frjálshyggja Grundtvigs og frjálslynd alþjóðahyggja Einaudis bornar saman. Gerður er greinarmunur á norrænu leiðinni í samskiptum ríkja og evrópsku leiðinni. Norræna leiðin fælist í réttinum til aðskilnaðar (Noregur 1905, Finnland 1917, Ísland 1918), landamærabreytingum eftir atkvæðagreiðslur (Slésvík 1920), sjálfstjórn þjóðflokka (Álandseyjar, Færeyjar, Grænland) og samstarfi ríkja með lágmarksafsali fullveldis (Norðurlandaráð). Evrópska leiðin fælist í síaukinni miðstýringu, ógagnsæju og óábyrgu skrifstofubákni og aðgerðasinnum í dómarasætum.

RSE, Rannsóknamiðstöð í samfélags- og efnahagsmálum, og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála í Háskóla Íslands héldu saman alþjóðlega ráðstefnu í Reykjavík, sem helguð var bók Hannesar, og var hún undir yfirskriftinni: Hvert stefnir Evrópa? Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins (2005–2009), flutti ávarp við opnunina. Hann kvað fróðlegt að lesa það í bók Hannesar, að tveir menn, sem allir Íslendingar þekktu og virtu, íslenski sagnritarinn Snorri Sturluson og danska skáldið Nikolaj F. S. Grundtvig, hefðu lagt mikið af mörkum til hinnar frjálslyndu arfleifðar á Vesturlöndum, frjálslyndrar íhaldsstefnu eða frjálshyggju. Hann bætti við, að þeir Hannes hefðu átt samleið í meira en fimmtíu og fimm ár í Sjálfstæðisflokknum, og hefði Hannes haft mikil áhrif á Íslandi.

Danski sagnfræðingurinn dr. David Gress, sem gefið hefur út fjölda bóka, talaði um þjóðríkishugmyndina. Hann benti á, að þjóðernisstefna og frjálshyggja hefðu á nítjándu öld farið saman víða í Evrópu. Krafan um að stofna sjálfstætt þjóðríki hefði oft stuðlað að valddreifingu. Valdastéttin og alþýða manna hefðu sameinast í baráttunni fyrir sjálfstæði. Þetta hefði breyst á tuttugustu öld, eftir að verulegur hluti valdastéttarinnar hefði snúist gegn vestrænni menningu og eigin löndum undir merkjum Karls Marxs og annarra vinstri manna. Kominn væri til sögu ágreiningur alþýðu manna og valdastéttarinnar, sem hreiðrað hefði um sig í skrifstofum Brüssel-borgar og öðrum evrópskum höfuðborgum, í háskólum og fjölmiðlum. Þessi ágreiningur væri ekki síst um innflytjendur. Evrópskur almenningur neitaði að samþykkja, að innflytjendur frá múslimalöndum ættu að taka stjórn í löndum álfunnar og reyna að neyða verðmætamati sínu upp á aðra.

Dr. Alberto Mingardi, prófessor í stjórnmálaheimspeki í IULM háskóla í Mílanó og ritari Mont Pelerin samtakanna, lagði orð í belg um Luigi Einaudi og kenningar hans. Einaudi var forseti Ítalíu 1948–1955 og einn af feðrum „ítalska efnahagsundursins“, þegar ör hagvöxtur fylgdi auknu frelsi og stöðugleika eftir seinni heimsstyrjöld. Mingardi benti á, að í bók sinni gerði Hannes greinarmun á efnahagslegum samruna, sem væri æskilegur, og stjórnmálasamruna, sem væri ekkert annað en feluorð um aukna miðstýringu. Mingardi sagði Einaudi eflaust hafa fundið margt að lofa í Evrópusambandinu, sérstaklega innri markaðinn og herta samkeppni, en annað að lasta, einkum þróunina í átt til aukinnar miðstýringar. Nú væri verkefnið að minnka ríkisvaldið, ekki að færa það frá höfuðborgum aðildarríkjanna til Brüssel. Mingardi hefur samið umsögn um bók Hannesar á ítölsku, en tveir ritdómar hafa birst um hana á Íslandi, eftir Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, og Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi fjármálaráðherra.

Borwick lávarður, 5. barón Borwick, sem sæti á í bresku lávarðadeildinni, útskýrði Brexit, þá ákvörðun breskra kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2016 að ganga út úr Evrópusambandinu. Hann kvað flokksbróður sinn í Íhaldsflokknum, David Cameron, hafa verið sannfærðan um, að Evrópusambandssinnar myndu sigra í atkvæðagreiðslunni. Tilgangur hans með því að efna til hennar hefði verið að fjarlægja þrætuepli úr breskum stjórnmálum. Hann og nánast öll stjórnmálastéttin hefði alls ekki verið undir úrslitin búin. Borwick sagði, að hann og aðrir útgöngusinnar hefðu aðallega viljað endurheimta stjórn eigin mála. Þeir hefðu hins vegar haft rangt fyrir sér um, að úrslitin yrðu ráðin í sjálfri atkvæðagreiðslunni. Evrópusambandið hefði reynt að gera útgönguna eins erfiða og það framast gat, og stjórnmálastéttin hefði enn ekki gefist upp við að reyna aftur inngöngu. Borwick benti á, að önnur útganga hefði átt sér stað árið 1776, þegar íbúar í nýlendum Breta í Norður-Ameríku hefðu gengið út úr hinu fjarlæga breska heimsveldi og lýst yfir sjálfstæði. Þeir hefðu viljað taka stjórn eigin mála í sínar hendur í stað þess að lúta valdboði frá Lundúnum.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra og nú formaður Miðflokksins, mælti nokkur lokaorð. Hann kvaðst sammála ræðumönnunum um flest, nema ef til vill hrifningu Mingardis af ríkjasamböndum. Nú væri kominn tími til að verja hið evrópska þjóðríki. Sjálfur myndi hann berjast af öllum lífs og sálar kröftum gegn inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var ráðstefnustjóri. Í lokin töluðu tveir ungir menn fyrir hönd ungu kynslóðarinnar, Júlíus Viggó Ólafsson, formaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, og Haakon Teig frá samtökum norskra íhaldsstúdenta. Þeir töldu báðir, að unga kynslóðin væri að snúa sér að frjálslyndri íhaldsstefnu, ekki síst í andstöðu við vælumenninguna (wokeism) og afturköllunarfárið (cancel culture), sem riðið hefði yfir Vesturlönd. Ungt fólk væri að fá áhuga á menningararfleifð sinni, þar á meðal kristinni trú, sígildri húsagerðarlist og náttúrlegri myndlist.

Ráðstefnan var vel sótt, og í móttöku að henni lokinni mælti Hannes H. Gissurarson fyrir minni Hayeks, sem ætti afmæli í dag. Hann fæddist 8. maí 1899. Hannes benti á, að á ráðstefnunni væru þrír aðrir, sem hefðu með honum stofnað Félag frjálshyggjumanna á áttræðisafmæli Hayeks 8. maí 1979, þeir Friðrik Friðriksson, Skafti Harðarson og Auðun Svavar Sigurðsson. Hannes kvað einn mikilvægasta og áhrifamesta þáttinn í kenningum Hayeks vera sú hugmynd, að hver og einn einstaklingur hefði aðeins til að bera lítið brot af allri þeirri þekkingu, sem menn þyrftu á að halda, en það, sem gerði þeim kleift að nýta sér þekkingu hver annars, væri frjáls verðmyndun í rúmi og reynsluvit kynslóðanna í tíma. Þetta flytti hvort tveggja þekkingu milli manna.

Að ráðstefnunni lokinni bauð RSE ræðumönnum og nokkrum þeim, sem höfðu lagt sitt af mörkum til hennar, í kvöldverð á veitingastaðnum Tides, þar sem meðal annars var drukkið rauðvín frá vínekru Luigis Einaudis, en á matseðlinum voru íslenskt fjallalamb og skyr, svo að í boði voru afurðir bæði frá Suður- og Norður-Evrópu. Frá v.: Guðlaugur Þór Þórðarson, fyrrverandi utanríkisráðherra, Breti Atlason, Students for Liberty Europe, Alberto Mingardi, Ragnar Árnason (formaður rannsóknaráðs RSE), Hannes H. Gissurarson, David Gress, Haakon Teig, Lukas Schweiger, verkefnastjóri hjá RSE, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Borwick lávarður.

Comments Off

Hannes í hlaðvarpinu Sláin inn

Rannsóknastjóri RNH, Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í Háskóla Íslands, var gestur Birgis Liljars Soltanis í hlaðvarpinu „Sláin inn“ 3. maí 205. Ræddi hann þar meðal annars tollastríð Trumps Bandaríkjaforseta, vælumenningu (wokeism) og afturköllunarfár (cancel culture) háskóla og fjölmiðla, átökin í Ísrael og hryðjuverkasamtökin Hamas og veiðigjöld í íslenskum sjávarútvegi. Þátturinn var 59 mínútur.

Comments Off

Hannes í Lestinni í Ríkisútvarpinu

Rannsóknastjóri RNH, Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í Háskóla Íslands, var gestur „Lestarinnar“ í Ríkisútvarpinu 3. apríl, sem þau Kristján Guðjónsson og Lóa Björk Björnsdóttir sáu um. Talaði hann um bandaríska hægrið. Hann sagði meðal annars frá kynnum sínum af Milton Friedman, Margréti Thatcher, Peter Thiel og öðru hægra fólki og dvöl sinni í Kísildalnum. Hann sagði kost og löst á Trump-stjórninni og greindi muninn á frjálshyggju annars vegar og bandarískri frjálslyndisstefnu (liberalism) hins vegar. Þátturinn var 55 mínútur.

Comments Off

Hannes kynnir bók sína í Reykjavík

Dr. Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, kynnti bók sína, Conservative Liberalism, North and South: Grundtvig, Einaudi and their Relevance Today, á fjölmennum hádegisverðarfundi SES, Samtaka eldri sjálfstæðismanna í Reykjavík 26. mars 2025. Fundarstjóri var Bessí Jóhannsdóttir, formaður SES. Hannes kvaðst hafa orðið var við mikinn áhuga frjálslyndra íhaldsmanna í Evrópu á hinni fornu norrænu frjálshyggjuarfleifð, og hefðu samtök evrópskra íhaldsflokka beðið sig að gera þann samanburð á norrænni og suðrænni frjálshyggju, sem bókin geymdi. Þrír helstu hugsuðir norrænnar frjálshyggju væru íslenski sagnritarinn Snorri Sturluson, finnsk-sænski presturinn og þingmaðurinn Anders Chydenius og danska skáldið og presturinn Nikolai F. S. Grundtvig. Í bókinni hefði hann einbeitt sér að Grundtvig, sem hefði sérstöðu meðal frjálshyggjuhugsuða, því að hann hefði verið þjóðernissinni ekki síður en frjálshyggjumaður, eindreginn stuðningsmaður þess að Danir og aðrar norrænar þjóðir ræktuðu menningararf sinn. En þjóðernisstefna Grundtvigs hefði verið friðsöm, ekki áreitin. Hann hefði til dæmis ekki viljað, að Danmörk legði alla Slésvík undir sig, heldur aðeins þann hluta héraðsins, sem væri dönskumælandi og vildi vera í Danmörku. Danmörk háði tvö stríð við þýsku ríkin um Slésvík og beið ósigur í hinu síðara, 1864, en árið 1920 varð hugmynd Grundtvigs að veruleika, þegar íbúar í Norður-Slésvík (eða Suður-Jótlandi) greiddu atkvæði með því að sameinast Danmörku, en íbúar í Suður-Slésvík með því að sameinast Þýskalandi.

Hannes sagði, að greina mætti norræna leið, leið Grundtvigs, í alþjóðastjórnmálum: 1) Réttur þjóða til sjálfsákvörðunar, þar á meðal til að segja sig úr lögum við aðra þjóðir, eins og Norðmenn gerðu 1905, Finnar 1917 og Íslendingar 1918. 2) Landamærabreytingar við atkvæðagreiðslur, eins og í Slésvík 1920, þegar norðurhlutinn vildi tilheyra Danmörku og suðurhlutinn Þýskalandi. 3) Sjálfstjórn þjóðabrota, eins og Álandseyinga, Færeyinga, Grænlendinga og Sami-þjóðflokkanna. 4) Lausn ágreiningsmála fyrir dómstólum, til dæmis Svía og Finna um Álandseyjar 1921 og Dana og Norðmanna um Austur-Grænland 1933. 5) Ríkjasamstarf með lágmarksafsali fullveldis, í Norðurlandaráði og margvíslegu öðrum samstarfi.

Hannes vék að ýmsum ágreiningsmálum í alþjóðamálum. Í Úkraínu hefði myndast svipað þrátefli og í fyrri heimsstyrjöld, og frekari blóðsúthellingar væru því fánýtar. Semja yrði vopnahlé sem fyrst, en láta mætti liggja milli hluta, hvernig framtíðarskipan mála yrði.  Úkraínumenn ættu hins vegar sama sjálfsákvörðunarrétt og aðrar þjóðir. Hannes kvaðst vera lítt hrifinn af stjórnarfari í Rússlandi, en utanríkisstefna Íslendinga ætti aðallega að vera að selja fisk, en ekki að frelsa heiminn, enda væri það ekki á færi smáþjóðar. Íslendingar hefðu ekki tekið þátt í viðskiptabanni á Ítalíu 1936, enda hefði þar verið góður markaður fyrir íslenskan saltfisk, og þeir hefðu 1953 snúið sér til Ráðstjórnarríkjanna, eftir að breskir útgerðarmenn settu á þá löndunarbann vegna útfærslu landhelginnar.

Í Ísrael hefði herinn sýnt mikil tilþrif og nánast lagt að velli Hamas og Hesbollah og auðmýkt klerkastjórnina í Íran. Hugmynd Trumps um að veita íbúum á Gaza skjól annars staðar ætti sér margar sögulegar hliðstæður: Ein milljón Grikkja hefði flúið frá Tyrklandi 1922; 400 þúsund Finnar hefðu flúið frá Karelíu 1940; 10–12 milljónir þýskumælandi manna hefðu verið reknar út úr Austur-Evrópu 1945; 700 þúsund Arabar hefðu flúið frá Ísrael og 800 þúsund gyðingar frá Arabaríkjunum við stofnun Ísraelsríkis 1948; hátt í milljón frönskumælandi manna hefði flúið frá Alsír 1962. Jafnfáránlegt væri að krefjast vopnahlés í stríði Ísraelshers við Hamas-hryðjuverkasamtökin og verið hefði að krefjast vopnahlés í Þýskalandi vorið 1945. Ráða yrði niðurlögum Hamas eins og nasistanna forðum. Nú væri hins vegar aðalatriðið að koma í veg fyrir, að klerkastjórnin í Íran smíðaði kjarnorkuvopn.

Bessí og Hannes.

Hannes vék einnig að íslenskum stjórnmálum. Hann sagði kosningarnar í nóvemberlok 2024 hafa verið sögulegar, því að þær hefði markað endalok fjórflokkakerfisins, sem staðið hefði frá 1930, þegar kommúnistaflokkurinn var stofnaður, en hann breyttist síðar í Sósíalistaflokkinn, þá í Alþýðubandalagið og loks í Vinstri græna. Nú væri þetta fjórða afl, sem hefði um langt skeið verið stærra en Alþýðuflokkurinn, horfið. Fróðlegt yrði að sjá, hvernig vinstri jaðarinn myndi bregðast við, en ef hann gengi fram í þremur eða fjórum flokkum, fengi hann engin þingsæti og atkvæði greidd honum féllu niður dauð. Í rauninni hefði orðið sveifla til hægri í kosningunum, þótt Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki notið þess sérstaklega. Hann kvað upphlaupið í kringum afsögn barnamálaráðherra hafa snúist um aukaatriði og einkamál. Eina atriðið, sem máli skipti, væri, ef það var mat barnamálaráðherra, að hún hefði fyrir mörgum áratugum gerst sek um athæfi, sem ekki væri sæmandi barnamálaráðherra, hvers vegna hún tók þá þetta embætti að sér. Sagði hún þá aðeins af sér, vegna þess að upp komst um athæfið?

Margar spurningar voru bornar fram að lokinni framsöguræðu Hannesar, meðal annars um landsdómsmálið, Arabaríkin og málfrelsi í háskólum. Hannes kvað furðulegt, hvers vegna þeir Geir H. Haarde, Árni M. Mathiesen, Björgvin G. Sigurðsson og Jónas Fr. Jónsson hefðu sætt ásökunum í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu, en ekki þau Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Jón Sigurðsson. Raunar væri óeðlilegt að tala um sök í þessu sambandi. Þetta hefði verið „svartur svanur“, óvænt áfall að utan. Eina alvarlega brotið á réttum stjórnsýsluvenjum hefði verið, að bankamálaráðherrann hefði ekki komið að þeirri ákvörðun ríkisins að kaupa banka í septemberlok 2008, en það hefði verið ákvörðun Ingibjargar Sólrúnar. Hannes kvað Abrahamssáttmálann milli Ísraels og nokkurra Arabaríkja vonandi varða veginn til frekara samstarfs. Miklir möguleikar væru í samstarfi Ísraels með alla sína þekkingu og Arabaríkjanna með allt sitt fjármagn. Hannes kvað aðaláhyggjuefnið ekki vera beina ritskoðun, heldur óbeina og ósýnilega. Í háskólum kæmust menn ekki áfram, fengju ekki stöður, styrki til rannsókna og birtingar í tímaritum, hefðu þeir ekki viðteknar skoðanir, til dæmis um sambúð kynjanna eða hlýnun jarðar. Sagði hann nokkrar sögur af vist sinni í félagsvísindadeild, og hlógu fundarmenn dátt undir þeim.

Hannes lauk máli sínu á því að segja, að í alþjóðamálum ættu Íslendingar að fylgja ráðum Einars Þveræings og vera vinir allra, en þegnar einskis.

Comments Off

Grundtvig og Einaudi eiga enn erindi

Rannsóknastjóri RNH, Hannes H. Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, kynnti nýja bók sína, Conservative Liberalism, North and South: Grundtvig, Einaudi, and their Relevance Today, 18. mars 2025 á þingi Mont Pelerin samtakanna, sem haldið var í Mexíkóborg 16.–19. mars. Hannes benti á, að danski presturinn og sálmaskáldið N. F. S. Grundtvig hefði verið einn áhrifamesti Dani allra tíma. Hann hefði fyllt í skarð í kenningakerfi frjálshyggjunnar með hinni þjóðlegu frjálshyggju sinni, virðingu fyrir margvíslegum sjálfsprottnum samtökum, fjölskyldum, félögum, söfnuðum, klúbbum, samyrkjubúum hins borgaralega skipulags, en umfram allt virðingu fyrir þjóðinni, en í slíkum samtökum hefðu einstaklingar getað átt heima og víkkað út sjálf sín. Með þessu fetaði Grundtvig í fótspor þeirra Edmunds Burkes, Benjamins Constants og Alexis de Tocquevilles, sem hefðu allir skýrt, hvers vegna franska stjórnbyltingin hefði mistekist, með því, að í Frakkland hefðu ekki verið til allar þessar stofnanir, sem staðið gætu milli ríkis og einstaklinga og haft það tvíþætta hlutverk að þjálfa fólk í félagslegri aðlögun og setja valdi ríkisins skorður.

Að sögn Hannesar mætti greina sérstaka norræna leið í alþjóðastjórnmálum. 1) Réttinn til aðskilnaðar eins og í Noregi 1905, Finnlandi 1917 og á Íslandi 1918. 2) Tilfærsla landamæra samkvæmt atkvæðagreiðslum eins og í Slésvík 1920. 3) Sjálfstjórn þjóðernisminnihluta eins og á Álandseyjum, í Færeyjum og á Grænlandi og í löndum Sámi-þjóðflokkanna nyrst á Norðurlöndum. 4) Lausn ágreiningsmála fyrir alþjóðlegum dómstólum eins og gert var um Álandseyjar milli Finnlands og Svíþjóðar 1921 og um Grænland milli Danmerkur og Noregs 1933. 5) Samstarf og samruni með lágmarksafsali fullveldis eins og í Norðurlandaráði og með samningum um margvíslegt norrænt samstarf, þar á meðal afnám vegabréfa, gagnkvæm lagaleg réttindi og fulla aðild að vinnumarkaði.

Hannes bar saman þjóðlega frjálshyggu Grundtvigs og hugmynd ítalska hagfræðingsins Luigis Einaudis um ríkjasamband Evrópu, en Einaudi var forseti Ítalíu 1948–1955. Hann hefði sannfærst um það í tveimur heimsstyrjöldum, að eina ráðið til að verja valddreifingu, viðskiptafrelsi og einkaeignarrétt — þrjú frumgildi frjálshyggjunnar — væri ríkjasamband Evrópu, Evrópusamband. Hannes kvað Evrópusambandið ekki hafa þróast í þá átt, sem Einaudi hefði séð fyrir sér. Evrópusamruninn í efnahagsmálum hefði tekist vonum framar, en Evrópusamruninn í stjórnmálum, sem hefðu hafist upp úr 1990, hefði ekki aðeins ógnað þjóðríkjunum, heldur líka einstaklingsfrelsinu. Evrópa ætti að vera opinn markaður, en ekki lokað ríki. Hannes nefndi ýmsar hugsanlegar umbætur í anda Einaudis til að ná upphaflegum tilgangi sambandsins. 1) Að færa löggjafarvaldið frá hinni ógagnsæju, ábyrgðarlausu og umboðslausu framkvæmdastjórn til Evrópuþingsins. 2) Að skipta Evrópuþinginu í tvær deildar, í Brüssel og Strassborg, þar sem önnur væri núverandi þing, valið í almennum kosningum, en hin tæki við af ráðherraráði Evrópu og væri skipuð fulltrúum ríkja. 3) Að breyta framkvæmdastjórninni í venjulegt stjórnarráð, sem hefði það hlutverk að hrinda ákvörðunum lýðræðislegra kjörinna fulltrúa í framkvæmd. 4) Að skipta Dómstól Evrópusambandsins í tvo dómstóla, þar sem annar úrskurðaði aðeins um, hvort nálægðarreglan hefði verið brotin, en hinn sinnti öðrum verkefnum. 5) Að breyta reglum um val dómara í þessa dómstóla, svo að þeir væru ekki aðeins skipaðir sérstökum áhugamönnum um samrunaþróun, eins og títt væri um svokallaða Evrópusérfræðinga, heldur reyndum dómurum, sem þjálfaðir væru í dæma eftir lögum og ekki áhugamálum. Nú ynnu bæði framkvæmdastjórnin og Dómstóll Evrópusambandsins ötullega að aukinni miðstýringu.

Fjörugar umræður urðu að lokinni tölu Hannesar. Áheyrendur höfðu sérstakan áhuga á hinni norrænu stjórnmálahefð frelsis innan marka laganna, sem rekja mætti alla leið til germanskra þjóðflokka, en þeim hefði rómverski sagnritarinn Tacitus lýst fyrir tvö þúsund árum. Hannes tók fram, að það væri tímaskekkja að telja Snorra Sturluson frjálshyggjumann, en margar hugmyndir frjálshyggjunar gæti þó að líta á verkum hans, vald með samþykki, mótstöðuréttinn, virðingu fyrir einkaeignarrétti og skilningur á kostum alþjóðaviðskipta. Hannes lagði einnig orð í belg í almennum umræðum á þinginu. Í umræðum um hugtakið Ameríku, eftir að minnst hafði verið á, að Evrópumenn hefðu fundið álfuna fimm hundruð árum á undan Kristófer Kólumbusi, minnti Hannes á gamanyrði Oscars Wildes, að Íslendingar hefðu fundið Ameríku, en verið svo skynsamir að týna henni aftur. Hannes minnti líka á ummæli þýska heimspekingsins Lichtenbergs: Sá Ameríkumaður, sem fyrstur fann Kólumbus, var heldur betur óheppinn. Hannes lagði þó áherslu á, að Ameríka og Evrópu ættu sér sameiginlega stjórnmálahefð, þar sem væri frelsi undir marka laganna.

Þau Roberto Salinas og Bertha Pantoja skipulögðu þing Mont Pelerin samtakanna í Mexíkóborg og gerðu það með ágætum. Á meðal ræðumanna voru bandarísk-líbaníski rithöfundurinn Nassim Taleb, perúvíski lögfræðingurinn Enrique Ghersi, Hannan lávarður af Highclere, og prófessorarnir Thomas Hazlett, Randall Holcombe, Deirdre McCloskey og George Selgin.

Comments Off